"Tja ... fyrst kemur upp í hugann silfurhálsmenið sem ég splæsti á mig í Bandaríkjunum í sumar. Það er stórt, Bárulegt, með laufblaði enda er ég líka fædd að vori. Mér finnst það algjört æði og nota það mikið spari. Ég keypti það af listakonunni Lindu Van Harte. Hún býr til ótrúlega fallega silfurskartgripi," segir Bára en skemmtileg saga er á bak við hálsmenið. "Ég hitti Lindu á Common Ground-hátíðinni í Westminster nálægt Baltimore í júlí síðastliðnum. Ég heimsótti hana en hún býr í yndislegri sveit í litlu húsi, gamalli póststöð sem var byggð fyrir borgarastyrjöldina, þar er hún með vinnustofu sína í útihúsi. Ég varð líka að heilsa upp á geitina hennar Benjamín og fóðra hana með blöðum af grátvíði. Einnig sá ég óvæntan gest í garðinum hennar, lítinn dádýrskálf."Bára hefur ekki alveg skilið við listakonuna. "Nei, ég býst við að hitta Lindu aftur næsta sumar og þá ætla ég að kaupa fleiri skartgripi hjá henni," segir Bára, sem er ekki mikil tískufrík. "Ég er ekkert voða dugleg að fylgja tískustraumum. Ég hef í gegnum tíðina verslað mikið á mörkuðum erlendis. Ég hef verið mikið í Englandi síðastliðin tvö ár og þar hef ég stundum keypt föt á góðu verði í verslunum sem góðgerðarstofnanir reka. Þar kennir ýmissa grasa og það er gaman að gramsa," segir Bára, sem hefur gert góð kaup í þannig verslunum. "Í sumar fann ég einmitt í slíkri búð þunna, dökkgula gollu sem ég hef notað mikið. Það var gott að vera í henni til að verjast sólbruna á handleggjunum og inni á stöðum með mikilli loftkælingu. Hér heima á Fróni smeygi ég mér gjarnan í hana þegar ég þarf að vera snyrtilega klædd."
Tíska og hönnun