Heimilislausar konur í athvarf
Athvarfið var raunar opnað fyrir nokkrum dögum og reynslan hefur þegar sýnt að full þörf var fyrir það, að sögn Brynhildar. "Þar hafa gist allt upp í fjórar konur á nóttu," sagði hún. "Við erum ekki í neinum vafa um að athvarfið á eftir að verða fullnýtt allan ársins hring. Það tekur bara tíma að koma þessu af stað." Næturathvarfið Konukot er í Eskihlíð 4. Félagsþjónustan lagði húsnæðið til, en það er rekið af Reykjavíkurdeild RKÍ. Þar eru rúm fyrir átta konur auk hreinlætis- og þvottaaðstöðu. Samkvæmt þarfagreiningu sem Reykjavíkurdeildin hefur látið gera eru allt að fjórir tugir kvenna í Reykjavík heimilislausar. Flestar eru á aldrinum 20 - 50 ára, en nær allar eiga þessar konur það sameiginlegt að vera í fíkniefnaneyslu.