Um Moggann og bíóin 11. desember 2004 00:01 Birtist í DV 11. desember 2004 Það er rosalega áberandi hvað er miklu meira af auglýsingum í Fréttablaðinu en Mogganum fyrir þessi jól. Maður horfir á að Fréttablaðið sé endanlega búið að taka yfir markaðinn. Það hlýtur að vera sárt fyrir þá á Morgunblaðinu sem til skamms tíma gátu deilt og drottnað í auglýsingaheiminum, settu upp það verð sem þeir vildu og allir borguðu. Mér hefur raunar alltaf verið fjárhagsstaða Fréttablaðsins dálítil ráðgáta - að það geti yfirleitt staðið undir sér? En með öllu þessu auglýsingaflóði og aukablöðum má vel vera að allt sé í sómanum. Nú ætlar Morgunblaðið að selja frá sér eignir á besta stað í bænum, flytja úr Kringlunni í ... Hádegismóa. Þessi staður mun vera fyrir norðan Rauðavatn. Þar hefur þegar risið prentsmiðjan sem sögð er vera að sliga blaðið. Maður vonar bara að Mogginn sé ekki að selja borðsilfrið, líkt og stundum er komist að orði um þá sem eiga í kröggum. Ég veit ósköp lítið um rekstur Morgunblaðsins, ekki umfram það sem bæjarrómur segir. Móðgaður rithöfundur sem ekki fær inni í blaðinu skrifar á bloggsíðu sína í vikunni: "Það skyldi þó aldrei vera að ég yrði langlífari en Mogginn? Ekkert er varanlegt í tilverunni og ég veit ekki betur en óveðursskýin hlaðist upp yfir blaðinu." En rithöfundurinn er kannski ekki góð heimild? Ég trúi ekki að verði mikill fögnuður á Morgunblaðinu við flutningana. Sjálfur vinn ég í fyrirtæki sem er á mjög asnalegum stað, í miðju verksmiðjuhverfi, ekki langt frá framtíðarstað Moggans. Þar braust út mikill fögnuður nýskeð þegar opnaði konditori í hverfinu - áður hafði ekki verið neitt nema dekkjaverkstæði, jú, og svo Ríkið hinum megin við götuna. Annars voru menn bara að gaufast í mötuneytinu. Eitt sinn var talið sjálfsagt að fjölmiðlar væru sem næst hringiðu bæjarlífsins. Blöðin voru niðri í bæ. Blaðamenn gengu einfaldlega út og hittu viðmælendur sína. Á bæjarröltinu. Það er erfitt að hugsa sér blaðamann á röltinu við Rauðavatn - þá væntanlega í goritex að tala við rjúpu sem er að villast eða mink. Það var svo um miðjan áttunda áratuginn að blöðin tóku að flytja upp í Síðumúla þar sem á næstu árum myndaðist vísir að einhvers konar "Fleet Steet". Kraftaverkamaðurinn Kiddi Finnboga hafði vélað þar um með stofnun prentsmiðjunnar Blaðaprents. Þarna voru á mestu velmektarárunum Tíminn, Þjóðviljinn, Vísir, Dagblaðið, Alþýðublaðið og Helgarpósturinn. Morgunblaðið var enn á sínum stað, í höllinni við Aðalstræti. Svo flosnaði þetta allt upp. Ég bind ekki neitt söknuð við það, eyddi mörgum árum í og við Síðumúlann og get seint sagt að það sé skemmtileg gata. Þarna voru tvær ljótar og leiðinlegar sjoppur. Hægt að labba á bjórkrá í Skipholti - eftir að bjórlíkið kom. Algjört stemmingsleysi. Margt skemmtilegt fólk vann í hverfinu, en það hittist aldrei. Flest þessara blaða fóru svo á hausinn, DV flutti í hús við Þverholt en Mogginn var allt í einu farinn úr bænum upp í Kringlu. Og nú er þetta blað sem eitt sinn virtist stöðugra en allt sem stöðugt er í tilverunni aftur að flytja. Ég veit ekki - kannski átti það aldrei að flytja úr bænum? Morgunblaðshöllin er tákn sem missti merkingu sína. Nú eru flestir löngu búnir að sætta sig við bygginguna þótt hún hafi verið stílbrot í miðbænum á sínum tíma, vakið haturstilfinningar hjá sumum. Hún er eiginlega alveg hætt að minna á kalda stríðið. En svo er það kátlegt að fjölmiðillinn sem á sínum tíma fjallaði mest um sprungusvæðið við Rauðavatn og hættuna við að vinstri flokkarnir í borgarstjórn færu að byggja þar, skuli einmitt velja sér stað - tuttugu árum síðar - á sprungusvæðinu við Rauðavatn. Sjálfur vona ég innilega að Mogginn detti ekki niður um sprungu - við getum mjög illa verið án hans. --- --- ---Er hætt að framleiða kvikmyndir nema fyrir unglinga eða eru myndir fyrir fullorðið fólk einfaldlega ekki fluttar til Íslands? Núna um helgina er verið að frumsýna þrjár myndir í bíóunum í Reykjavík. Fréttablaðið veitir okkur þá ágætu þjónustu að greina frá dómum sem þessar myndir hafa fengið fyrir vestan haf. Surviving Christmas fær 4,5/10 hjá Internet Movie Database, 7% = rotin hjá Rottentomatoes, 18/100 hjá Metacritic.com - þetta eru fjarska nákvæmar einkunnagjafir. Saw fær 7,3/10 hjá Internet Movie Database, 46% hjá Rottentomatoes, 44/100 hjá Metacritic.com. Paparazzi fær 5,6/10, 30% og 36/100. Engum þarf semsagt að blandast hugur um að þessar myndir eru rusl. Þær ná ekki einu sinni að slefast yfir falleinkun hjá gagnrýnendum sem eru sjálfsagt ýmsu vanir úr þessari átt. Í vikunni var líka frumsýnd síðbúin viðbót úr flokknum um drápshneigðu brúðuna Chucky í nokkrum bíóum borgarinnar. Hún fær eina stjörnu af fimm í Morgunblaðinu á föstudag, gagnrýnandinn segir að hún sé "sorgleg lágkúra". Þetta er semsagt úrvalið. Það er pínulítill hópur bisnessmanna sem hefur lagt undir sig kvikmyndahúsin hér. Ég sé ekki að neinn þeirra hafi áhuga á kvikmyndum sem öðru en söluvarningi - til að pranga ofan í unglinga. Yfirleitt eru sömu myndirnar sýndar í sölum út um allan bæ. Þær eru næstum alltaf amerískar - þarf ekki að taka fram að ofannnefndar myndir eru allar þaðan. Stundum slæðist með bresk mynd, en þá er hún yfirleitt framleidd með amerískan smekk í huga, líkt og serían um Bridget Jones. Bridget er einmitt eina "evrópska" myndin sem er sýnd í bíóunum þessa vikuna. Fyrir tíu árum skrifaði ég um kvikmyndir í vikublað sem er löngu dautt. Eitt árið taldist mér til að ég hefði séð 155 myndir. Þá var ég raunar kominn með algjört ógeð. Eigendur kvikmyndahúsa kveinkuðu sér oft undan skrifum mínum, þótt aldrei kæmi til þess að mér væri ekki hleypt inn í bíóin. Eftir á sé ég að á þessum tíma komu oft ágætar myndir í kvikmyndahúsin, sumar teljast jafnvel klassík núorðið. Ég nefni Rauðan eftir Kieslowski, nýsjálensku myndina Heavenly Creatures, The Piano, The Shawshank Redemption og Quiz Show. Allt myndir fyrir fullorðið fólk. Heimspekingur hér í bæ varði kvikmyndamenninguna mjög fimlega í í grein sem hann skrifaði fyrir nokkrum árum. Sagði að einhvern tíma yrði litið á blómaskeið Hollywood eins og Flórens á endurreisnartímanum - sem tíma taumlausrar sköpunargleði og nýrra krafta sem leystust úr læðingi. Það má rétt vera; blómaskeið kvikmyndaborgarinnar var æðislegur uppgangstími. En þá er líka erfitt að verjast þeirri tilhugsun að tími hnignunarinnar sé runninn upp og allt sokkið í fúlan pytt gróðahugsunar sem þekkir engin listræn gildi. Altént hefur mig langað í bíó í marga mánuði en aldrei getað fundið neina mynd sem ég gæti hugsað mér að sjá. Ég er jafnvel tilbúinn að slá aðeins af kröfunum - svo ég verði ekki álitinn of forpokaður. Eða þarf maður kannski að fara til útlanda til að komast í bíó? Það væri kannski hugmynd fyrir flugfélögin: Icelandair býður bíóferð til Parísar, London og New York. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Blaðagreinar Pistlar Silfur Egils Mest lesið Örvæntingarfullur maður sker út grasker Þórður Snær Júlíusson Skoðun Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Gerum þetta að kosningamáli Ágúst Ólafur Ágústsson Skoðun Sjálfstæðisflokkur hækkar kostnað heimilanna Kristrún Frostadóttir Skoðun Stóri grænþvotturinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Fyrirmyndarstjórn Viðreisnar og Samfylkingar á Reykjavíkurborg? Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Hvar er mannúðin? Davíð Sól Pálsson Skoðun Ölmusuhagkerfið Unnur Rán Reynisdóttir Skoðun Vitsmunaleg vanstilling í boði ungra Sjálfstæðiskvenna Erna Mist Skoðun
Birtist í DV 11. desember 2004 Það er rosalega áberandi hvað er miklu meira af auglýsingum í Fréttablaðinu en Mogganum fyrir þessi jól. Maður horfir á að Fréttablaðið sé endanlega búið að taka yfir markaðinn. Það hlýtur að vera sárt fyrir þá á Morgunblaðinu sem til skamms tíma gátu deilt og drottnað í auglýsingaheiminum, settu upp það verð sem þeir vildu og allir borguðu. Mér hefur raunar alltaf verið fjárhagsstaða Fréttablaðsins dálítil ráðgáta - að það geti yfirleitt staðið undir sér? En með öllu þessu auglýsingaflóði og aukablöðum má vel vera að allt sé í sómanum. Nú ætlar Morgunblaðið að selja frá sér eignir á besta stað í bænum, flytja úr Kringlunni í ... Hádegismóa. Þessi staður mun vera fyrir norðan Rauðavatn. Þar hefur þegar risið prentsmiðjan sem sögð er vera að sliga blaðið. Maður vonar bara að Mogginn sé ekki að selja borðsilfrið, líkt og stundum er komist að orði um þá sem eiga í kröggum. Ég veit ósköp lítið um rekstur Morgunblaðsins, ekki umfram það sem bæjarrómur segir. Móðgaður rithöfundur sem ekki fær inni í blaðinu skrifar á bloggsíðu sína í vikunni: "Það skyldi þó aldrei vera að ég yrði langlífari en Mogginn? Ekkert er varanlegt í tilverunni og ég veit ekki betur en óveðursskýin hlaðist upp yfir blaðinu." En rithöfundurinn er kannski ekki góð heimild? Ég trúi ekki að verði mikill fögnuður á Morgunblaðinu við flutningana. Sjálfur vinn ég í fyrirtæki sem er á mjög asnalegum stað, í miðju verksmiðjuhverfi, ekki langt frá framtíðarstað Moggans. Þar braust út mikill fögnuður nýskeð þegar opnaði konditori í hverfinu - áður hafði ekki verið neitt nema dekkjaverkstæði, jú, og svo Ríkið hinum megin við götuna. Annars voru menn bara að gaufast í mötuneytinu. Eitt sinn var talið sjálfsagt að fjölmiðlar væru sem næst hringiðu bæjarlífsins. Blöðin voru niðri í bæ. Blaðamenn gengu einfaldlega út og hittu viðmælendur sína. Á bæjarröltinu. Það er erfitt að hugsa sér blaðamann á röltinu við Rauðavatn - þá væntanlega í goritex að tala við rjúpu sem er að villast eða mink. Það var svo um miðjan áttunda áratuginn að blöðin tóku að flytja upp í Síðumúla þar sem á næstu árum myndaðist vísir að einhvers konar "Fleet Steet". Kraftaverkamaðurinn Kiddi Finnboga hafði vélað þar um með stofnun prentsmiðjunnar Blaðaprents. Þarna voru á mestu velmektarárunum Tíminn, Þjóðviljinn, Vísir, Dagblaðið, Alþýðublaðið og Helgarpósturinn. Morgunblaðið var enn á sínum stað, í höllinni við Aðalstræti. Svo flosnaði þetta allt upp. Ég bind ekki neitt söknuð við það, eyddi mörgum árum í og við Síðumúlann og get seint sagt að það sé skemmtileg gata. Þarna voru tvær ljótar og leiðinlegar sjoppur. Hægt að labba á bjórkrá í Skipholti - eftir að bjórlíkið kom. Algjört stemmingsleysi. Margt skemmtilegt fólk vann í hverfinu, en það hittist aldrei. Flest þessara blaða fóru svo á hausinn, DV flutti í hús við Þverholt en Mogginn var allt í einu farinn úr bænum upp í Kringlu. Og nú er þetta blað sem eitt sinn virtist stöðugra en allt sem stöðugt er í tilverunni aftur að flytja. Ég veit ekki - kannski átti það aldrei að flytja úr bænum? Morgunblaðshöllin er tákn sem missti merkingu sína. Nú eru flestir löngu búnir að sætta sig við bygginguna þótt hún hafi verið stílbrot í miðbænum á sínum tíma, vakið haturstilfinningar hjá sumum. Hún er eiginlega alveg hætt að minna á kalda stríðið. En svo er það kátlegt að fjölmiðillinn sem á sínum tíma fjallaði mest um sprungusvæðið við Rauðavatn og hættuna við að vinstri flokkarnir í borgarstjórn færu að byggja þar, skuli einmitt velja sér stað - tuttugu árum síðar - á sprungusvæðinu við Rauðavatn. Sjálfur vona ég innilega að Mogginn detti ekki niður um sprungu - við getum mjög illa verið án hans. --- --- ---Er hætt að framleiða kvikmyndir nema fyrir unglinga eða eru myndir fyrir fullorðið fólk einfaldlega ekki fluttar til Íslands? Núna um helgina er verið að frumsýna þrjár myndir í bíóunum í Reykjavík. Fréttablaðið veitir okkur þá ágætu þjónustu að greina frá dómum sem þessar myndir hafa fengið fyrir vestan haf. Surviving Christmas fær 4,5/10 hjá Internet Movie Database, 7% = rotin hjá Rottentomatoes, 18/100 hjá Metacritic.com - þetta eru fjarska nákvæmar einkunnagjafir. Saw fær 7,3/10 hjá Internet Movie Database, 46% hjá Rottentomatoes, 44/100 hjá Metacritic.com. Paparazzi fær 5,6/10, 30% og 36/100. Engum þarf semsagt að blandast hugur um að þessar myndir eru rusl. Þær ná ekki einu sinni að slefast yfir falleinkun hjá gagnrýnendum sem eru sjálfsagt ýmsu vanir úr þessari átt. Í vikunni var líka frumsýnd síðbúin viðbót úr flokknum um drápshneigðu brúðuna Chucky í nokkrum bíóum borgarinnar. Hún fær eina stjörnu af fimm í Morgunblaðinu á föstudag, gagnrýnandinn segir að hún sé "sorgleg lágkúra". Þetta er semsagt úrvalið. Það er pínulítill hópur bisnessmanna sem hefur lagt undir sig kvikmyndahúsin hér. Ég sé ekki að neinn þeirra hafi áhuga á kvikmyndum sem öðru en söluvarningi - til að pranga ofan í unglinga. Yfirleitt eru sömu myndirnar sýndar í sölum út um allan bæ. Þær eru næstum alltaf amerískar - þarf ekki að taka fram að ofannnefndar myndir eru allar þaðan. Stundum slæðist með bresk mynd, en þá er hún yfirleitt framleidd með amerískan smekk í huga, líkt og serían um Bridget Jones. Bridget er einmitt eina "evrópska" myndin sem er sýnd í bíóunum þessa vikuna. Fyrir tíu árum skrifaði ég um kvikmyndir í vikublað sem er löngu dautt. Eitt árið taldist mér til að ég hefði séð 155 myndir. Þá var ég raunar kominn með algjört ógeð. Eigendur kvikmyndahúsa kveinkuðu sér oft undan skrifum mínum, þótt aldrei kæmi til þess að mér væri ekki hleypt inn í bíóin. Eftir á sé ég að á þessum tíma komu oft ágætar myndir í kvikmyndahúsin, sumar teljast jafnvel klassík núorðið. Ég nefni Rauðan eftir Kieslowski, nýsjálensku myndina Heavenly Creatures, The Piano, The Shawshank Redemption og Quiz Show. Allt myndir fyrir fullorðið fólk. Heimspekingur hér í bæ varði kvikmyndamenninguna mjög fimlega í í grein sem hann skrifaði fyrir nokkrum árum. Sagði að einhvern tíma yrði litið á blómaskeið Hollywood eins og Flórens á endurreisnartímanum - sem tíma taumlausrar sköpunargleði og nýrra krafta sem leystust úr læðingi. Það má rétt vera; blómaskeið kvikmyndaborgarinnar var æðislegur uppgangstími. En þá er líka erfitt að verjast þeirri tilhugsun að tími hnignunarinnar sé runninn upp og allt sokkið í fúlan pytt gróðahugsunar sem þekkir engin listræn gildi. Altént hefur mig langað í bíó í marga mánuði en aldrei getað fundið neina mynd sem ég gæti hugsað mér að sjá. Ég er jafnvel tilbúinn að slá aðeins af kröfunum - svo ég verði ekki álitinn of forpokaður. Eða þarf maður kannski að fara til útlanda til að komast í bíó? Það væri kannski hugmynd fyrir flugfélögin: Icelandair býður bíóferð til Parísar, London og New York.