Fastir pennar

Reykjavík "City"

Ég verð var við að sumum þykir nýja skrifstofubyggðin í Borgartúninu flott - tala jafnvel um reykvískt "city". Er fegurðarskyn fólks orðið svona brenglað í hinni dreifðu og lágreistu byggð hér? Þarna eru svosem ágætar byggingar inn á milli - þótt ég sé reyndar hræddur um að þær séu of bundnar í tísku samtímans til að eldast vel. En þær rísa eins og litlar þústir upp úr endalausum bílastæðum sem umkringja húsin. Bílastæðin taka miklu meira pláss en allt annað á svæðinu. Þarna er ekki hægt að fara um fótgangandi, bara skjáskjótast. Það verður ekki til neitt mannlíf utandyra. Maður spyr í fyrsta lagi: Af hverju var þetta ekki byggt niðri í þessum blessaða miðbæ sem alltaf er verið að tala um að endurreisa? Í öðru lagi: Hví voru bílastæðin ekki grafin niður í kjallara til að smálíf gæti þó kviknað í hverfinu? Í þriðja lagi: Hvernig láta menn sér detta í hug að klessa risastórri bensínstöð ofan í eina stærstu skrifstofubygginguna? --- --- --- Um helgina fékk ég símtal númer tvö frá rithöfundi sem var að skamma mig. Þessi spurði hvað ég hefði eiginlega á móti sér, vildi fá mig til að rökstyðja álit mitt á bók sinni - heimtaði að koma í þátt til að.... líklega til sýna mér fram á að hún sé góð. Um annan höfund hef ég heyrt sem gerði allt vitlaust með því að senda ógnandi sms-skeyti út um allan bæ, aðallega til þeirra sem honum fannst ekki hugsa nógu hlýlega til sín. Menn eru enn að ræða þessi bókmenntaverðlaun. Hermann Stefánsson skrifar grein í Kistuna, líklega það gáfulegasta sem hefur verið sagt um þetta. Hermann er þeirrar skoðunar að vandinn liggi í heitinu Íslensku bókmenntaverðlaunin - ef þetta hétu einfaldlega verðlaun bókaútgefenda - sem þau í raun eru - væru tilfinningarnar ekki svona heitar. --- --- --- Mér er sagt að sumar útvarpsstöðvarnar hafi verið að spila jólalög frá því í októberlok. Það má semsagt ætla að þær spili jólalög í meira en tvo mánuði á ári. Í 17-20% af árinu leika þær jólalög. Nú eru voðalega fá jólalög sem maður þolir að heyra oft. Gamall bekkjarbróðir minn og vinur, Skúli Gautason leikari, samdi fyrir mörgum árum jólalag sem varð vinsælt. Núna er þetta lagið sem allir virðast hata - Jólahjól í flutningi Sniglabandsins. Skúla gekk auðvitað bara gott eitt til. Vont er líka þegar verið er að klína upp á okkur endalausu magni af amerískri jólamúsík. Þrátt fyrir kóklestina erum við ekki enn orðin ameríkanar - ég er ekki einu sinni viss að okkar bíði að verða 51ta ríkið, hvað sem Stefán Snævarr segir. Ég mæli með Hátíð í bæ með Hauki Morthens - flutningur hans á Nú er Gunna á nýju skónum í léttri rokkútsetningu er sígildur. Líka gervijólatréð á plötuumslaginu - það hefur vakið furðu mína síðan ég var lítill drengur. Og svipurinn á barninu. Aðra jólaplötu keypti ég í gær og hef verið að hlusta á hana síðan. Hún er með þeim snjalla djasspíanista og kirkjuorganista Gunnari Gunnarssyni, afskaplega lágvært, ekkert gaul, bara fallegar píanóútsetningar - það hríslast um mig jólasæla þegar ég heyri hann spila Nóttin var svo ágæt ein. Jesúbarnið á líka afmæli og það passar öll hin börnin - eða það segi ég Kára. --- --- --- Skrifaði grein um Kiljan, annað bindi Hannesar um Halldór Laxness. Sendi þeim á DV hana til birtingar, á ekki von á öðru en að hún komi í blaðinu á morgun. --- --- --- NÝJASTA FRÉTT: Var að fá þau tíðindi að búið er að loka Konditorinu á Lynghálsi sem ég skrifaði um í pistli á laugardaginn. Við tekur aftur mötuneytisgaufið, en úti í hverfinu verður Ríkið eina freistingin - nema mann vanti hjólbarða.





×