Fastir pennar

Verðmæti lífs og listar

Flest virðist benda til þess að fólk hafi haft nokkurt svigrúm til þess að gera sér glaðan dag um jólin. Velta í verslun virðist hafa verið umtalsverð. Rýmri efnahagur fólks almennt er gleðilegur. Einn og sér dugir hann þó ekki til lífsfyllingar. Þar þarf fleira að koma til. Um jól og í aðdraganda þeirra fer ekki á milli mála annað ríkidæmi sem sjaldnar er rætt um á þeim nótum. Það er ríkidæmið í hæfileikum sem þroskast og verða þess umkomnir að leggja af mörkum til andlegrar næringar þjóðarinnar. Desember er uppskerumánuður. Þá koma út kynstrin öll af bókum og geisladiskum þar sem framkallast auður þjóðarinnar í góðu listafólki. Hér er býsna blómlegur akur. Í öflugu lista- og menningarlífi er fólginn mikill auður. Leitun er að tímabili í sögu mannkynsins þar sem almenn velsæld, frumkvæði og dugur fara ekki saman við sköpun í listum og ræktun andlegra verðmæta. Óhugsandi virðist að framleiðsla og efnahagur nái hæðum í samfélagi sem ekki býr yfir þroska í menntun, vísindum og listum. Samfélag er eins og líkami og veiklun í einu líffæranna hefur áhrif á alla aðra þætti. Heilsa samfélagsins er mælanleg á fleiri þáttum en hagtölunum einum saman. Listafólk gefur út bækur og tónlist fyrir jólin. Víða eru tónleikar hljómsveita og kóra og skólarnir sýna afrakstur sinn með tónleikum, leikdagskrá og ballettsýningum. Íþróttafélögin halda mót og sýna listdans á skautum og fimleika. Allt er þetta til merkis um þróttmikið og óeigingjarnt starf fólks sem lætur sig varða þau verðmæti sem mölur og ryð fá ekki grandað. Í slíku starfi er lagður grunnur að andlegum þroska og innihaldsríku samfélagi framtíðarinnar. Ef við styðjum og leggjum rækt við þetta starf þurfum við engu að kvíða. Í bókaflóðinu fyrir jólin kom út bók sem fjallaði um þá lífsfyllingu sem listin veitir. Í henni segir Jónas Ingimundarson, píanóleikari frá ævi sinni og starfi. Jónas er einn þeirra sem boðað hafa tónlist af einstakri elju og ást á fyrirbærinu. Leitun er að þeim Íslendingi sem ekki hefur einhvers staðar einhvern tímann notið hæfileika og kunnáttu Jónasar. Úr hans ranni hafa mótast margir okkar bestu söngvarar. Fyrir þá sem mæla gildi tilverunnar í viðskiptajöfnuði, þá hafa íslenskir söngvarar orðið öflugur útflutningsatvinnuvegur á síðustu árum. Það hugarfar sem lýsir af hverju orði í frásögn Jónasar er aðdáunarvert. Hann er þjónn listgyðjunnar sem nýtur hverrar stundar í þjónustu hennar og á sér þann draum æðstan að gera öllum kleift að njóta sömu verðmæta og hann sjálfur. Hann er sem betur fer ekki sá eini og vísar sjálfur til þeirra sem leiddu hann ungan á þessari braut. Mikil eru þau verðmæti sem slíkir skapa og afrakstur starfs þeirra njótum við hvert og eitt og í litfögru og fjölbreyttu listalífi þjóðarinnar. Listalífi sem býri yfir svo miklum þrótti og sköpun að undrun sætir.





×