Það er heldur tíðindalaust þessa dimmu daga þegar skammdegið er mest. Egill Helgason segist ekki muna annað eins tíðindaleysi í stjórnmálum og þá hlýtur að vera langt til jafnað því hann er nú svo gamall blessaður maðurinn. Tíðindaleysi í stjórnmálum tel ég hins vegar að þurfi ekki endilega að vera af hinu illa, engar fréttir eru góðar fréttir, heyrði ég einhvern tímann sagt. Ég er á því að stjórnmálamenn eigi að setja sem fæstar reglur en þær eigi að vera þeim mun hnitmiðaðri og skilvirkari, annars á að láta fólk sem mest um að lifa lífinu sjálft.
Ég hef þess vegna engar áhyggjur af því að fá stjórnarfrumvörp komi fram, því færri því betra, frá þessari ríkisstjórn að minnsta kosti. Í því orðaskaki sem alltaf er uppi um vinstri og hægri mun þessi afstaða til lagasetningar væntanlega flokkast undir mikla hægrimennsku. Bara bull, segi ég, lögin og reglurnar sem settar eru geta beinst að því að búa til þjóðfélag jöfnuðar og samhjálpar. Það er nefnilega inntak laga og reglna sem skiptir máli en ekki fjöldi þeirra eða umfang.
Þessi lognmolla í stjórnmálunum virðist hafa misjöfn áhrif á þá sem vasast í þeim og fjalla um þau. Moggi er til að mynda í alveg gasalega vondu skapi þessa dagana og hellir sér yfir erkióvin sinn, formann Samfylkingarinnar. Það örlar meira að segja á karlrembu í skapvonskunni, sem mér finnst Moggi almennt hafa verið blessunarlega laus við. Í aðventuboði sagði einn gestanna að það væri á við að fara í andlitslyftingu að lesa Staksteina þessa dagana: maður yngdist um meira en þrjátíu ár.
Mitt í fréttaleysi á stjórnmálavettvangnum kemur nýr stjórnandi Seðlabankans fram í fréttaljósið og kynnir breytingu á vöxtum. Menn greinir á um hvort þessi ákvörðun bankans nú í vikunni marki stefnubreytingu eða ekki. Svo virðist þó af umfjöllun hagfræðinga að þeir líti svo á að nýi stjórinn hafi snúið upp á hendurnar á kollegum þeirra í bankanum. Hlutverkaskipti Davíðs eru ekki trúverðug, hann reyndi þó að vera mjög proffalegur og talaði um punktahækkun en ekki prósentuhækkun, það er samt ekki nóg. Einhvern veginn finnst mér eins og verið sé að hafa okkur öll að fífli með þessu nýja hlutverki hans, fannst jafnvel ekki laust við að hann væri sjálfur svolítið sposkur í framan þegar hann var að útskýra sjálfstæða stefnu Seðlabankans í fréttaviðtölum.
Auðmennirnir í landinu lágu ekki á liði sínu í vikunni. Að morgni dags sátu þrír þeirra sem forsvarsmenn fyrirtækja sinna og kvittuðu undir fyrirheit um að gefa á einhverju árabili 136 milljónir króna til Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Ég hef áður látið þess getið í þessum pistlum að ég sé ekkert annað en ánægjulegt við það að fyrirtæki leggi ríkulega fram úr sjóðum sínum til hvers kyns góðgerðarmála. Gaman væri ef ríkissjóður léti ekki sitt eftir liggja og hysjaði upp um sig buxurnar hvað varðar framlög til þróunarhjálpar. Ef ég man rétt þá var það einmitt til umræðu á Norðurlandaþingi hér fyrir skemmstu að við værum miklir eftirbátar annarra í þessum efnum, og er ekkert um það annað að segja en að við eigum að skammast okkar.
Fyrirheitin í fyrirtækjanafni voru gefin að morgni dags en þegar leið að kvöldi var svo boðið til veislu og þar var uppboð. Uppboð á hinum margvíslegasta varningi, m.a. ómálaðri mynd, sem þykir ábyggilega ofsalega smart. Þar sveifluðu þessir ágætu auðmenn okkar litlum níutíu milljónum á borðið og nú hlýtur það að hafa verið í eigin nafni. Ég ætla að leyfa mér að vera gamaldags og púkó, en þetta finnst mér ekki flott, jafnvel þó peningarnir renni í gott málefni. Hingað til hef ég yfirleitt andmælt þegar tal er uppi um smæð þjóðarinnar. Hef verið þeirrar skoðunar að í samfélagi þjóðanna skipti það fyrst og fremst máli að vera þjóð en ekki hversu stór hún er. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þjóðin sé of lítil til að hér séu haldnar veislur og uppboð af þessu tagi. Bið auðmenn að halda slíkar veislur í kyrrþey héðan í frá.