Menning

Þægilegra að öskra Bex en Rebekka

Rebekka Kristín Garðarsdóttir flutti frá Kópaskeri til Hong Kong fyrir tæpum þremur árum. Í síðasta mánuði stofnaði hún eigið fyrirtæki og eftir nokkra daga ætlar hún að kaupa annað. Rebekka skrapp til Íslands nýlega í fjögurra daga heimsókn og þrátt fyrir þétta dagskrá gaf hún sér smástund til að segja frá því hvað hún væri að bralla. Ég ákvað að stofna fyrirtækið Bex. ltd. Það sér um viðburði fyrir önnur fyrirtæki, ráðstefnur, sýningar, galakvöld o.s.frv. Ég er eini starfsmaðurinn og fyrsta verkefnið er eins dags ráðstefna og kynning á vörum og þjónustu fyrir óléttar konur í Hong Kong sem verður haldin 5. mars. -Af hverju Bex? Ég geng undir því nafni úti. Spila nefnilega rugby og það þykir þægilegra að öskra Bex heldur en Rebekka, að ég tali ekki um Rebekka Kristín Garðarsdóttir! -Er ekkert mál fyrir útlendinga að stofna fyrirtæki í Hong Kong? Nei, stjórnvöld gera út á það að bjóða erlendum fjárfestum inn í landið. Ég stofnaði mitt fyrirtæki á 15 mínútum. Maður útfyllir eitt blað, svo er athugað hvort eitthvert annað fyrirtæki í landinu heiti þetta sama og ef svo er ekki þá er maður kominn með stimpilinn og getur hafið starfsemi daginn eftir. En það þarf sérstakt atvinnuleyfi til að starfa í landinu og það er gefið út á það fyrirtæki sem maður er að vinna hjá hverju sinni. Mér fannst það ekki nógu traust. Þess vegna ákvað ég að fá atvinnuleyfi í gegnum sjálfa mig. Bex er bara byrjunarskrefið því ég er líka að kaupa annað fyrirtæki sem verður opnað formlega 7. mars. Það er leikskóli í námskeiðaformi fyrir tveggja til þriggja ára gömul börn. Sjálf sé ég um markaðsmálin en kennslan verður í höndum leikskólakennara. -Hvernig stóð á því að þú fórst til Hong Kong? Systir mín var komin út ári á undan mér, hún rekur eigið ljósmæðrafyrirtæki sem sér um að halda foreldranámskeið og sinna heimaþjónustu. Kannski má segja að ég hafi elt hana en í námi mínu í viðskiptafræði í HR lagði ég áherslu á alþjóðlega stjórnun og markaðsfræði og var því alltaf með útlönd í huga. Það er eitthvert flökkueðli í okkur systkinunum. Bróðir minn býr í Ástralíu og hafði áður verið sjö ár í Svíþjóð og litla systir mín er á leið til Danmerkur. -Hvernig er svo að búa þarna? Það er auðvitað talsverður munur að koma úr 150 manna bæ í sjö milljóna samfélag, háhýsi og mannmergð. Ég bý til dæmis á 21. hæð af 39 í húsinu. -En þú hefur að minnsta kosti nóg að gera. Já, ég er með endalausar hugmyndir og bara spurning um hversu hratt maður vinnur sig í gegnum þær. Þar með var Rebekka rokin. Varð að fá sér SS pylsu áður en hún yfirgæfi landið.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.