Fastir pennar

Um Fischer og fjölgun ráðherra

Einn ungu þingmannanna sagði í viðtali um daginn að hann héldi að hægt væri að ná samstöðu um mál í þinginu og bætti við að um þær málalyktir gæti einnig orðið sátt um meðal þjóðarinnar. Mikið er ánægjulegt þegar þingmenn velta því fyrir sér hvernig það sem þeir eru að gera leggst í þjóðina. Það er því miður ekki oft sem sú hugsun heyrist frá löggjafarsamkundunni. Þetta var að vísu um hvort Fischer blessaður fengi ríkisfang eða bara passa. Vissulega hefði verið skemmtilegra ef þessi umhyggja fyrir því hvað þjóðinni finnst hefði verið um eitthvað mikilvægara en blessaðan skákmeistarann. Sá málatilbúnaður allur sýnir nú kannski ekki annað en að það er ekki sama Jón og séra Jón. Einnig voru við fyrstu sýn gleðilegar fréttirnar af unga ráðherranum sem virtist ætla að flytja tillögu um að fækka ráðherraembættum. Það var fremur léleg Barbabrella því þegar tillagan var skoðuð nánar á að fækka ráðuneytum en fjölga ráðherrum. Í síðari hluta tillögunnar kom nefnilega fram að hugmyndin er að hver ráðherra hafi tvo til þrjá (athuga ekki einn eða tvo, heldur tvo eða þrjá) aðstoðarráðherra, sem gjarnan geta verið kjörnir fulltrúar, sagði tillögusmiðurinn. Hvernig öðru vísi ætlaði hann líka að sætta sjálfan sig og félaga sína við svo góða tillögu. Við tillögugerðina hlýtur maðurinn að hafa treyst því að þjóðin heyrði bara fyrri part tillögunnar, og héldi að umbætur væru til umræðu. Kannski ekki furða að hann héldi að hann kæmist upp með það, svo mikið sem talað er um að fólk setji sig ekki inn í málin eða skilji ekki þetta og skilji ekki hitt. Það er bábilja sem stjórnmálamenn ættu að láta af. Undarlegt að þeir sem sækja lífsviðurværi sitt til almennings beri svo litla virðingu fyrir honum. Í sumar ætlaði hér allt um koll að keyra vegna þess að þingið samþykkti lög sem þjóðin var á móti. Þeir sem stóðu að samþykkt laganna voru svo vissir um að sú væri reyndin að þeir þorðu ekki að bera lögin undir þjóðina í atkvæðagreiðslu, eins og þeim bar samkvæmt stjórnarskránni. Og þjóðin sat eftir varnarlaus. Samt sem áður virðast menn ekkert hafa lært. Auðvitað verður Síminn seldur með grunnnetinu, segir forsætisráðherrann aftur og aftur. Alþingi hefur samþykkt það, heldur hann áfram. Hefur það þá aldrei gerst í sögunni fyrr að ákvörðunum sé breytt? Þessi ákvörðun var vond og það er hægt að breyta henni. Hvers vegna ekki að gera það? Nýlega var birt skoðankönnun sem sýnir að meirihluti fólks vill að skilið verði á milli grunnnetisins og annarrar fjarskiptaþjónustu. Það er ekkert að marka skoðanakannanir segja ráðamenn þá. Fólk hefur ekkert vit á þessu. Við erum búin að ákveða þetta. Vei þeim sem abbast upp á okkur. Eitthvað í þessa veruna virðist þankagangur fólksins vera. Fólkins, sem við borgum kaup í hverjum mánuði til að annast málefni okkar. Við hljótum að eiga betra skilið. Það sem er eiginlega hundfúlast við þetta er að engar breytingar eru í sjónmáli. Hér að framan var minnst á unga menn, þingmann og ráðherra. Er það ekki óþarfi að taka það sérstaklega fram að þeir séu ungir? Er það ekki svolítið að tala niður til þeirra, setja sig á háan hest, af því að maður er sjálfur miðaldra frú. Ég velti þessu fyrir mér í miðri ritsmíðinni. Það gerir mig svolítið leiða að ég kemst að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki. Það skiptir máli að þeir eru ungir. Það skiptir máli vegna þess að þeir eru alveg eins og gömlu jafnaldrar mínir. Ekkert ferskt, ekkert nýtt. Þeir hugsa um hvað þjóðinni finnst í máli sem í raun skiptir hana litlu sem engu máli. Má þó alls ekki gera lítið úr því að koma bágstöddum manni til hjálpar. Kannski ættum við að nota þetta tækifæri til að hugsa út í það að við stöndum okkur almennt mjög illa í að koma bágstöddum til hjálpar. Kannski ættum við að hugsa til þess að í Texas situr ungur maður sem telur að þjóðin vilji ekkert leggja á sig fyrir hann og því að hann er ekki frægur eins og Fisher. Kannski er þessum málum þannig háttað að ekkert er hægt að gera. Ég veit ekki um það, en mér finnst að oftar megi ráðamönnum, ungum og öldnum, vera hugsað til þjóðarinnar en þegar fjallað er um passann hans Fischers.





×