Lífið

Hornið hennar Katrínar dansara

Katrín Á. Johnson dansari á sér horn í sófanum þar sem hún situr löngum stundum. "Ég á mér stað þar sem ég sit alltaf, sem er í enda sófans. Þar get ég bæði snúið að borðstofuborðinu, séð á sjónvarpið og lagt mig, " segir Katrín Á. Johnson dansari, en hún er með stóran og fínan hornsófa á heimilinu þar sem hún lætur fara vel um sig eftir langan vinnudag. "Ég get algerlega breyst í svona "couch-potatoe" þegar ég kem heim og hendi mér í sófann," segir Katrín og hlær og bætir við að oft vill verða að hún snæði kvöldverðinn í sófanum þar sem hún búi ein. Sófinn er reyndar í eigu fyrrverandi kærasta hennar og á hún því von á því að hún þurfi að láta hann af hendi í framtíðinni. "Ég get nú ekki sagt að ég muni sakna sófans sérstaklega þar sem hann er ekki eins fagur og hann er þægilegur," segir Katrín en sófann segir hún vera hrikalega þægilegan auk þess sem hún geymi púða og teppi í horninu góða. "Hornsófi er mjög hentugur að því leyti að auðvelt er að skapa hring ef fólk kemur í heimsókn og það myndast yfirleitt góð stemning," segir Katrín sem hefur gaman af því að fá gesti og þá sérstaklega til að spila en sjálf segist hún vera mikill spilafíkill. "Ég efast reyndar um að ég fái mér aftur hornsófa þegar þessi fer," segir Katrín hugsandi.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×