Fastir pennar

Örlítil leiðsögn í lestri

Davíð Oddsson utanríkisráðherra gaf í fyrradag út staðlað svar til nær allra fjölmiðla um skoðun sína á Evrópusamþykkt framsóknarmanna frá því um síðustu helgi. Svar Davíðs er fyrirboði um að nú muni verða framhald á hnútukasti milli leiðtoga ríkisstjórnarinnar í þessu máli. En eins og menn muna hefur þetta verið eitt af fáum átakamálum milli þeirra Halldórs Ásgrímssonar og Davíðs Oddssonar, þó það hafi legið niðri um nokkurt skeið – raunar lengst af þessu kjörtímabili. Nú hins vegar er ástæða til að ætla að þessi átök milli leiðtoganna geti verð hvatvísari og beinskeittari en áður. Tónninn í hinu staðlaða svari, sem Davíð gaf út og birtist m.a. í Morgunblaðinu í gær, er enda með slíkum undirtón í garð forsætisráðherra. Mogginn hefur svarið eftir svona: "Ef þessi texti liggur til grundvallar þá er engin breyting – ekki ef ég er læs – þá er það ekki." Ekki þarf að taka fram að þarna er utanríkisráðherra í raun að svara þeirri yfirlýsingu forsætisráðherra að þessi samþykkt marki tímamót hjá Framsóknarflokknum. Almennt er ekki ástæða til að efast um læsi utanríkisráðherrans, en fyrst hann bryddar upp á efasemdum sjálfur – í það minnsta þegar um ályktanir Framsóknar er að ræða – er ekki í vegi að skoða hvað stendur í umræddri ályktun og bera það saman við hver stefnan var hjá Framsóknarflokknum fyrir samþykkt hennar. Fyrst er þá að skoða hvað var samþykkt á flokksþinginu um síðustu helgi. Ályktunin um Evrópumál er vissulega ekki mjög skýr og fær falleinkunn fyrir málfræði og stíl. Davíð, og raunar fleirum, er því einhver vorkunn. En svona nokkuð getur vitaskuld gerst þegar átök eru um orðalag og lítill tími til stefnu. Það sem um ræðir hljóðar svona: "Á vettvangi Framsóknarflokksins skal halda áfram upplýsingaöflun og vinnu við mótun samningsmarkmiða og hugsanlegs undirbúnings aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Niðurstöðu þeirrar vinnu skal bera undir næsta flokksþing - til kynningar. Komi til aðildarviðræðna við ESB skulu niðurstöður slíkra viðræðna bornar undir þjóðaratkvæði." Það sem í þessu felst er, að auk sjálfsagðrar upplýsingaöflunar ætlar flokkurinn að vinna að: a) mótun samningsmarkmiða og b) hugsanlegun undirbúningi aðildarviðræðna. Til þess að komast að því hvað er nýtt við þetta, í hverju tímamótin sem Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra talar um felast, þarf að skoða hver staðan var fyrir þessa samþykkt. Í því sambandi er gagnlegt að skoða hvaða samþykktir voru gerðar á flokksþingi 2003 og hvað kosningastefnuskráin sagði. Þar er í báðum tilfellum byggt á skýrslu og niðurstöðu hinnar svokölluðu Evrópustefnunefndar flokksins, sem Jón Sigurðsson núverandi seðlabankastjóri stýrði. Í meginatriðum felur það í sér að byggja átti á EES-samningnum en knýja á um endurbætur á honum eða svokallaða uppfærslu til að tryggja íslenska hagsmuni í tengslum við stækkun ESB og þar með EES. Það ferli er nú um garð gengið og þótt náðst hafi samningar um hluta þeirra mála sem tengdust stækkuninni fékkst ekki sú uppfærsla sem óskað var eftir. Í Evrópustefnuskýrslu flokksins – sem er og var grundvallarstefnuplagg hans - er því síðan haldið opnu að náist ekki uppfærsla EES-samningsins skuli aðildarviðræður eða tvíhliðasamningar ekki útilokaðir. Orðrétt segir í skýrslu Evrópustefnunefndar: "Ef ekki reynist grundvöllur til að byggja á samningnum um evrópska efnahagssvæðið, þannig að hann fullnægi til frambúðar skilyrðum og markmiðum Íslendinga, skal ákvörðun tekin um það hvort <I>óskað skal viðræðna við Evrópusambandið um fulla aðild Íslendinga að því, m.a. á grundvelli þeirra skilmála og samningsmarkmiða sem Íslendingar setja sér, eða hvort leitað skal annarra valkosta<P>" (leturbreyting BG). Stóru tímamótin sem felast í samþykkt framsóknarmanna um síðustu helgi liggja þess vegna í því að þeir hafa formlega hafið að skilgreina "þá skilmála og þau samningsmarkmið" sem umsókn eigi að byggja á. Í þeirri ákvörðun felst jafnframt yfirlýsing um að ekki muni hægt að byggja á EES-samningnum til frambúðar. Í samþykktinni felst líka ákvörðun um að aðildarumsókn sé sú leið sem flokkurinn kjósi til að bregðast við vanköntum EES, frekar en að leita tvíhliða viðræðna eða "annara valkosta" eins og það er orðað í skýrslunni sjálfri. Þótt það sé rangt hjá Davíð Oddssyni utanríkisráðherra að ekkert nýtt felist í Evrópuályktun framsóknar um síðustu helgi, þá er ekki þar með sagt að utanríkisráðherrann sé ekki læs. Ályktunin var að sönnu loðin, en þegar verið er að dæma um hvort breytingar hafi orðið, þá er hollt að lesa líka og meta það sem áður hafði verið sett á blað.





×