Fastir pennar

Í alfaraleið

Sú tíð er liðin að Reykvíkingar þyrpist niður að höfn þegar skip birtast til að spyrja "Lever Kongen?" eða eitthvað í þá veru eins og alsiða var á nítjándu öld og fyrr þegar vorskip og haustskip erlendra kaupmanna voru helsti tengiliður landsmanna við umheiminn. Þá voru nýjustu fréttir á Íslandi almælt tíðindi í nágrannalöndunum mörgum mánuðum fyrr. Samtímaviðburðir fara ekki lengur framhjá þjóðinni, þökk sé fjölmiðlum og fjarskiptum, þótt vissulega komi þeir dagar að einhverjir hljóta að spyrja sig hvers virði allar þessar fréttir, sem því miður eru æði margar af hörmungum og böli, séu fyrir sálarheill og daglegt líf okkar. Kannski biðu menn takmarkað tjón af fásinni og fréttaleysi fyrri alda? En ekki dugar annað en að taka í útrétta hönd nútímans og reyna þá fremur að nýta sér til gagns og gamans möguleikana til aukins þroska, menntunar og víðsýni, sem bjóðast þegar heimurinn skreppur saman, heldur en að dvelja við hitt sem er dapurlegt og niðurdrepandi. Það hafa Íslendingar ekki síst gert á sviði listanna, þar sem hvern viðburðinn öðrum áhugaverðari hefur rekið á fjörur okkar á undanförnum vikum og mánuðum. Hingað koma í röðum fremstu listamenn veraldar, söngvarar, hljóðfæraleikarar, dansarar, skáld og rithöfundar, myndlistarmenn og skemmtikraftar af ýmsu tagi. Þótt fleiri listamenn komi við sögu í stórborgum eins og New York, Lundúnum, París og Róm er fjölbreytnin í menningarlífinu í höfuðborginni okkar á heimsmælikvarða. Það hefur svo aftur gefið íslenskri ferðaþjónustu tækifæri sem forðum hefðu ekki hvarflað að nokkrum manni hér á landi. Hin alþjóðlega gróska í menningunni er ekki bara til orðin vegna byltingar í fjölmiðlun og fjarskiptum. Ekki má gleyma þeim sem ruddu brautina og tengdu Ísland við umheiminn á öldinni sem leið. Með ferðum íslenskra flugfélaga milli Bandaríkjanna og Evrópu sköpuðust möguleikar sem menningarlífið hefur getað notfært sér áratugum saman og í síauknum mæli á undanförnum árum eftir því sem ferðum hefur fjölgað. Kannski voru Ragnar í Smára og Tónlistarfélagið einna fyrst til að kveikja á þeim möguleikum sem millilendingin í Keflavík skapaði til að fá erlenda listamenn til landsins. Aðrir hafa síðan fetað í fótspor þeirra. Drýgstur hefur verið þáttur Listahátíðar í Reykjavík, sem segja má að hafi umskapað listalíf okkar og menningarlegan sjóndeildarhring á örfáum áratugum. Það brautryðjandastarf verður seint fullþakkað. Menningarstraumarnir liggja ekki aðeins til Íslands heldur einnig frá landinu og um heim allan. Við eigum marga frambærilega listamenn, nokkra í alþjóðlegum sérflokki, sem heimsbyggðin hefur áhuga á. Ekki leikur vafi á því að nýjar kynslóðir íslenskra listamanna hafa örvast af kynnum af erlendum listamönnum og listastefnum og heimsóknir og kynning því haft tvöfalt gildi fyrir land og þjóð. Ísland er nú orðið í alfaraleið og það eigum við að notfæra okkur til að bæta menningu og mannlíf í landinu.





×