Erlent

Ítalskir hermenn kallaðir heim

Ítalir ætla að hefja brottfluttning herliðs síns frá Írak þegar í september á þessu ári. Þetta sagði Silvio Berlusconi, forsætisráðherra landsins, í gær. Ummælin koma mjög á óvart því að hingað til hafa ítölsk stjórnvöld sagst ætla að halda herliði landsins í Írak þangað til Írakar geti sjálfir séð um öryggi lands síns. Stjórnmálaskýrendur gera að því skóna að morðið á leyniþjónustumanninum Nicola Calipari fyrir skemmstu hafi orðið til þess að Berlusconi hafi ekki séð sér annað fært en að koma til móts við andstöðu almennings við veru herliðsins í Írak. Eftir morðið á Calipari kom gremjan í garð stríðsins enn og aftur upp á yfirborðið og sjálfur hefur Berlusconi sagt að Bandaríkjamenn verði að axla ábyrgð vegna atburðarins. Talsmaður Hvíta hússins vísaði því hins vegar algerlega á bug í gærkvöldi að ummæli Berlusconis tengdust morðinu á Calipari.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×