Fastir pennar

Stal Stöð 2 Fischer?

Voru starfsfélagar mínir á Stöð 2 að ræna Bobby Fischer í gærkvöldi? Fyrir þann sem horfði á sjónvarpið leit það nokkurn veginn þannig út. Það verður forvitnilegt að sjá hvað kemur út úr þessu. Mun hann að taka rispu í fjölmiðlaviðtölum næstu dagana - og er Stöð 2 þá búin að tryggja sér einhvern rétt fram yfir aðra? Fischer hefur ekki sést í sjónvarpi í áratug; þangað til í gærkvöldi vissi maður ekki einu sinni hvernig hann lítur út, en hann virtist ekki kunna sérlega illa við sviðsljósið. Kannski færist hann bara allur í aukana við athyglina. Svo er líka spurningin hvort það hafi eitthvað upp á sig að tala við hann? Maður sér varla að erlendir fjölmiðlar fari að birta við hann löng viðtöl þar sem hann úthúðar gyðingum. Altént voru þeir ekkert að rjúfa dagskrána á CNN eða Sky til að sýna frá komu hans til Reykjavíkur í gær. Maður varð dálítið hugsi þegar hann fór að tala um að CIA hefði eyðilagt fyrir sér skákklukkuna. Þá varð líka eins og Ingólfur Bjarni af Stöð 2 yrði vandræðalegur, vissi ekki alveg hvað hann ætti að gera við þessar upplýsingar. --- --- --- Þetta er umdeilt mál. Ég vil absolútt fá alvöru skoðanakönnun um viðhorf þjóðarinnar til þessara atburða. Var i fjölskylduboði í gær og þar hristu allir hausinn yfir þessu. --- --- --- Magnús Þór Hafsteinsson skrifar mjög góðar ferðalýsingar frá Palestínu á vef sinn, Magnús sýnir að hann er góður blaðamaður - ég hvet ykkur til að lesa. Eins og ég hef áður sagt - enginn verður samur eftir að hafa farið þarna. Ég fór á sínum tíma í bíó í Jerúsalem - las svo í Jerusalem Post morguninn eftir að tveir Palestínumenn með naglasprengjubelti hefðu verið stöðvaðir þegar þeir ætluðu komast inn í þetta sama kvikmyndahús kvöldið áður - á sömu mynd og ég fór á. Samt getur maður ekki annað en tekið málstað Palestínumanna ef maður fer þarna um og skoðar ástandið - hughrifin eru líka svo sterk að maður getur frestast til að líkja þessu við aðferðir nasista þegar þeir lokuðu gyðinga inni í gettóum. Þannig skil ég vel viðbrögð Magnúsar. Þá flækir málið enn að á hæð við Jerúsalem stendur Yad Vashem, safn sem er mjög áhrifamikill minnisvarði um helförina. Ég reyndi að fara þangað í strætó, fékk svo allt í einu bakþanka, ætlaði ekki að láta sprengja mig í tætlur, fór úr strætónum og gekk restina af leiðinni. --- --- --- Fréttirnar af átökunum um Ker og Gretti og Festingu og hvað þau heita þessi félög eru gjörsamlega óskiljanlegar. Sjónarhornið er líklega of þröngt. Galllinn við viðskiptafréttir eru oft að þær eru skrifaðar af blaðamönnum sem er mikið í mun að sýna hvað þeir eru vel inni í málunum - fara þá fyrst og fremst að skrifa fyrir viðmælendur sína. Sami stíll var á sjávarútvegsfréttum á tímanum þegar þær tröllriðu fjölmiðlunum hérna; þær voru skrifaðar af fólki sem virtist álíta að sjávarútvegsráðherrann væri aðallesandi sinn. Ég lenti óvænt í því hlutverki að flytja sjávarútvegsfréttir á Ríkissjónvarpinu um nokkurra mánaða skeið árið 1990, í forföllum Páls Benediktssonar. Þá var Halldór Ásgrímsson sjávarútvegsráðherra. Aðalmælikvarðinn á hvort sjávarútvegsfréttamenn væru inn undir á þeim árum var hvort Halldór notaði orðið "vinur" þegar hann ávarpaði þá. Eins er þetta með viðskiptafréttamenn. Hættan er að þeir lendi í því að vera sífellt að bíða eftir klappi á bakið frá þeim sem eiga peningana. --- --- --- Alveg er mér skítsama hvorir hafa betur í þessum átökum, Björgólfar eða S-hópurinn. Mér sýnist raunar að merkilegasta stúdían í þessu sé munurinn á fréttaflutningnum í Mogganum og Fréttablaðinu. Það er greinilegt að Mogginn talar helst við annan aðilann og Fréttablaðið við hinn. Framsóknargreifinn Ólafur Ólafsson virðist eiga gott innhlaup í Moggann, meðan Fréttablaðið er greinilega með símanúmerið hjá Björgólfi og co. Mogginn hefur birt fréttir sem eru augljóslega byggðar á frásögnum Kersmanna, meðan Fréttablaðið slær upp fréttum af óheilbrigðum viðskiptaháttum Ólafs Ólafssonar. --- --- --- Allt bendir til þess að brátt fari að koma út þrjú viðskiptablöð á okkar litla landi. Sjálft Viðskiptablaðið hefur komið út í tíu ár. Manni skilst að útgáfan sé ágætlega arðbær - en hins vegar er stundum eins og sé erfitt að fylla blaðið með almennilegu efni. Fréttatilkynningar eru áberandi. Það kemur líka fyrir að sérstakir vildarvinir blaðsins eru settir á forsíðu - ekki alltaf sökum þess að þeir séu sérlega fréttnæmir. Ég er ekki viss um að Morgunblaðið og Fréttablaðið séu að svara mikilli eftirspurn með því að verja kröftunum í útgáfu viðskiptablaða. Líklega verður offramboð af svona efni um hríð - svo dregst þetta allt saman. Nær væri kannski að skrifa viðskiptafréttirnar á mannamáli, setja þær í stærra samhengi og beita meiri gagnrýni á mennina sem eru að eignast Ísland. Á forsíðu Silfurs Egils





×