Erlent

Segist ennþá forseti Kirgistans

Forseti Kirgistans segist ekki hafa sagt af sér embætti og flúið land; hann sé aðeins fjarverandi tímabundið. Stjórnarandstaðan, sem rændi völdum í gær, hefur hins vegar tekið við stjórnartaumunum, tilnefnt nýjan forseta og boðað til kosninga.  Að minnsta kosti þrír létu lífið í óeirðum í gær og í nótt, byggingar voru brenndar og þjófar fóru ruplandi um höfuðborgina, Bishkek. Í dag var allt með kyrrum kjörum og fregnir bárust af því síðdegis að búið væri að setja á útgöngubann til að koma í veg fyrir frekari gripdeildir. Rússneskar fréttastofur birtu í dag yfirlýsingu sem sögð er koma frá Askar Akayev, fyrrverandi forseta Kirgistans, sem talið er að hafi flúið til nágrannaríkisins Kasakstans. Þar segir hann að allar fregnir um afsögn hans og flótta séu rangar, hann sé enn forseti landsins. Stjórnarandstaðan, sem stóð fyrir stjórnarbyltingunni í gær, virðist hins vegar vera að festa sig í sessi; búið er að skipa nýjan forseta og boða til kosninga í júní. Þá þykir það tryggja nýju stjórnina í sessi að þrátt fyrir að Pútín Rússlandsforseti lýsti því yfir í dag að valdaránið væri ólöglegt þá setti hann sig ekki upp á móti þessum nýju valdhöfum og sagðist myndu gera sitt til að tryggja áframhaldandi góð samskipti á milli landanna tveggja. Þessi viðbrögð Pútíns eru með nokkru öðru sniði en þegar svipaðar borgarabyltingar voru gerðar í Georgíu og Úkraínu. Velvilji Pútíns nú þykir endurspegla þá staðreynd að nýir valdhafar í Kirgistan hafi ekki sýnt nein merki þess að þeir ætli sér að leita í faðm Vesturlanda á kostnað Rússa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×