Erlent

Bakiyev býður sig fram til forseta

Efnt verður til forsetakosninga í Kirgistan í júní þar sem Kurmanbek Bakiyev, leiðtogi þeirrar stjórnar sem nú er við völd í landinu, tekst á við Ashkar Akayev sem kosinn var forseti landsins fyrir tæpum mánuði. Bakiyev, sem fór fyrir stjórnarbyltingu í landinu í fyrradag, lýsti því yfir í dag að hann færi fram gegn Akayev í kosningunum. Blaðamannafundur sem ráðgerður var í stjórnarráðinu var fluttur til þegar njósnir bárust um að reynt yrði að bana Bakiyev. Akayev, sem verið hefur við völd í landinu frá árinu 1990, flúði til Rússlands í fyrradag en áréttaði í tölvuskeyti til fjölmiðla í dag að hann væri enn réttkjörinn forseti, þrátt fyrir að hæstiréttur landsins hafi gert úrslit forsetakosninga, sem fram fóru í síðasta mánuði, ómerk og nýir valdhafar hafi tekið við stjórnartaumum í landinu. Þá hafa Rússar ákveðið að starfa með stjórnarandsöðunni, fari leiðtogi hennar með sigur af hólmi í kosningunum í júní, en ekki er búist við að miklar breytingar verði á stjórnarháttum í landinu, hvernig sem úrslitin verða. Það var rólegt um að litast höfuðborginni í dag en síðustu sólarhringa hafa glæpagengi nýtt sér ringulreiðina og hafa farið um verslanir ruplandi og rænandi. Innanríkisráðherra landsins hefur ekkert viljað gefa upp um fjölda þeirra sem látist hafa í átökum í borginni en talið er að að minnsta kosti þrír hafi látist í átökum á götum úti í nótt og tugir særst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×