Erlent

Annan blekktur af syni sínum

Svo virðist sem Kojo, sonur Kofis Annans, hafi ekki komið alls kostar heiðarlega fram við föður sinn. Málefni feðganna eru í brennidepli, enda birtist í gær rannsóknarskýrsla um olíusöluáætlun Sameinuðu þjóðanna í Írak sem báðir eru flæktir í. Sonurinn, Kojo Annan, vann sem ráðgjafi hjá svissnesku fyrirtæki Cotecna sem var verktakafyrirtæki er valið var til að stýra framkvæmd olíusöluáætlunarinnar. Áætlunin snerist um það að lina þjáningar Íraka með því að leyfa ríkisstjórn Saddams Husseins að selja olíu og kaupa nauðsynjavöru, sérstaklega mat, fyrir ágóðann. Gríðarmikil spilling þreifst hins vegar í þessu máli öllu; þeir sem að sölunni komu mökuðu krókinn á mútum og Saddam Hussein gat selt olíu fram hjá kerfinu og stungið ágóðanum í eigin vasa. Málið snýst um það hvort fyrirtækið Cotecna hafi fengið samninginn við Sameinuðu þjóðirnar vegna tengsla Kojos við framkvæmdastjórann, og í framhaldi, hvort Kofi Annan hafi vitað af þeirri spillingu sem þreifst þar innanbúðar. Svo virðist sem Kojo hafi sagt föður sínum ósatt um starfssamninginn við Cotecna. Kojo var að vinna hjá fyrirtækinu þegar faðir hans tók við embætti framkvæmdastjóra en sagðist vera hættur að vinna þar þegar fyrirtækið fékk olíusölusamninginn. Síðar kom í ljós að svo var alls ekki. Í rannsóknarskýrslunni sem birtist um málið í gær er Kofi Annan hreinsaður af ásökunum um að hafa vitað um að Cotecna væri að sækjast eftir þessum samningi. „Engar sannanir um óviðeigandi áhrif,“ er orðalag skýrsluhöfunda. Hins vegar sætir Annan gagnrýni fyrir að hafa ekki fylgst nægilega vel með framgangi mála og fyrir að hafa ekki tekið nógu hart á málinu eftir að í ljós kom að sonur hans var enn starfsmaður Cotecna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×