Kennum börnum að hlusta á sögur 5. apríl 2005 00:01 "Segðu mér sögu amma, segðu mér sögu". Lítil stúlka veit fátt skemmtilegra en hlusta á sögur, hvort sem þær eru lesnar af bók eða spunnar upp á staðnum og harðneitar að fara að sofa án sögustundar. Flest, ef ekki öll börn, njóta slíkra sögustunda og líklega njóta þau ekki síður nálægðarinnar við sögumanninn en sögustundarinnar sjálfrar og kyrrðarinnar sem fylgir. Það er hins vegar enginn vandi að drepa niður slíkan áhuga með því að sinna honum ekki, gefa sér ekki tíma, ýta verkefninu til hliðar fyrir eitthvað sem liggur meira á. En þegar upp er staðið getur allt beðið nema uppeldi barnanna okkar. Það þarf að hafa forgang hverja stund og stór og mikilvægur þáttur uppeldis er að segja börnum sögur, lesa fyrir þau góðar bækur og spinna upp sögur sem reyna á ímyndunaraflið. Myndbandsspóla getur aldrei komið í staðinn fyrir góða bók vegna þess að hún skilur ekkert eftir handa ímyndunaraflinu. Það var gaman að hlusta á frú Vigdísi Finnbogadóttur lýsa því í sjónvarpsþætti um helgina hvernig hún reifst og jafnvel slóst við bróður sinn um útlit söguhetjunnar í uppáhaldssögunni. Voru augun brún eða blá? Slíkar vangaveltur gátu orðið tilefni slagsmála milli systkinanna. Er húsið rautt eða grænt? Báturinn hvítur eða svartur? Myndbandið svarar öllum slíkum spurningum áður en þær eru bornar upp og barnið fær ekki tækifæri til að skapa mynd af aðstæðum og umhverfi í huga sér. Öll börn hafa ríkt ímyndunarafl en ef það er ekki notað og þau hvött á því sviði er hætt við að það verði fátæklegra með hverju árinu. Mörg myndbönd fyrir börn hafa verið talsett á íslensku og það er gert ágætlega, lærðir leikarar sjá um talsetningu, málfar er í flestum tilvikum gott og útkoman fínar sögur sem höfða til barna. En þessar sögur örva ekki ímyndunaraflið, hvetja ekki til sköpunar. Börnin verða neytendur en ekki þátttakendur með sama hætti og við lestur góðrar bókar. Orðaforði er að auki mun takmarkaðri en rými er til í sögubókum og orðaforði íslenskra barna og unglinga er einmitt vaxandi áhyggjuefni vegna þess hve hann er minnkandi. En myndbands- og sjónvarpsþættir og tölvuleikir gera ekkert til að örva eða auka orðaforða og þar með lesskilning barna og unglinga. Ástæðan er ekki sú að þetta efni sé svo lélegt eða óvandað, öðru nær. Það er bara ekki pláss, ekki tími. Öllu er þjappað saman í eins einfaldan og stuttan texta og hægt er og ekkert svigrúm er fyrir fjölbreytt orðaval. Bókin hins vegar hefur þetta svigrúm. Þar er nóg pláss, nógur tími. Þar er hægt að nota fjölmörg orð um sama hlutinn, bregða upp persónugervingum, myndhverfingum og ýmsu myndmáli sem örvar og hvetur hugann. Það þarf hins vegar að venja börn við slíkt málfar frá unga aldri. Það er engin ástæða til að lesa alltaf auðveldar bækur fyrir börn, velja alltaf þær bækur sem þau vilja helst. Það þarf að kenna þeim, hvetja þau og örva, m.a. með því að lesa fyrir þau bækur sem þau þurfa að hafa fyrir að skilja, bækur sem þau þurfa að hugsa um og síðast en ekki síst bækur sem hvetja þau til myndsköpunar. Af nógu er að taka og 200 ára ártíð Hans Christians Andersens, þess mikla ævintýrahöfundar, minnir okkur einmitt á þann sagnasjóð sem við eigum. Sögurnar eru til í ýmsum útgáfum, vel þýddar og dásamlega skemmtilegar. En sjálfsagt þarf að hjálpa börnum í dag við að skilja þessar sögur, útskýra og leiða þau áfram. 14 til 15 ára börn halda því sum hver fram að þau hafi aldrei lesið bók. Fyrir þau er það að lesa heila bók óyfirstíganlegt verkefni. Eðlilega, hafi þau ekki vanist sögum frá unga aldri. En ef við kennum börnum okkar að hlusta á sögur og síðar að lesa þær sjálf, þá ánetjast þau flest þessum heillandi heimi. Sumir eiga alla ævi erfitt með lestur vegna meðfædds ágalla af einhverju tagi. Fyrir þá, og aðra líka, eru til frábærar hljóðbækur, sem er skemmtilegt að hlusta á. Þeim, sem ekki hafa vanist á bóklestur eða hlustun, er vorkunn. Þau fara mikils á mis. Á leikskólum og í grunnskólum landsins eru börnum sagðar sögur og lesið fyrir þau úr bókum. Það virðist hins vegar ekki duga til í öllum tilfellum. Heimilin þurfa líka að leggja sitt af mörkum og fátt er reyndar notalegra en að eiga litla sögustund með barni sínu í lok erilsams dags. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Inga Rósa Þórðardóttir Skoðanir Mest lesið Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Vitsmunaleg vanstilling í boði ungra Sjálfstæðiskvenna Erna Mist Skoðun Afleiðingar verkfallsaðgerða á minnstu börnin - krafa um svör Jóhanna Dröfn Stefánsdóttir Skoðun Örvæntingarfullur maður sker út grasker Þórður Snær Júlíusson Skoðun Sjálfstæðisflokkur hækkar kostnað heimilanna Kristrún Frostadóttir Skoðun Kjaftæði Elliði Vignisson Skoðun Falleinkunn fyrrum forseta Vilhjálmur Þorsteinsson,Viktor Orri Valgarðsson Skoðun Varðhundar kerfisins Lára Herborg Ólafsdóttir Skoðun Ólögleg meðvirkni lækna Teitur Ari Theodórsson Skoðun
"Segðu mér sögu amma, segðu mér sögu". Lítil stúlka veit fátt skemmtilegra en hlusta á sögur, hvort sem þær eru lesnar af bók eða spunnar upp á staðnum og harðneitar að fara að sofa án sögustundar. Flest, ef ekki öll börn, njóta slíkra sögustunda og líklega njóta þau ekki síður nálægðarinnar við sögumanninn en sögustundarinnar sjálfrar og kyrrðarinnar sem fylgir. Það er hins vegar enginn vandi að drepa niður slíkan áhuga með því að sinna honum ekki, gefa sér ekki tíma, ýta verkefninu til hliðar fyrir eitthvað sem liggur meira á. En þegar upp er staðið getur allt beðið nema uppeldi barnanna okkar. Það þarf að hafa forgang hverja stund og stór og mikilvægur þáttur uppeldis er að segja börnum sögur, lesa fyrir þau góðar bækur og spinna upp sögur sem reyna á ímyndunaraflið. Myndbandsspóla getur aldrei komið í staðinn fyrir góða bók vegna þess að hún skilur ekkert eftir handa ímyndunaraflinu. Það var gaman að hlusta á frú Vigdísi Finnbogadóttur lýsa því í sjónvarpsþætti um helgina hvernig hún reifst og jafnvel slóst við bróður sinn um útlit söguhetjunnar í uppáhaldssögunni. Voru augun brún eða blá? Slíkar vangaveltur gátu orðið tilefni slagsmála milli systkinanna. Er húsið rautt eða grænt? Báturinn hvítur eða svartur? Myndbandið svarar öllum slíkum spurningum áður en þær eru bornar upp og barnið fær ekki tækifæri til að skapa mynd af aðstæðum og umhverfi í huga sér. Öll börn hafa ríkt ímyndunarafl en ef það er ekki notað og þau hvött á því sviði er hætt við að það verði fátæklegra með hverju árinu. Mörg myndbönd fyrir börn hafa verið talsett á íslensku og það er gert ágætlega, lærðir leikarar sjá um talsetningu, málfar er í flestum tilvikum gott og útkoman fínar sögur sem höfða til barna. En þessar sögur örva ekki ímyndunaraflið, hvetja ekki til sköpunar. Börnin verða neytendur en ekki þátttakendur með sama hætti og við lestur góðrar bókar. Orðaforði er að auki mun takmarkaðri en rými er til í sögubókum og orðaforði íslenskra barna og unglinga er einmitt vaxandi áhyggjuefni vegna þess hve hann er minnkandi. En myndbands- og sjónvarpsþættir og tölvuleikir gera ekkert til að örva eða auka orðaforða og þar með lesskilning barna og unglinga. Ástæðan er ekki sú að þetta efni sé svo lélegt eða óvandað, öðru nær. Það er bara ekki pláss, ekki tími. Öllu er þjappað saman í eins einfaldan og stuttan texta og hægt er og ekkert svigrúm er fyrir fjölbreytt orðaval. Bókin hins vegar hefur þetta svigrúm. Þar er nóg pláss, nógur tími. Þar er hægt að nota fjölmörg orð um sama hlutinn, bregða upp persónugervingum, myndhverfingum og ýmsu myndmáli sem örvar og hvetur hugann. Það þarf hins vegar að venja börn við slíkt málfar frá unga aldri. Það er engin ástæða til að lesa alltaf auðveldar bækur fyrir börn, velja alltaf þær bækur sem þau vilja helst. Það þarf að kenna þeim, hvetja þau og örva, m.a. með því að lesa fyrir þau bækur sem þau þurfa að hafa fyrir að skilja, bækur sem þau þurfa að hugsa um og síðast en ekki síst bækur sem hvetja þau til myndsköpunar. Af nógu er að taka og 200 ára ártíð Hans Christians Andersens, þess mikla ævintýrahöfundar, minnir okkur einmitt á þann sagnasjóð sem við eigum. Sögurnar eru til í ýmsum útgáfum, vel þýddar og dásamlega skemmtilegar. En sjálfsagt þarf að hjálpa börnum í dag við að skilja þessar sögur, útskýra og leiða þau áfram. 14 til 15 ára börn halda því sum hver fram að þau hafi aldrei lesið bók. Fyrir þau er það að lesa heila bók óyfirstíganlegt verkefni. Eðlilega, hafi þau ekki vanist sögum frá unga aldri. En ef við kennum börnum okkar að hlusta á sögur og síðar að lesa þær sjálf, þá ánetjast þau flest þessum heillandi heimi. Sumir eiga alla ævi erfitt með lestur vegna meðfædds ágalla af einhverju tagi. Fyrir þá, og aðra líka, eru til frábærar hljóðbækur, sem er skemmtilegt að hlusta á. Þeim, sem ekki hafa vanist á bóklestur eða hlustun, er vorkunn. Þau fara mikils á mis. Á leikskólum og í grunnskólum landsins eru börnum sagðar sögur og lesið fyrir þau úr bókum. Það virðist hins vegar ekki duga til í öllum tilfellum. Heimilin þurfa líka að leggja sitt af mörkum og fátt er reyndar notalegra en að eiga litla sögustund með barni sínu í lok erilsams dags.