Erlent

36% Breta enn óákveðin

Þrjátíu og sex prósent Breta segjast ekki enn hafa ákveðið hvað þeir ætla að kjósa þegar þeir koma inn í kjörklefann á fimmtudaginn. Þetta er svo hátt hlutfall að það gæti haft áhrif á annars örugga stöðu Blairs í kosningunum. Blair svarar þessu ekki með því að ráðast á höfuðandstæðinginn Íhaldsflokkinn heldur Frjálslynda. Brynhildur Ólafsdóttir, fréttamaður Stöðvar 2 og Bylgjunnar, er í Bretlandi og fylgist þar með kosningabaráttunni. Þó aðeins tveir dagar séu í kosningar hér í Bretlandi þá virðist áhugi manna á kosningunum ekki ýkja mikill og sem dæmi má taka að fæst dagblöð slá kosningamálum upp á forsíðum sínum í dag. Undantekningin er Íraksmálið sem lætur Tony Blair ekki í friði. Anthony Wakefield, 24 ára breskur hermaður frá Staffordsskíri, lét lífið í sprengjuárás í suðurhluta Íraks í gær og þá eru þeir orðnir áttatíu og sjö Bretarnir sem hafa dáið í Írak. Pólitískir andstæðingar Blairs, þeir Michael Howard, leiðtogi Íhaldsflokksins, og Charles Kennedy, formaður Frjálslyndra demókrata, hafa passað sig á því að nota ekki dauða Wakefields sjálfum sér til framdráttar. Ekkjan hefur hins vegar birst í öllum fjölmiðlum og hún er ekki að liggja á þeirri skoðun sinni að það sé Blair að kenna að Wakefield dó í Írak, frá sér og þremur ungum börnum. Þetta mál gæti haft skaðleg áhrif á stöðu Blairs nú á lokasprettinum. Þvert ofan í fyrri spár þá benda skoðanakannanir til að Írak sé að hafa meiri áhrif á kjósendur en áður var talið. Financial Times birti í dag athyglisverða könnun sem sýnir að ellefu prósent Breta segjast hafa hætt við að kjósa Verkamannaflokkinn út af Íraksmálinu og heil þrjátíu og sex prósent segjast enn vera að hugsa um að skipta um skoðun. Þetta er mun meiri óákveðni en í fyrri kosningum og gæti haft áhrif á útkomuna. Blair hefur í dag brugðist við með því að fara í hart gegn Frjálslyndum demókrötum. Frjálslyndir eru að vinna yfir marga óánægða kjósendur Verkamannaflokksins, sérstaklega þá sem eru á móti Íraksstríðinu. Bardagalína Blairs nú er: "Kjósið Frjálslynda og viti menn, það gæti orðið til þess að Íhaldsflokkurinn kemst til valda og ekki viljið þið það." Annars virðist Blair sigla fremur lygnan sjó, kannanir sýna að hann hefur allt að 10% forskot á Íhaldsflokkinn sem myndi þýða um 150 sæta meirihluta á þinginu. Það er líka vert að hafa það í huga að breska kosningakerfið, sem er byggt á einmenningskjördæmum en ekki hlutfallskosningu, virkar þannig að Íhaldsflokkurinn þyrfti að fá 8-11% meira fylgi en Verkamannaflokkurinn til þess eins að ná meirihluta á breska þinginu.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×