Sport

Fúlir íþróttafréttamenn

Íþróttafréttamenn ítalska ríkissjónvarpsins RAI tilkynntu í dag að þeir ætli í verkfall þann 4. júní n.k. Þeir eru æfir af reiði yfir því áskriftarsjónvarpsstöðin Sky Italia skuli hafa fengið sýningarrétt á Ítalíu á sýningum allra 64 leikjanna á HM í knattspyrnu 2006 sem fer fram í Þýskalandi. Stéttarfélag íþróttafréttamanna RAI, Usigrai, segir að með því að selja SKY Italia sýningarréttinn sé verið að stefna í voða þeim sterku böndum sem RAI hefur haft við fótboltaáhugamenn í landinu sem er einmitt hvað þekktast fyrir rómaðan ofuráhuga á íþróttinni. Sky Italia næst aðeins til minnihluta þjóðarinnar en stöðin er í eigu ameríska fjölmiðlajöfursins Rupert Murdoch. Íþróttafréttamenn RAI vilja að ríkissjónvarpið eigi að splæsa í alla leikina og eru ónánægðir með vinnubrögð stjórnar stofnunarinnar. Fyrirhugað verkfall hefst eins og áður segir 4. júní eða þegar Ítalir mæta Noregi í undankeppni HM. Það þýðir að Ítalir fá einfaldlega ekki að sjá leikinn þar sem RAI er eins og er með einkasýningarrétt á landsleikjum Ítala. RAI tryggði sér árið 2001 sýningarrétt frá 25 af 64 leikjum HM2006, þ.á.m. allra leikja Ítala í keppninni, opnunarleikinn, undaúrslitaleikina og úrslitaleikinn en fannst of dýrt að kaupa alla leikina. SKY Italia tryggði sér svo í síðustu viku sýningarréttinn á öllum leikjunum 64 fyrir 140 milljónir Evra eða um 12 milljarða ísl. króna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×