Fastir pennar

Það kvað vera fallegt í Kína

Maður rekur upp stór augu ef maður sér kaupsýslumann í Reykjavík þessa dagana. Þeir eru allir komnir austur til Kína með Ólafi Ragnari vini sínum. Frændi minn er staddur í Kína sem óbreyttur ferðamaður og rakst hvarvetna á íslenska bisnessmenn með dollaraglampa í augum. Það er svosem ekki nema von að þeir séu spenntir. Í þrælakistum alþýðulýðveldisins er hægt að láta framleiða fyrir sig alls kyns góss fyrir ekki nema brot af því sem það kostar hér. Annars vekur athygli að Davíð Oddsson utanríkisráðherra skuli ekki vera með í opinberri heimsókn sem er gert svona mikið úr. Hann fór til Póllands að messa um mannréttindi – og þykir sumum kyn eftir að hann lét skrúfa fyrir peninga til mannréttindaskrifstofunnar á Íslandi. Raunar gátu þeir ekki valið lágtsettari ráðherra í Kínaförina – Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra var sett í djobbið. Kannski er talið að við getum ýmislegt lært af Kínverjum í umhverfisverndarmálum – ein ástæðan fyrir því að vestrænir kapítalistar eru svo spenntir yfir Kína er að þeir gefa skít í umhverfið. --- --- --- Myndina tók frændi minn Pálmi á Torgi hins himneska friðar í gær en þá var búið að rýma það vegna fyrirmennanna frá Íslandi. Svo heyrðist ómur af lúðrablæstri og tuttugu og eitt fallbyssuskot svo undir tók í allri borginni. --- --- --- Svo er tilkynnt að Halldór Ásgrímsson ætli að fara í fyrstu ferðina til San Fransisco með Icelandair. Nauðsynlegt að hafa forsætisráðherra með í slíkum leiðangri. Síðast var það sigurlokahátíðin í Moskvu, jú og jarðarför páfans og svo var hann að spássera með Bondevik í Harðangri. Bráðum er hann að fara á Mont Blanc með Finni Ingólfssyni. Er von þótt spurt sé hvort Halldór noti hvert tækifæri til að vera ekki heima? --- --- --- Jónas Kristjánsson telur að ég hafi snúist á band með óvinum Georges Galloway. Tja. Ég horfði á yfirheyrslu yfir Galloway fyrir bandarískri þingnefnd og hann kemur mér fyrir augu eins og lýðskrumari. Setti á langar, leiðinlegar og slagorðakenndar ræður. Í pistli var ég hins vegar fyrst og fremst að benda á schadenfreude margra andstæðinga Íraksstríðsins, tilhneiginguna til að gleðjast yfir því þegar illa gengur í Írak. Því miður er hægt að túlka þetta sem móralskan stuðning við óbótamenn. Enn sem komið er hafa uppreisnaröflin í Írak ekki sýnt að þau verðskuldi neina samúð – aðferðin sem þau beita er terror sem beinist ekki síst gegn almennum borgurum. Þetta er tvískinnungurinn sem ég var að fjalla um – vinstri absúrdisminn. Maður hlýtur að vona að líf fólksins í Írak batni, alveg burtséð frá því hvort maður fílar George Bush eða ekki. --- --- --- Stuðningsmenn Manchester United vilja ekki ameríska bisnessmódelið þar sem allt er til sölu. Þeir telja að félagið hafi einhverja æðri merkingu. Það er samt heldur seint í rassinn gripið. Líkt og ég hef áður bent á er alveg eins hægt að halda með McDonald´s, Starbuck´s eða KFC og Manchester United, Real Madrid eða AC Milan. Stóru fótboltaliðin eru fyrirtæki sem byggja á sölu sjónvarpsréttinda og alls kyns varnings. Þau eru partur af afþreyingariðnaði nútímans – leikirnir í gamla latneska máltækinu panem et circencis. Það er bara lógískt að komi menn eins og Malcolm Glazer sem líta á þetta sem bisness og ekkert annað. Fótboltaáhugamenn virðast líka vera lítilþægir svo fremi sem árangur næst – manni sýnist til dæmis að áhangendum Chelsea sé alveg sama þótt skuggalegur rússneskur kaupsýslumaður hafi keypt félagið með manni og mús. Það eru til lið sem passa upp á að tryggja almennum félögum áhrif – þar má nefna Barcelona og Bayern München. Annars er bara hægt að snúa sér að liðum í neðri deildum sem stórkapítalistar myndu aldrei láta sér detta í hug að snerta. Nú er Guðjón Þórðarson kominn til Notts County, fornfrægs liðs sem spilar í þriðju deild - eða var það sú fjórða? Áfram þeir! Bendi í þessu sambandi á pistilinn Hvar er Kenny Hibbitt? --- --- --- Kári kom með mér í útvarpsviðtal á laugardaginn, sagði þrjú já og sönglaði svolítið milli þess sem hann reyndi að rífa niður míkrafóninn. Klíndi sig allan út í bleki. Daginn eftir vorum við að hjóla vestur í bæ og hittum strák sem varð starsýnt á mig og spurði svo: "Hef ég séð þig í sjónvarpinu?" "Já", svaraði ég. Þá heyrðist í Kára: "Hefurðu séð mig í útvarpinu?"





×