Erlent

Mannréttindum hrakar á heimsvísu

Mannréttindum hrakar á heimsvísu og þau eru brotin um allan heim. Bandaríkin og framferði stjórnvalda þar er ein meginorsök þessarar þróunar, samkvæmt ársskýrslu Amnesty International. Bandaríkjamenn sniðganga mannréttindi í nafni stríðsins gegn hryðjuverkum. Og þegar eina stórveldið brýtur mannréttindi eigin þegna og annarra þykir öðrum óhætt að fylgja í þau fótspor, segja sérfræðingar Amnesty International. Framkvæmdastjóri samtakanna, Irene Khan, segir Bandaríkin og bandamenn þeirra í hryðjuverkastríðinu í raun hafa aukið á óöryggið með þessu framferði. Guantanamo sé orðið gúlag okkar tíma og hafi fest þá tilfinningu í sessi hjá fólki að hægt sé að halda mönnum föngnum án dóms og laga. „Veki Guantanamo upp í huga manna myndir af sovéskri kúgun þá minna draugafangar, einangrunarfangar eða óskráðir fangar, óþægilega á þá aðferð að láta menn hverfa eins og tíðkaðist hjá einræðisherrum Suður-Ameríku,“ segir Khan. Hún gefur lítið fyrir mannréttindaást Bandaríkjanna og vill meina að gjörðirnar bendi til annars. En það er víða pottur brotinn í mannréttindamálum. Árið 2004 var frægasta dæmið um aðgerðaleysi í Darfur og er það jafnframt gagnrýnt í skýrslunni, og þá bæði stjórnvöld í Súdan og Sameinuðu þjóðirnar fyrir aðgerðaleysi og seinagang. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×