Faðerni og pólitískar deilur 27. maí 2005 00:01 Afar sérkennilegt dómsmál hefur komist í fjölmiðla undanfarna daga, sem snýst um að Lúðvík Gizurarson lögfræðingur er nú á efri árum að reyna að komast að því hver var hans raunverulegi faðir - því hann fékk nýlega staðfest með DNA-rannsókn að Gizur sá Bergsteinsson sem hann hefur alla ævi kennt sig við, hann var hreint ekki raunverulegur faðir hans. Lúðvík sjálfur sagði í viðtali hér á Talstöðinni í gær að hann hefði í raun lengi talið sig vita hver hefði verið hinn rétti faðir hans; það er að segja Hermann heitinn Jónasson forsætisráðherra - og þess vegna hefur Lúðvík farið fram á að rannsökuð verði lífsýni úr Hermanni til að bera DNA hans saman við DNA sitt. Því hafa börn Hermanns hafnað og þess vegna er málið nú fyrir dómstólum og líka í umfjöllun almennings í landinu - þótt Hæstiréttur hafi nú fallist á að neitun Hermannsbarna sé réttmæt, þá segir Lúðvík að málinu sé ekki lokið af sinni hálfu. Ég ætla auðvitað ekki að leggja neinn dóm á þetta mál - fjarri fer því - og auðvitað hvorki forsendur til þess né raunverulega ástæðu, þar sem vitaskuld er um að ræða persónulegt mál, en hins vegar kom líka fram í viðtalinu við Lúðvík hér á Talstöðinni í gær að í málinu kynni að leynast skýring á hápólitísku deilumáli hér á landi - síðan á miðjum fjórða áratugnum. Og ómaksins vert að rifja það eilítið upp - burtséð frá því hvernig málið hefur nú blandast inn í faðernismál Lúðvíks Gizurarsonar, eða hvað á að kalla þennan málarekstur. Þannig er mál með vexti að sumarið 1935 voru tveir dómarar við Hæstarétt Íslands leystir frá störfum - að því er sagt alls ekki að eigin ósk, þótt þeir væru að vísu báðir komnir nokkuð til ára sinna. Þetta voru þeir Páll Einarsson sem var 67 ára og hafði setið í Hæstarétti allt frá stofnun réttarins árið 1919 en áður verið meðal annars bæjarstjóri í Reykjavík og bæjarfógeti og sýslumaður á Akureyri - og Eggert Briem sem var 68 og hafði eins og Páll verið hæstaréttardómari allt frá upphafi og áður sýslumaður og bæjarfógeti á Seyðisfirði en síðan dómari við Landsyfirréttinn svokallaða, fyrirrennara Hæstaréttar. Sem sagt báðir þrauteyndir menn og dómarar. Í stað þessara tveggja reynslubolta, þá skipaði dómsmálaráðherra - sem var Hermann Jónasson, jafnframt störfum forsætisráðherra - hann skipaði tvo kornunga menn á mælikvarða hæstaréttardómara, sem oftar en ekki eru engin unglömb þegar þeir setjast í réttinn. Enda gjarnan talið æskilegt að enginn vafi leiki á um að nýir dómarar séu starfi sínu vaxnir - en þeim vafa er auðveldast að eyða með því að skipa menn með töluverða reynslu. Nýju dómararnir tveir - höfðu þeir þá tilhlýðilegu reynslu? Um það efuðust margir. Annars vegar var um að ræða Þórð Eyjólfsson sem var 38 ára og hafði unnið ýmis málflutninggstörf um dagana, þar á meðal verið setudómari í ýmsum málum, en hafði árið 1934 verið skipaður prófessor við Háskóla Íslands. Því starfi hafði hann sem sé aðeins gegnt í eitt ár þegar Hermann Jónasson treysti honum til að setjast í Hæstarétt. Hinn dómarinn var enn yngri, fyrrnefndur Gizur Bergsteinsson sem var ekki nema 33 ára og átti frómt frá sagt ekki glæstan starfsferil að baki þótt hann hefði vissulega staðið sig prýðilega þar sem hann var kominn - en hann hafði frá því hann lauk lögfræðiprófi fyrst starfað sem fulltrúi í dómsmálaráðuneytinu og síðar skrifstofustjóri. Annar hinna nýju dómara - það er að segja Þórður - hafði þegar blandast inn í sjóðheitt pólitískt deilumál á Ísland, sjálfa "stóru bombuna" sem sprakk hálfum áratug fyrr þegar Helgi Tómasson yfirlæknir á Kleppi setti fram grunsemdir um að þáverandi dómsmálaráðherra, Jónas Jónsson frá Hriflu, væri geðveikur. Ég nenni ekki að tíunda það mál hér, en burtséð frá hegðun Hriflu-Jónasar - sem ýmsir höfðu vissulega áhyggjur af um þær mundir - þá átti "stóra bomban" sér kannski líka aðrar ástæður. Jónas hafði nefnilega einsett sér að brjóta á bak aftur samtök lækna sem honum fannst að hefðu gert með sér óviðurkvæmilegt samkomulag til að fá að ráða sjálfir hvaða læknar fengju hvaða embætti. Jónas lét hefja opinbera rannsókn á svonefndri veitingar-nefnd Læknafélags Íslands og hvort félagið hefði með henni seilst inn á valdsvið framkvæmdavaldsins - en það var á ábyrgð ráðherra að skipa lækna, ekki Læknafélagsins. Læknar voru af þessu tilefni kallaðir til yfirheyrslu hjá rannsóknardómara eins og hverjir aðrir sakamenn og líkaði stórilla. Þessi rannsóknardómari var Þórður Eyjólfsson. Kenningin var sem sagt sú að til að hefna fyrir illa meðferð á læknum frá hendi rannsóknardómarans og dómsmálaráðherrans hefði Helgi Tómasson sett á flot ásakanir um geðveiki Hriflu-Jónasar. Látum það liggja milli hluta. Hins vegar: þegar Þórður Eyjólfsson var, flestum að óvörum, skipaður hæstaréttardómari fimm árum eftir "stóru bombuna" þá lagðist það orð á að þarna væri Framsóknarflokkurinn - flokkur Hriflu-Jónasar og Hermanns Jónassonar - að launa honum liðveisluna. Þótt Þórður væri reyndar almennt viðurkenndur fínn lögfræðingur, burtséð frá aðild hans að deilumálum Jónasar frá Hriflu við lækna. En þeir stjórnarandstæðingar sem mótmæltu skipan Hermanns Jónassonar á Þórði og Gizuri Bergsteinssyni í Hæstarétt, þeir áttu hins vegar fáar opinberar skýringar á því hver væri hin undirliggjandi ástæða fyrir skipan Gizurs. Gizur þótti vel að merkja líka fínn dómari þegar á hólminn var komið, en nú hefur sem sagt Lúðvík Gizurarson varpað fram kenningunni um að Gizuri hafi fyrst og fremst verið veitt staðan við hæstarétt til að hafa hann góðan - ef svo má segja - vegna þess að forsætis- og dómsmálaráðherrann hefði gert konu hans barn. Ég ítreka - ég hef enga skoðun á því. Hins vegar er ljóst að Tíminn, málgagn Framsóknarflokksins, hann hefur séð fyrir að valið á þeim Þórði og Gizuri yrði umdeilt, því þegar frétt er birt um skipan þeirra þann 25. september 1935, þá er lögð rík áhersla á að tíunda í svo löngu máli sem kostur er starfsferil þeirra. Og síðan segir: "Það mun ekki verða með rökum í efa dregið að skipun þessara tveggja embætta í æðsta dómstóli þjóðarinnar mjög vel tekist. Báðir eru hinir nýju dómarar áhugasamir gáfu- og lærdómsmenn á glæsilegasta aldri til að hefja hið vandamikla og veglega lífsstarf er þeirra bíður - að tryggja hinni íslensku þjóð réttlæti og jafnrétti fyrir landslögum í samræmi við lífsskoðun hins nýja tíma." Hér er rétt að hafa í huga að í þá daga var lagt nokkuð upp úr því - og ótrúlegt nokk, ekki síst af Framsóknarflokknum - að treysta æskumönnum fyrir mikilvægum störfum. Jónas Jónsson frá Hriflu sem enn var helsti áhrifamaður í Framsóknarflokknum var ekki nema fimmtugur. Hermann Jónasson forsætisráðherra var 39 ára. Eysteinn Jónsson fjármálaráðherra var 29 ára. Svo það þurfti þannig séð ekki að koma endilega á óvart þótt flokkurinn hneigðist til að velja líka unga menn í Hæstarétt - en afrekaskrá tvímenninganna var bara ekki slík að stjórnarandstæðingar létu heillast, þrátt fyrir orð Tímans. Enda tók Mogginn - málgagn Sjálfstæðisflokksins - málið óstinnt upp. Einkum var það reyndar sú staðreynd að Hermann Jónasson skyldi hafa tekið tvímenningana ungu fram yfir annan umsækjanda, Magnús Guðmundsson, sem olli úlfúð blaðsins. Magnús Guðmundsson var 56 ára og hafði fengist við margt um dagana. Hann hafði verið sýslumaður í Skagafirði og skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu og alþingismaður frá 1916. Og hann hafði verið fjármálaráðherra og atvinnumálaráðherra í samtals fimm ár á þriðja áratugnum og síðan dómsmálaráðherra í tæp tvö ár 1932-1934. Það var því varla nema von að Morgunblaðið teldi Magnús meira en hæfan til að verða hæstaréttardómari - burtséð frá því að hann var sjálfstæðismaður. Og blaðið fullyrti að eingöngu pólitík hefði komið í veg fyrir að Hermann skipaði hann hæstaréttardómara. Sem og fyrri erjur Magnúsar við þá framsóknarmenn, Hriflu-Jónas og Hermann Jónasson. Þannig er mál með vexti að meðan Jónas var ennþá dómsmálaráðherra árið 1932 hafði hann hafið málarekstur á hendur Magnúsi, sem þá var enn óbreyttur þingmaður en um það bil að setjast sjálfur í stól dómsmálaráðherra að afloknum yfirvofandi stjórnarskiptum. Jónas sakaði Magnús um glæpsamlegt athæfi í sambandi við gjaldþrotaskipti meðan hann sinnti lögmannsstörfum nokkrum árum fyrr. Flestir töldu ákæruna fráleita en þá kom til skjalanna Hermann Jónasson, sem þá var lögreglustjóri í Reykjavík og sem slíkur æðsti dómari í höfuðstaðnum. Hann gaf sér tíma frá alvarlegum átökum í borginni þann 9. nóvember til að skjótast í dómssal og dæma Magnús Guðmundsson - sem þá var orðinn dómsmálaráðherra - í fangelsi. Dómsmálaráðherra í fangelsi var auðvitað óhugsandi og Magnús sagði af sér meðan málið var til meðferðar fyrir Hæstarétti. Ólafur Thors sat þá sem ráðherra í hans stað í mánuð eða svo - en þá hafnaði Hæstiréttur með öllu niðurstöðu Hermanns Jónassonar í máli hans og sýknaði Magnús af öllum ákærum. Og þeir voru til sem töldu að þessi niðurstaða Hæstaréttar hefði vakið slíka reiði framsóknarmanna að þess vegna hefði hinum öldnu dómurum verið vikið frá árið 1935 - og ungu mennirnir settir í þeirra stað - en Magnúsi Guðmundssyni hafnað. Sem Mogginn reiddist mjög, taldi upp í löngu máli mannkosti Magnúsar og taldi "fullvíst að honum hefði strax verið veitt embættið, ef ekki hefði staðið svo á, að í dómsmálaráðherrasæti situr nú þægur en lítilmótlegur vikapiltur Jónasar frá Hriflu". Í Tímanum vörðust menn með því að í umsögn Hæstaréttar sjálfs um umsækjendur hefði Magnús Guðmundsson ekki verið talinn sérstaklega hæfari heldur en þeir Þórður Eyjólfsson og Gizur Bergsteinsson. Eftir að gömlu dómararnir tveir viku úr embætti þá um sumarið 1935, þá sat reyndar bara einn raunverulegur dómari í Hæstarétti - Einar Arnórsson fyrrverandi ráðherra - og því höfðu verið skipaðir tveir sérstakir menn til að meta umsækjendur með Einari - og var annar þeirra hinn kornungi lagaprófessor og vonarstjarna Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson. Og hélt Tíminn því fram að úr því sjálfur Bjarni Ben hefði ekki kveðið skýrt á um að Magnús Guðmundsson væri skilyrðislaust hæfari en ungu mennirnir tveir, þá hefði Hermanni forsætis- og dómsmálaráðherra síður en svo borið að skipa Magnús í embættið, eins og Mogginn vildi vera láta. Raunar voru umsækjendur ekki nema fjórir og einn þeirra var talinn ótvírætt óhæfur til að verða hæstaréttardómari. Af þeim þremur sem þá voru eftir hlaut Hermann að skipa tvo og þar af annan af ungu umsækjendunum tveimur. Það hefði því ekki komið neinum á óvart þótt hann hefði skipað hinn þrautreynda Magnús Guðmundsson og svo Þórð Eyjólfsson. En Hermann tók sem sagt hinn óreynda Gizur Bergsteinsson fram yfir Magnús Guðmundsson. Og þótt heitt og hart væri deilt um niðurstöðuna á þessum haustdögum árið 1935, þá varð niðurstöðunni að sjálfsögðu ekki breytt. Hvers vegna Hermann tók þessa ákvörðun vissi enginn - nema skýringin var sem sagt talin pólitískur hefndarhugur framsóknarmanna í garð Magnúsar. En nú mætti sem sagt ætla að skýringin kynni að hafa verið allt önnur - og mun persónulegri. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Á kassanum Illugi Jökulsson Mest lesið Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Örvæntingarfullur maður sker út grasker Þórður Snær Júlíusson Skoðun Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Sjálfstæðisflokkur hækkar kostnað heimilanna Kristrún Frostadóttir Skoðun Gerum þetta að kosningamáli Ágúst Ólafur Ágústsson Skoðun Ölmusuhagkerfið Unnur Rán Reynisdóttir Skoðun Eru vaxtarmörkin vandinn? Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Stóri grænþvotturinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Búum til „vandamál“ – leysum það með samræmdum prófum Árelía Eydís Guðmundsdóttir Skoðun Fyrirmyndarstjórn Viðreisnar og Samfylkingar á Reykjavíkurborg? Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun
Afar sérkennilegt dómsmál hefur komist í fjölmiðla undanfarna daga, sem snýst um að Lúðvík Gizurarson lögfræðingur er nú á efri árum að reyna að komast að því hver var hans raunverulegi faðir - því hann fékk nýlega staðfest með DNA-rannsókn að Gizur sá Bergsteinsson sem hann hefur alla ævi kennt sig við, hann var hreint ekki raunverulegur faðir hans. Lúðvík sjálfur sagði í viðtali hér á Talstöðinni í gær að hann hefði í raun lengi talið sig vita hver hefði verið hinn rétti faðir hans; það er að segja Hermann heitinn Jónasson forsætisráðherra - og þess vegna hefur Lúðvík farið fram á að rannsökuð verði lífsýni úr Hermanni til að bera DNA hans saman við DNA sitt. Því hafa börn Hermanns hafnað og þess vegna er málið nú fyrir dómstólum og líka í umfjöllun almennings í landinu - þótt Hæstiréttur hafi nú fallist á að neitun Hermannsbarna sé réttmæt, þá segir Lúðvík að málinu sé ekki lokið af sinni hálfu. Ég ætla auðvitað ekki að leggja neinn dóm á þetta mál - fjarri fer því - og auðvitað hvorki forsendur til þess né raunverulega ástæðu, þar sem vitaskuld er um að ræða persónulegt mál, en hins vegar kom líka fram í viðtalinu við Lúðvík hér á Talstöðinni í gær að í málinu kynni að leynast skýring á hápólitísku deilumáli hér á landi - síðan á miðjum fjórða áratugnum. Og ómaksins vert að rifja það eilítið upp - burtséð frá því hvernig málið hefur nú blandast inn í faðernismál Lúðvíks Gizurarsonar, eða hvað á að kalla þennan málarekstur. Þannig er mál með vexti að sumarið 1935 voru tveir dómarar við Hæstarétt Íslands leystir frá störfum - að því er sagt alls ekki að eigin ósk, þótt þeir væru að vísu báðir komnir nokkuð til ára sinna. Þetta voru þeir Páll Einarsson sem var 67 ára og hafði setið í Hæstarétti allt frá stofnun réttarins árið 1919 en áður verið meðal annars bæjarstjóri í Reykjavík og bæjarfógeti og sýslumaður á Akureyri - og Eggert Briem sem var 68 og hafði eins og Páll verið hæstaréttardómari allt frá upphafi og áður sýslumaður og bæjarfógeti á Seyðisfirði en síðan dómari við Landsyfirréttinn svokallaða, fyrirrennara Hæstaréttar. Sem sagt báðir þrauteyndir menn og dómarar. Í stað þessara tveggja reynslubolta, þá skipaði dómsmálaráðherra - sem var Hermann Jónasson, jafnframt störfum forsætisráðherra - hann skipaði tvo kornunga menn á mælikvarða hæstaréttardómara, sem oftar en ekki eru engin unglömb þegar þeir setjast í réttinn. Enda gjarnan talið æskilegt að enginn vafi leiki á um að nýir dómarar séu starfi sínu vaxnir - en þeim vafa er auðveldast að eyða með því að skipa menn með töluverða reynslu. Nýju dómararnir tveir - höfðu þeir þá tilhlýðilegu reynslu? Um það efuðust margir. Annars vegar var um að ræða Þórð Eyjólfsson sem var 38 ára og hafði unnið ýmis málflutninggstörf um dagana, þar á meðal verið setudómari í ýmsum málum, en hafði árið 1934 verið skipaður prófessor við Háskóla Íslands. Því starfi hafði hann sem sé aðeins gegnt í eitt ár þegar Hermann Jónasson treysti honum til að setjast í Hæstarétt. Hinn dómarinn var enn yngri, fyrrnefndur Gizur Bergsteinsson sem var ekki nema 33 ára og átti frómt frá sagt ekki glæstan starfsferil að baki þótt hann hefði vissulega staðið sig prýðilega þar sem hann var kominn - en hann hafði frá því hann lauk lögfræðiprófi fyrst starfað sem fulltrúi í dómsmálaráðuneytinu og síðar skrifstofustjóri. Annar hinna nýju dómara - það er að segja Þórður - hafði þegar blandast inn í sjóðheitt pólitískt deilumál á Ísland, sjálfa "stóru bombuna" sem sprakk hálfum áratug fyrr þegar Helgi Tómasson yfirlæknir á Kleppi setti fram grunsemdir um að þáverandi dómsmálaráðherra, Jónas Jónsson frá Hriflu, væri geðveikur. Ég nenni ekki að tíunda það mál hér, en burtséð frá hegðun Hriflu-Jónasar - sem ýmsir höfðu vissulega áhyggjur af um þær mundir - þá átti "stóra bomban" sér kannski líka aðrar ástæður. Jónas hafði nefnilega einsett sér að brjóta á bak aftur samtök lækna sem honum fannst að hefðu gert með sér óviðurkvæmilegt samkomulag til að fá að ráða sjálfir hvaða læknar fengju hvaða embætti. Jónas lét hefja opinbera rannsókn á svonefndri veitingar-nefnd Læknafélags Íslands og hvort félagið hefði með henni seilst inn á valdsvið framkvæmdavaldsins - en það var á ábyrgð ráðherra að skipa lækna, ekki Læknafélagsins. Læknar voru af þessu tilefni kallaðir til yfirheyrslu hjá rannsóknardómara eins og hverjir aðrir sakamenn og líkaði stórilla. Þessi rannsóknardómari var Þórður Eyjólfsson. Kenningin var sem sagt sú að til að hefna fyrir illa meðferð á læknum frá hendi rannsóknardómarans og dómsmálaráðherrans hefði Helgi Tómasson sett á flot ásakanir um geðveiki Hriflu-Jónasar. Látum það liggja milli hluta. Hins vegar: þegar Þórður Eyjólfsson var, flestum að óvörum, skipaður hæstaréttardómari fimm árum eftir "stóru bombuna" þá lagðist það orð á að þarna væri Framsóknarflokkurinn - flokkur Hriflu-Jónasar og Hermanns Jónassonar - að launa honum liðveisluna. Þótt Þórður væri reyndar almennt viðurkenndur fínn lögfræðingur, burtséð frá aðild hans að deilumálum Jónasar frá Hriflu við lækna. En þeir stjórnarandstæðingar sem mótmæltu skipan Hermanns Jónassonar á Þórði og Gizuri Bergsteinssyni í Hæstarétt, þeir áttu hins vegar fáar opinberar skýringar á því hver væri hin undirliggjandi ástæða fyrir skipan Gizurs. Gizur þótti vel að merkja líka fínn dómari þegar á hólminn var komið, en nú hefur sem sagt Lúðvík Gizurarson varpað fram kenningunni um að Gizuri hafi fyrst og fremst verið veitt staðan við hæstarétt til að hafa hann góðan - ef svo má segja - vegna þess að forsætis- og dómsmálaráðherrann hefði gert konu hans barn. Ég ítreka - ég hef enga skoðun á því. Hins vegar er ljóst að Tíminn, málgagn Framsóknarflokksins, hann hefur séð fyrir að valið á þeim Þórði og Gizuri yrði umdeilt, því þegar frétt er birt um skipan þeirra þann 25. september 1935, þá er lögð rík áhersla á að tíunda í svo löngu máli sem kostur er starfsferil þeirra. Og síðan segir: "Það mun ekki verða með rökum í efa dregið að skipun þessara tveggja embætta í æðsta dómstóli þjóðarinnar mjög vel tekist. Báðir eru hinir nýju dómarar áhugasamir gáfu- og lærdómsmenn á glæsilegasta aldri til að hefja hið vandamikla og veglega lífsstarf er þeirra bíður - að tryggja hinni íslensku þjóð réttlæti og jafnrétti fyrir landslögum í samræmi við lífsskoðun hins nýja tíma." Hér er rétt að hafa í huga að í þá daga var lagt nokkuð upp úr því - og ótrúlegt nokk, ekki síst af Framsóknarflokknum - að treysta æskumönnum fyrir mikilvægum störfum. Jónas Jónsson frá Hriflu sem enn var helsti áhrifamaður í Framsóknarflokknum var ekki nema fimmtugur. Hermann Jónasson forsætisráðherra var 39 ára. Eysteinn Jónsson fjármálaráðherra var 29 ára. Svo það þurfti þannig séð ekki að koma endilega á óvart þótt flokkurinn hneigðist til að velja líka unga menn í Hæstarétt - en afrekaskrá tvímenninganna var bara ekki slík að stjórnarandstæðingar létu heillast, þrátt fyrir orð Tímans. Enda tók Mogginn - málgagn Sjálfstæðisflokksins - málið óstinnt upp. Einkum var það reyndar sú staðreynd að Hermann Jónasson skyldi hafa tekið tvímenningana ungu fram yfir annan umsækjanda, Magnús Guðmundsson, sem olli úlfúð blaðsins. Magnús Guðmundsson var 56 ára og hafði fengist við margt um dagana. Hann hafði verið sýslumaður í Skagafirði og skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu og alþingismaður frá 1916. Og hann hafði verið fjármálaráðherra og atvinnumálaráðherra í samtals fimm ár á þriðja áratugnum og síðan dómsmálaráðherra í tæp tvö ár 1932-1934. Það var því varla nema von að Morgunblaðið teldi Magnús meira en hæfan til að verða hæstaréttardómari - burtséð frá því að hann var sjálfstæðismaður. Og blaðið fullyrti að eingöngu pólitík hefði komið í veg fyrir að Hermann skipaði hann hæstaréttardómara. Sem og fyrri erjur Magnúsar við þá framsóknarmenn, Hriflu-Jónas og Hermann Jónasson. Þannig er mál með vexti að meðan Jónas var ennþá dómsmálaráðherra árið 1932 hafði hann hafið málarekstur á hendur Magnúsi, sem þá var enn óbreyttur þingmaður en um það bil að setjast sjálfur í stól dómsmálaráðherra að afloknum yfirvofandi stjórnarskiptum. Jónas sakaði Magnús um glæpsamlegt athæfi í sambandi við gjaldþrotaskipti meðan hann sinnti lögmannsstörfum nokkrum árum fyrr. Flestir töldu ákæruna fráleita en þá kom til skjalanna Hermann Jónasson, sem þá var lögreglustjóri í Reykjavík og sem slíkur æðsti dómari í höfuðstaðnum. Hann gaf sér tíma frá alvarlegum átökum í borginni þann 9. nóvember til að skjótast í dómssal og dæma Magnús Guðmundsson - sem þá var orðinn dómsmálaráðherra - í fangelsi. Dómsmálaráðherra í fangelsi var auðvitað óhugsandi og Magnús sagði af sér meðan málið var til meðferðar fyrir Hæstarétti. Ólafur Thors sat þá sem ráðherra í hans stað í mánuð eða svo - en þá hafnaði Hæstiréttur með öllu niðurstöðu Hermanns Jónassonar í máli hans og sýknaði Magnús af öllum ákærum. Og þeir voru til sem töldu að þessi niðurstaða Hæstaréttar hefði vakið slíka reiði framsóknarmanna að þess vegna hefði hinum öldnu dómurum verið vikið frá árið 1935 - og ungu mennirnir settir í þeirra stað - en Magnúsi Guðmundssyni hafnað. Sem Mogginn reiddist mjög, taldi upp í löngu máli mannkosti Magnúsar og taldi "fullvíst að honum hefði strax verið veitt embættið, ef ekki hefði staðið svo á, að í dómsmálaráðherrasæti situr nú þægur en lítilmótlegur vikapiltur Jónasar frá Hriflu". Í Tímanum vörðust menn með því að í umsögn Hæstaréttar sjálfs um umsækjendur hefði Magnús Guðmundsson ekki verið talinn sérstaklega hæfari heldur en þeir Þórður Eyjólfsson og Gizur Bergsteinsson. Eftir að gömlu dómararnir tveir viku úr embætti þá um sumarið 1935, þá sat reyndar bara einn raunverulegur dómari í Hæstarétti - Einar Arnórsson fyrrverandi ráðherra - og því höfðu verið skipaðir tveir sérstakir menn til að meta umsækjendur með Einari - og var annar þeirra hinn kornungi lagaprófessor og vonarstjarna Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson. Og hélt Tíminn því fram að úr því sjálfur Bjarni Ben hefði ekki kveðið skýrt á um að Magnús Guðmundsson væri skilyrðislaust hæfari en ungu mennirnir tveir, þá hefði Hermanni forsætis- og dómsmálaráðherra síður en svo borið að skipa Magnús í embættið, eins og Mogginn vildi vera láta. Raunar voru umsækjendur ekki nema fjórir og einn þeirra var talinn ótvírætt óhæfur til að verða hæstaréttardómari. Af þeim þremur sem þá voru eftir hlaut Hermann að skipa tvo og þar af annan af ungu umsækjendunum tveimur. Það hefði því ekki komið neinum á óvart þótt hann hefði skipað hinn þrautreynda Magnús Guðmundsson og svo Þórð Eyjólfsson. En Hermann tók sem sagt hinn óreynda Gizur Bergsteinsson fram yfir Magnús Guðmundsson. Og þótt heitt og hart væri deilt um niðurstöðuna á þessum haustdögum árið 1935, þá varð niðurstöðunni að sjálfsögðu ekki breytt. Hvers vegna Hermann tók þessa ákvörðun vissi enginn - nema skýringin var sem sagt talin pólitískur hefndarhugur framsóknarmanna í garð Magnúsar. En nú mætti sem sagt ætla að skýringin kynni að hafa verið allt önnur - og mun persónulegri.