Hið fullkomna samfélag 6. júní 2005 00:01 Þegar ég horfði um daginn á börnin á hoppdýnunni í Fjölskyldugarðinum í Laugardal rann skyndilega upp fyrir mér að fyrir augum mér hafði ég hið fullkomna samfélag manna. Þarna var uppskriftin. Þarna sá ég okkur eins og okkur er tamt að vera þegar við erum óbrjáluð. Alþingismenn sem nú ráfa um götur í reiðileysi og vita ekkert hvað þeir eiga af sér að gera í sínu endalausa fríi - þeir ættu náttúrlega að fara að horfa á börnin á hoppdýnunni til að sjá að hið fullkomna samfélag manna er stundum til; í hoppunum hjá krökkunum voru leystir úr læðingi margir af eftirsóknarverðum eiginleikum mannanna sem ber að leyfa að njóta sín þegar leikreglur samfélagsins eru settar. Þarna sá maður félagshyggju og einstaklingshyggju í sínum eðlilegu myndum, þar sem hvorugt er hugsanlegt án hins. Þau hoppuðu. Sum hátt, önnur varfærnislega, hjá sumum var þetta hálfgert hlunkadunk, hjá öðrum áreynslulaust svif. Sum voru virk en önnur stóðu og létu sig berast með hreyfingum dýnunnar. Hoppin voru jafn margbreytileg og börnin voru mörg: öll vitum við að í hoppi er ekki hægt að þykjast og þegar maður hoppar þá birtist þar hinn eiginlegi kjarni manns - þegar hann Ari litli hoppar þá verður hann einmitt svo mikill Ari. Þau voru mjög mörg. Nánast hver blettur af dýnunni var nýttur. Þarna voru lítil kríli sem kútveltust jafnharðan af dýnunni og einhver stór hreyfði sig; þarna voru skrækjandi stelpur og rýtandi strákar; þarna voru níu og tíu ára krakkar með ósýnilega gorma á fótunum, fim börn og ófim, öll nutu sín því að hver fann sitt hopp og lagði sitt af mörkum til bylgjuhreyfinga dýnunnar. Hvert og eitt þeirra hafði fremur lítið svigrúm til athafna og þurfti að skapa sitt persónulega hopp úr frá þeim litla og afmarkaða ramma sem því var settur. Og það var ekki bara ramminn sem þau þurftu að læra að athafna sig í til að ná fram vel lukkuðu hoppi, heldur þurftu þau líka að bregðast við ölduhreyfingunum, aðlagast þeim, vera í sátt við við þær. Allt sem sérhvert hoppandi barn gerði var í órjúfanlegu, risastóru og síbreytilegu og lífrænu samhengi. Þetta var eins og samfélagið sem samanstendur af alls kyns virkni einstaklinganna sem í undurflóknu samhengi mynda saman allsherjar ölduhreyfingu sem óskandi væri að vísitölumælingarnar myndu einhvern tímann ná til... Þau hoppuðu, og voru mjög mörg. Þetta leit út fyrir að vera algjört kaos háð tilviljunarlögmálinu en í allri ringulreiðinni skynjaði maður engu að síður ósýnilegar umferðarreglur sem allir virtu. Enginn krakki tróð öðrum um tær. Enginn hrinti öðrum. Enginn meiddi annan. Þarna var mikið návígi og mikið hnoð, sífelld snerting, einlægt verið að rekast saman, detta og flækjast í hrúgu. En þarna var enginn sem virtist telja að forsenda vel lukkaðs hopps hjá sér væri illa lukkað hopp hjá einhverjum öðrum. Enginn reyndi að glansa á kostnað annarra. Enginn reyndi að taka til sín pláss sem öðrum bar - allir virtu svæði hinna... Þarna var engin lamandi hönd miðstýringarinnar sem með yfirgripsmiklu regluverki lamar alla dáð og alla gleði og þarna var ekki græðgi neysluhugsjónarinnar sem allri nautn af núinu rænir okkur; þarna voru engar trúarkreddur sem vildu beina þessari orku allri til dýrðar óviðkomandi patríörkum, engar óþarfa kennisetningar, ekkert blaður, bara mannlífið sjálft eins og það getur orðið fegurst þegar boðið er upp á virkilega vel heppnaða hoppdýnu á sólríkum degi. Var þetta þá ekki bara hið sósíalíska samfélag? Hin kommúníska hugsjón í verki um samhygð þeirra sem vinna eftir getu og taka eftir þörfum? Því ekki það. Ég held að þetta hoppdýnusamfélag hafi að minnsta kosti komist nær því en til dæmis Kúba og hvað þá Kína, Albanía, Kórea og Víetnam - að maður tali ekki um hin ósköpin.... Hið sósíalíska samfélag er hverfult og hverfur jafnharðan og kerfunin á sér stað. Valdið liggur þar utan og ofan við allt, háð gagnkvæmu samkomulagi einstaklinganna og sameiginlegum vilja sem aldrei stendur lengi; það byggir á hárfínu jafnvægi ýtrustu einstaklingshyggju og brennnandi félagsanda sem getur ekki staðið nema stutt í einu. Hið sósíalíska samfélag verður til þegar bjarga þarf verðmætum eða þegar náttúruhamfarir verða - eða þegar hoppað er saman á dýnu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Það er allt í lagi að vera þú sjálfur - Opið bréf til Snorra Mássonar Kári Stefánsson Skoðun Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Heimskasta þjóð í heimi? Sverrir Björnsson Skoðun Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun Foreldrar, ömmur og afar þessa lands - áskorun til ykkar! Ragnheiður Stephensen Skoðun Viðreisn er Samfylkingin Júlíus Viggó Ólafsson Skoðun Hugsjónir ójafnaðarmanns - svar við bréfi Kára Snorri Másson Skoðun „Ég hefði nú ekkert á móti því að taka aðeins í tæjuna“ Eva Pandora Baldursdóttir Skoðun Samfylkingin hafnar einkavæðingu í skólakerfinu Arnór Heiðar Benónýsson,Anna María Jónsdóttir Skoðun Jæja, ræðum þá þetta dásamlega Evrópusamband Haraldur Ólafsson Skoðun
Þegar ég horfði um daginn á börnin á hoppdýnunni í Fjölskyldugarðinum í Laugardal rann skyndilega upp fyrir mér að fyrir augum mér hafði ég hið fullkomna samfélag manna. Þarna var uppskriftin. Þarna sá ég okkur eins og okkur er tamt að vera þegar við erum óbrjáluð. Alþingismenn sem nú ráfa um götur í reiðileysi og vita ekkert hvað þeir eiga af sér að gera í sínu endalausa fríi - þeir ættu náttúrlega að fara að horfa á börnin á hoppdýnunni til að sjá að hið fullkomna samfélag manna er stundum til; í hoppunum hjá krökkunum voru leystir úr læðingi margir af eftirsóknarverðum eiginleikum mannanna sem ber að leyfa að njóta sín þegar leikreglur samfélagsins eru settar. Þarna sá maður félagshyggju og einstaklingshyggju í sínum eðlilegu myndum, þar sem hvorugt er hugsanlegt án hins. Þau hoppuðu. Sum hátt, önnur varfærnislega, hjá sumum var þetta hálfgert hlunkadunk, hjá öðrum áreynslulaust svif. Sum voru virk en önnur stóðu og létu sig berast með hreyfingum dýnunnar. Hoppin voru jafn margbreytileg og börnin voru mörg: öll vitum við að í hoppi er ekki hægt að þykjast og þegar maður hoppar þá birtist þar hinn eiginlegi kjarni manns - þegar hann Ari litli hoppar þá verður hann einmitt svo mikill Ari. Þau voru mjög mörg. Nánast hver blettur af dýnunni var nýttur. Þarna voru lítil kríli sem kútveltust jafnharðan af dýnunni og einhver stór hreyfði sig; þarna voru skrækjandi stelpur og rýtandi strákar; þarna voru níu og tíu ára krakkar með ósýnilega gorma á fótunum, fim börn og ófim, öll nutu sín því að hver fann sitt hopp og lagði sitt af mörkum til bylgjuhreyfinga dýnunnar. Hvert og eitt þeirra hafði fremur lítið svigrúm til athafna og þurfti að skapa sitt persónulega hopp úr frá þeim litla og afmarkaða ramma sem því var settur. Og það var ekki bara ramminn sem þau þurftu að læra að athafna sig í til að ná fram vel lukkuðu hoppi, heldur þurftu þau líka að bregðast við ölduhreyfingunum, aðlagast þeim, vera í sátt við við þær. Allt sem sérhvert hoppandi barn gerði var í órjúfanlegu, risastóru og síbreytilegu og lífrænu samhengi. Þetta var eins og samfélagið sem samanstendur af alls kyns virkni einstaklinganna sem í undurflóknu samhengi mynda saman allsherjar ölduhreyfingu sem óskandi væri að vísitölumælingarnar myndu einhvern tímann ná til... Þau hoppuðu, og voru mjög mörg. Þetta leit út fyrir að vera algjört kaos háð tilviljunarlögmálinu en í allri ringulreiðinni skynjaði maður engu að síður ósýnilegar umferðarreglur sem allir virtu. Enginn krakki tróð öðrum um tær. Enginn hrinti öðrum. Enginn meiddi annan. Þarna var mikið návígi og mikið hnoð, sífelld snerting, einlægt verið að rekast saman, detta og flækjast í hrúgu. En þarna var enginn sem virtist telja að forsenda vel lukkaðs hopps hjá sér væri illa lukkað hopp hjá einhverjum öðrum. Enginn reyndi að glansa á kostnað annarra. Enginn reyndi að taka til sín pláss sem öðrum bar - allir virtu svæði hinna... Þarna var engin lamandi hönd miðstýringarinnar sem með yfirgripsmiklu regluverki lamar alla dáð og alla gleði og þarna var ekki græðgi neysluhugsjónarinnar sem allri nautn af núinu rænir okkur; þarna voru engar trúarkreddur sem vildu beina þessari orku allri til dýrðar óviðkomandi patríörkum, engar óþarfa kennisetningar, ekkert blaður, bara mannlífið sjálft eins og það getur orðið fegurst þegar boðið er upp á virkilega vel heppnaða hoppdýnu á sólríkum degi. Var þetta þá ekki bara hið sósíalíska samfélag? Hin kommúníska hugsjón í verki um samhygð þeirra sem vinna eftir getu og taka eftir þörfum? Því ekki það. Ég held að þetta hoppdýnusamfélag hafi að minnsta kosti komist nær því en til dæmis Kúba og hvað þá Kína, Albanía, Kórea og Víetnam - að maður tali ekki um hin ósköpin.... Hið sósíalíska samfélag er hverfult og hverfur jafnharðan og kerfunin á sér stað. Valdið liggur þar utan og ofan við allt, háð gagnkvæmu samkomulagi einstaklinganna og sameiginlegum vilja sem aldrei stendur lengi; það byggir á hárfínu jafnvægi ýtrustu einstaklingshyggju og brennnandi félagsanda sem getur ekki staðið nema stutt í einu. Hið sósíalíska samfélag verður til þegar bjarga þarf verðmætum eða þegar náttúruhamfarir verða - eða þegar hoppað er saman á dýnu.
Samfylkingin hafnar einkavæðingu í skólakerfinu Arnór Heiðar Benónýsson,Anna María Jónsdóttir Skoðun
Samfylkingin hafnar einkavæðingu í skólakerfinu Arnór Heiðar Benónýsson,Anna María Jónsdóttir Skoðun