Og þjóðin svaf 8. júní 2005 00:01 Vinur minn einn bjó á Filippseyjum um hríð og hafði þjóna á hverjum fingri eins og tíðkast enn þar austur frá: bílstjóra, garðyrkjumann, húsvörð, kokk o.s.frv. Þau sátu þá að völdum í landinu Ferdinand Marcos og eiginkona hans, Ímelda. Hann var forseti landsins og hafði öll ráð í hendi sér, og hún var fyrrverandi fegurðardís, hafði verið kjörin Ungfrú Maníla (með svindli). Spillingin var æðisgengin: allir vissu það. Ekki þar fyrir að þau hjónin gengju endilega beint í ríkiskassann eins og hann væri þeirra einkaeign, þau notuðu aðrar aðferðir. Þau tóku toll af erlendu hjálparfé, þágu mútur úr ýmsum áttum og sölsuðu undir sig eigur almennings, þar á meðal ríkisfyrirtæki. Þau lifðu hátt, mjög hátt, og þjóðin svaf. Ferdinand Marcos og frú stálu 5-10 milljörðum Bandaríkjadollara af Filippseyingum, eftir því sem næst verður komizt. Til viðmiðunar er Móbútú forseti Saír, nú Kongó, talinn hafa stolið 5 milljörðum dollara og Súhartó Indónesíuforseti 15-35 milljörðum dollara: hann á heimsmetið. Heimildin er Transparency International í Berlín, en sú stofnun fylgist með spillingu víðs vegar um heiminn og birtir tölur um hana. Landsframleiðslan í ár hér heima nemur tæpum 15 milljörðum dollara til samanburðar. Tilraunir vinar míns til að vekja andúð þjónustufólksins á heimilinu á auðgun forsetahjónanna á Filippseyjum báru ekki árangur. Skömmu eftir að Marcos hrökklaðist frá völdum í kjölfar kosningasvika 1986 eftir rösklega 20 ára valdasetu og þau hjónin bæði, var forsetahöllin eins og þau skildu við hana opnuð almenningi. Þar gat m.a. að líta skóskápa frúarinnar: þar voru 3000 pör af skóm. Vini mínum fannst, að þetta þyrfti þjónustufólkið á heimili hans að fá að sjá, ef það mætti verða til þess að opna augu þeirra. Hann bauð þeim öllum í höllina og leiddi þau sal úr sal. Það er skemmst frá því að segja, að tilraunin fór út um þúfur: þjónustufólkinu fannst það ekki gott, að svo útsjónarsöm hjón hefðu verið flæmd frá völdum. Það getur ekki hver sem er eignazt 3000 pör af skóm, sagði þvottakonan. Var réttlætiskennd þvottakonunnar ábótavant? Ekki endilega. Hún hafði um ýmislegt annað að hugsa á eigin vettvangi og hafði því e.t.v. ekki mikinn tíma til að gaumgæfa fjármál forsetans. Ekki er heldur hægt að skella skuldinni á veika stjórnarandstöðu, þar eð Marcos hafði tekið sér einræðisvald og fangelsað ýmsa andstæðinga sína og trúlega látið myrða helzta leiðtoga stjórnarandstöðunnar, þegar hann steig á land 1983 eftir langa útlegð. Við rannsókn morðmálsins bárust böndin að mönnum forsetans, en vasadómarar hans sýknuðu handbendin. Og ekki var mikið hald í fjölmiðlunum, því að þeir þögðu um fjármál forsetahjónanna og margt fleira. Af þessu öllu leiddi, að þvottakona vinar míns og þjóðin öll höfðu ekki fengið nógu góð skilyrði til að velta auðgun forsetahjónanna fyrir sér og mynda sér skýra skoðun á málinu. Samt svaf þjóðin ekki fastar en svo, að hún hrakti Ferdinand og Ímeldu í útlegð, þegar forsetinn þóttist hafa borið sigurorð af ekkju hins myrta stjórnarandstöðuleiðtoga í forsetakosningunum 1986. Þá reis fólkið upp, nú var komið nóg, ekkjan varð forseti, og Ferdinand og Ímelda flúðu til Havaíeyja og settust að þar. Ferdinand þurfti að eyða þeim árum, sem hann átti ólifuð (hann dó 1989), í að verjast tilraunum nýrrar ríkisstjórnar Filippseyja til að ná aftur að lögum þeim auði, sem þau hjónin höfðu safnað í stjórnartíð hans. Bandaríkjastjórn kærði þau fyrir fjárdrátt, og þau fengu dóm bæði tvö. Ímelda var þó sýknuð í Bandaríkjunum eftir hans dag, en hún var síðan dæmd fyrir spillingu í heimalandi sínu. Hún er enn á lífi og stendur í ströngu. Réttarvandinn er oft mikill í málum sem þessum. Þegar einræðisstjórnir verða uppvísar að gripdeildum, geta þær borið fyrir sig friðhelgi eignarréttarins, þegar þýfið er komið í höfn. Vandinn getur þá snúizt upp í að sýna fram á ólögmæti stjórnarinnar, sem setti lögin, sem leyfðu gripdeildirnar, eins og reynt var í Sovétríkjunum sálugu. Í Rússlandi og öðrum lýðræðisríkjum nú er málið enn snúnara, því að þar verður lögmæti stjórnarinnar, sem hlóð undir einkavini sína án þess að brjóta lög, ekki dregið í efa. Þá ríður á því, að lög um t.d. einkavæðingu séu vandlega smíðuð með neyðarútgangi og öryggisventlum – og þjóðin vaki. Alþingi hefði þurft að byrgja brunninn, áður en bankarnir voru seldir. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Þorvaldur Gylfason Mest lesið Er þetta alvöru? Bjarni Karlsson Skoðun Skilaboð hátíðarinnar Skúli S. Ólafsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Nýr kafli í sögu ESB Michael Mann Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun
Vinur minn einn bjó á Filippseyjum um hríð og hafði þjóna á hverjum fingri eins og tíðkast enn þar austur frá: bílstjóra, garðyrkjumann, húsvörð, kokk o.s.frv. Þau sátu þá að völdum í landinu Ferdinand Marcos og eiginkona hans, Ímelda. Hann var forseti landsins og hafði öll ráð í hendi sér, og hún var fyrrverandi fegurðardís, hafði verið kjörin Ungfrú Maníla (með svindli). Spillingin var æðisgengin: allir vissu það. Ekki þar fyrir að þau hjónin gengju endilega beint í ríkiskassann eins og hann væri þeirra einkaeign, þau notuðu aðrar aðferðir. Þau tóku toll af erlendu hjálparfé, þágu mútur úr ýmsum áttum og sölsuðu undir sig eigur almennings, þar á meðal ríkisfyrirtæki. Þau lifðu hátt, mjög hátt, og þjóðin svaf. Ferdinand Marcos og frú stálu 5-10 milljörðum Bandaríkjadollara af Filippseyingum, eftir því sem næst verður komizt. Til viðmiðunar er Móbútú forseti Saír, nú Kongó, talinn hafa stolið 5 milljörðum dollara og Súhartó Indónesíuforseti 15-35 milljörðum dollara: hann á heimsmetið. Heimildin er Transparency International í Berlín, en sú stofnun fylgist með spillingu víðs vegar um heiminn og birtir tölur um hana. Landsframleiðslan í ár hér heima nemur tæpum 15 milljörðum dollara til samanburðar. Tilraunir vinar míns til að vekja andúð þjónustufólksins á heimilinu á auðgun forsetahjónanna á Filippseyjum báru ekki árangur. Skömmu eftir að Marcos hrökklaðist frá völdum í kjölfar kosningasvika 1986 eftir rösklega 20 ára valdasetu og þau hjónin bæði, var forsetahöllin eins og þau skildu við hana opnuð almenningi. Þar gat m.a. að líta skóskápa frúarinnar: þar voru 3000 pör af skóm. Vini mínum fannst, að þetta þyrfti þjónustufólkið á heimili hans að fá að sjá, ef það mætti verða til þess að opna augu þeirra. Hann bauð þeim öllum í höllina og leiddi þau sal úr sal. Það er skemmst frá því að segja, að tilraunin fór út um þúfur: þjónustufólkinu fannst það ekki gott, að svo útsjónarsöm hjón hefðu verið flæmd frá völdum. Það getur ekki hver sem er eignazt 3000 pör af skóm, sagði þvottakonan. Var réttlætiskennd þvottakonunnar ábótavant? Ekki endilega. Hún hafði um ýmislegt annað að hugsa á eigin vettvangi og hafði því e.t.v. ekki mikinn tíma til að gaumgæfa fjármál forsetans. Ekki er heldur hægt að skella skuldinni á veika stjórnarandstöðu, þar eð Marcos hafði tekið sér einræðisvald og fangelsað ýmsa andstæðinga sína og trúlega látið myrða helzta leiðtoga stjórnarandstöðunnar, þegar hann steig á land 1983 eftir langa útlegð. Við rannsókn morðmálsins bárust böndin að mönnum forsetans, en vasadómarar hans sýknuðu handbendin. Og ekki var mikið hald í fjölmiðlunum, því að þeir þögðu um fjármál forsetahjónanna og margt fleira. Af þessu öllu leiddi, að þvottakona vinar míns og þjóðin öll höfðu ekki fengið nógu góð skilyrði til að velta auðgun forsetahjónanna fyrir sér og mynda sér skýra skoðun á málinu. Samt svaf þjóðin ekki fastar en svo, að hún hrakti Ferdinand og Ímeldu í útlegð, þegar forsetinn þóttist hafa borið sigurorð af ekkju hins myrta stjórnarandstöðuleiðtoga í forsetakosningunum 1986. Þá reis fólkið upp, nú var komið nóg, ekkjan varð forseti, og Ferdinand og Ímelda flúðu til Havaíeyja og settust að þar. Ferdinand þurfti að eyða þeim árum, sem hann átti ólifuð (hann dó 1989), í að verjast tilraunum nýrrar ríkisstjórnar Filippseyja til að ná aftur að lögum þeim auði, sem þau hjónin höfðu safnað í stjórnartíð hans. Bandaríkjastjórn kærði þau fyrir fjárdrátt, og þau fengu dóm bæði tvö. Ímelda var þó sýknuð í Bandaríkjunum eftir hans dag, en hún var síðan dæmd fyrir spillingu í heimalandi sínu. Hún er enn á lífi og stendur í ströngu. Réttarvandinn er oft mikill í málum sem þessum. Þegar einræðisstjórnir verða uppvísar að gripdeildum, geta þær borið fyrir sig friðhelgi eignarréttarins, þegar þýfið er komið í höfn. Vandinn getur þá snúizt upp í að sýna fram á ólögmæti stjórnarinnar, sem setti lögin, sem leyfðu gripdeildirnar, eins og reynt var í Sovétríkjunum sálugu. Í Rússlandi og öðrum lýðræðisríkjum nú er málið enn snúnara, því að þar verður lögmæti stjórnarinnar, sem hlóð undir einkavini sína án þess að brjóta lög, ekki dregið í efa. Þá ríður á því, að lög um t.d. einkavæðingu séu vandlega smíðuð með neyðarútgangi og öryggisventlum – og þjóðin vaki. Alþingi hefði þurft að byrgja brunninn, áður en bankarnir voru seldir.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun