Þróttmikið leikhúslíf 15. júní 2005 00:01 Kröftug starfsemi atvinnuleikhúsa er ekki sjálfgefin í þrjú hundruð þúsund manna samfélagi. Því er aðdáunarvert að fylgjast með leikhúslífi landsmanna en þar hefur farið saman á síðustu árum æ meiri fagmennska og hressilegt áræði. Hvorutveggja hefur birst í nýjungum og tilraunum sem eru fyllilega í takt við það sem best gerist í miklu fjölmennari Evrópulöndum. Gríman, íslensku leiklistarverðlaunin sem afhent verða í Þjóðleikhúsinu í kvöld, eru góður vitnisburður um þennan þrótt. Hér verður ekki getið sér til um verðlaunahafa kvöldsins. Hitt er brýnna að minna á mikilvægi leiklistarlífs í landinu, svo og annarra tengdra lista, svo sem myndlistar, tónlistar og bókmennta. Í reynd er það nefnilega svo að liststarfsemi er einn allra besti mælikvarði á gæði þjóða. Aðsókn að íslenskum leikhúsum er meiri en í þeim löndum sem Íslendingar bera sig oftast saman við. Vel á þriðja hundrað þúsund leikhúsgesta setjast framan við sviðið á hverju leikári þegar best gengur. Útlendingar hrista náttúrlega höfuðið þegar þeir heyra þessi ósköp, en þeir eru jafnframt minntir á að leikhús á Íslandi hafa alltaf höfðað til fleiri en útvalinna og þess þrönga hóps í hverju samfélagi sem nefnir sig menningarvita. Leikhús Íslands eru allra - enda hefur það ávallt verið svo að fjölbreytnin hefur verið ráðandi í verkefnavali; leikhúsin hafa öðru fremur þjónað sem alþýðuleikhús, blandan á milli gamans og alvöru, léttmetis og drama hefur einatt tekist með afbrigðum vel. Fyrir vikið flykkist allur almenningur í leikhús. Nýlegt dæmi er hvellsprengin í aðsókn að sýningum Leikfélags Akureyrar á síðasta leikári en gestafjöldinn jafngilti því að allir bæjarbúar hefðu séð sýningar félagsins á einum vetri. Það er mikill leikhússigur. Eins má nefna þær þúsundir leikhúsgesta sem fylltu hverja sýninguna af annarri í Þjóðleikhúsinu á meðan leikverk Sigurðar Pálssonar um söngfuglinn Edith Piaf var á fjölunum. Og þá er heldur ekki úr vegi að nefna nýlegar barna- og fjölskyldusýningar á sígildum leikverkum og söngleikjum í atvinnuleikhúsunum þremur sem gengu lengur fyrir fullum sal en bjartsýnustu menn þorðu að vona. En leikhús landsmanna eru ekki aðeins í stærstu plássunum, eins og höfuðstöðunum syðra og nyrðra. Leikhúsin eru um allt land og vart er hægt að finna þau þorp á landinu sem státa ekki af þróttmiklu áhugamannaleikfélagi. Mörg af fámennari byggðarlögum landsins, svo sem Ísafjörður, Dalvík, Húsavík og Hornafjörður eru rómuð fyrir sterka leikhúshefð sína. Í bæjum sem þessum eru leikhúsin máttarstólpar menningarlífsins og sannur mælikvarði á andann í plássinu. Það er ánægjulegt að á Íslandi hefur skapast sterk og rík leikhúshefð. Mikilvægt er að hlúa að þessari hefð og sýna starfi leikhúsmanna þá virðingu sem þeim ber. Þar munar verulega um viðhorf ríkisvaldsins og sveitarfélaga. Með réttu má segja að leikhús landsmanna séu spegill samfélagsins; þau sýna hvaða þrótt það geymir og sýna í reynd á hvaða stigi menning þess er. Metnaðarfull og áræðin leikhús, þar sem fagmennska ræður för, þrífast ekki nema í bestu samfélögum sem vilja gera vel við fólkið sitt. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Sigmundur Ernir Rúnarsson Mest lesið Teppaleggjum ekki íslenska náttúru með vindorku Halla Hrund Logadóttir Skoðun Halldór 23.11.2024 Halldór Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Miskunnsami nýmarxistinn Kári Allansson Skoðun Furðuleg réttlæting á hækkun verðtryggðra vaxta Marinó G. Njálsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Dýrkeyptur aðgangur Stella Guðmundsdóttir Skoðun „Við andlát manns lýkur skattskyldu hans“ Þórður Gunnarsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun
Kröftug starfsemi atvinnuleikhúsa er ekki sjálfgefin í þrjú hundruð þúsund manna samfélagi. Því er aðdáunarvert að fylgjast með leikhúslífi landsmanna en þar hefur farið saman á síðustu árum æ meiri fagmennska og hressilegt áræði. Hvorutveggja hefur birst í nýjungum og tilraunum sem eru fyllilega í takt við það sem best gerist í miklu fjölmennari Evrópulöndum. Gríman, íslensku leiklistarverðlaunin sem afhent verða í Þjóðleikhúsinu í kvöld, eru góður vitnisburður um þennan þrótt. Hér verður ekki getið sér til um verðlaunahafa kvöldsins. Hitt er brýnna að minna á mikilvægi leiklistarlífs í landinu, svo og annarra tengdra lista, svo sem myndlistar, tónlistar og bókmennta. Í reynd er það nefnilega svo að liststarfsemi er einn allra besti mælikvarði á gæði þjóða. Aðsókn að íslenskum leikhúsum er meiri en í þeim löndum sem Íslendingar bera sig oftast saman við. Vel á þriðja hundrað þúsund leikhúsgesta setjast framan við sviðið á hverju leikári þegar best gengur. Útlendingar hrista náttúrlega höfuðið þegar þeir heyra þessi ósköp, en þeir eru jafnframt minntir á að leikhús á Íslandi hafa alltaf höfðað til fleiri en útvalinna og þess þrönga hóps í hverju samfélagi sem nefnir sig menningarvita. Leikhús Íslands eru allra - enda hefur það ávallt verið svo að fjölbreytnin hefur verið ráðandi í verkefnavali; leikhúsin hafa öðru fremur þjónað sem alþýðuleikhús, blandan á milli gamans og alvöru, léttmetis og drama hefur einatt tekist með afbrigðum vel. Fyrir vikið flykkist allur almenningur í leikhús. Nýlegt dæmi er hvellsprengin í aðsókn að sýningum Leikfélags Akureyrar á síðasta leikári en gestafjöldinn jafngilti því að allir bæjarbúar hefðu séð sýningar félagsins á einum vetri. Það er mikill leikhússigur. Eins má nefna þær þúsundir leikhúsgesta sem fylltu hverja sýninguna af annarri í Þjóðleikhúsinu á meðan leikverk Sigurðar Pálssonar um söngfuglinn Edith Piaf var á fjölunum. Og þá er heldur ekki úr vegi að nefna nýlegar barna- og fjölskyldusýningar á sígildum leikverkum og söngleikjum í atvinnuleikhúsunum þremur sem gengu lengur fyrir fullum sal en bjartsýnustu menn þorðu að vona. En leikhús landsmanna eru ekki aðeins í stærstu plássunum, eins og höfuðstöðunum syðra og nyrðra. Leikhúsin eru um allt land og vart er hægt að finna þau þorp á landinu sem státa ekki af þróttmiklu áhugamannaleikfélagi. Mörg af fámennari byggðarlögum landsins, svo sem Ísafjörður, Dalvík, Húsavík og Hornafjörður eru rómuð fyrir sterka leikhúshefð sína. Í bæjum sem þessum eru leikhúsin máttarstólpar menningarlífsins og sannur mælikvarði á andann í plássinu. Það er ánægjulegt að á Íslandi hefur skapast sterk og rík leikhúshefð. Mikilvægt er að hlúa að þessari hefð og sýna starfi leikhúsmanna þá virðingu sem þeim ber. Þar munar verulega um viðhorf ríkisvaldsins og sveitarfélaga. Með réttu má segja að leikhús landsmanna séu spegill samfélagsins; þau sýna hvaða þrótt það geymir og sýna í reynd á hvaða stigi menning þess er. Metnaðarfull og áræðin leikhús, þar sem fagmennska ræður för, þrífast ekki nema í bestu samfélögum sem vilja gera vel við fólkið sitt.