Viðskipti innlent

Búnaðarbanki ekki í ársreikningi

Eignarhlutar þýska bankans Hauck&Aufhäuser í Búnaðarbankanum er ekki getið í ársreikningi hans eins og gefið var í skyn í tilkynningu frá bankanum á mánudag sem var send fjölmiðlum á ensku og íslensku. Þegar tilkynningarnar tvær eru bornar saman er í ensku tilkynningunni sagt að hlutur þýska bankans í Eglu hafi verið færður í reikningsskil bankans. Í íslensku þýðingunni er hins vegar sagt að bréfin hafi verið "bókuð í ársreikningi bankans.". Í ársreikningi þýska bankans er hlutarins í Eglu eða Búnaðarbankanum hins vegar ekki getið með beinum hætti hvorki fyrir árið 2003 né fyrir árið 2004. "Yfirlýsing Hauck&Afhäuser á mánudag varð til með þeim hætti að fyrirsvarsmenn Eglu áttu samtöl við fyrirsvarsmenn þýska bankans og upplýstu þá um umræðuna sem átt hefur sér stað í fjölmiðlum hérlendis á undanförnum vikum, þar sem meðal annars er dregið í efa eignarhald þeirra á hlutum í Eglu. Í kjölfar þessa ákvað þýski bankinn að senda frá sér sína yfirlýsingu," segir Kristinn Hallgrímsson, lögmaður Eglu. Guðmundur Hjaltason, endurskoðandi og framkvæmdastjóri Eglu, mun að eigin sögn hafa þýtt tilkynningu Eglu yfir á íslensku og fyrirtækið Athygli sá svo um að koma tilkynningunum til fjölmiðla. Árni Þórður Jónsson hjá Athygli segir að fyrirtækið hafi aðeins séð um að senda tilkynninguna en segist ekki vita hver skrifaði hana. "Tilkynningunni var snarað yfir á íslensku til þess að hún kæmist til fjölmiðla sem fyrst. Ef áhöld eru uppi um ónákvæmni í þýðingunni þá er ekki við þýska bankann að sakast," segir Kristinn. Í tilkynningunni kemur ekkert fram um hvort þýski bankinn hafi verið raunverulegur eigandi hlutarins í Búnaðarbankanum. Kristinn segir að í samtölum við fyrirsvarsmenn þýska bankans hafi verið ljóst að eignir voru færðar í efnahag bankans undir veltubók og eðlilegt væri að fyrirsvarsmenn bankans myndu staðfesta það.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×