Innlent

Ríkisstjórnin líklega blekkt

"Ef þýski bankinn keypti aldrei bréf í Búnaðarbankanum, eins og haldið er fram, hefur ríkisstjórnin líklega verið blekkt," segir Lúðvík Bergvinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, um hinn þráláta orðróm að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser hafi aldrei átt bréf í Búnaðarbankanum. "Gengið var út frá því að erlendur aðili reiddi fram eigið fé til kaupanna. Þátttaka hans var forsenda þess að kaupandi fengi að kaupa bréfin. Forsætisráðherra, persónulega í gegnum eignarhald sitt á hlut í hlutafélagi, ásamt hlutafélögum í eigu ættingja hans og vina úr framsóknarflokknum og fleiri, áttu í viðræðum um kaupin og keyptu bréfin," segir Lúðvík og segir kaupendur hafa hagnast um tugi milljarða. "Ef fullyrðingar háskólamanna, fjölmiðlamanna og fleiri eru réttar um að erlendur banki hafi aldrei lagt fram eigið fé til kaupanna hafa kaupendur líklega haft uppi blekkingar. Þá vaknaði spurningin um hvað núverandi forsætisráðherra vissi um raunverulega aðild þýska bankans, einkum í ljósi þess hverjir keyptu. Það yrði mikilvægt að fá svar við þeirri spurningu, komi í ljós að þýski bankinn hafi aldrei reitt fram eigið fé til kaupanna."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×