Erlent

Al-Qaida enn á ný?

Þjóðarleiðtogar víða um heim hafa vottað bresku þjóðinni samúð sína vegna atburðanna í Lundúnum. Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, sem staddur var á leiðtogafundi G8-ríkjanna í Gleneagles í Skotlandi þegar árásirnar voru gerðar, segir þær villimannslegar. Hann yfirgaf fundinn í Skotlandi rétt fyrir hádegi og hélt til Lundúna. George Bush, forseti Bandaríkjanna, sagði á fundinum í Skotlandi að stríðinu við hryðjuverkamenn væri langt í frá lokið. Bush sagði að ekkert yrði gefið eftir í þeirri baráttu og hryðjuverkamenn yrðu leitaðir uppi til að hægt yrði að rétta yfir þeim. Það var á tólfta tímanum sem fregnir bárust af yfirlýsingu frá áður óþekktum hópi á síður íslamskra öfgamanna. Ítalska fréttastofan ANSA greindi frá þessu og sagði hópinn, sem kallar sig "Leynihóp heilags stríðs al-Qaida í Evrópu", jafnframt vara Ítali og Dani við í yfirlýsingunni. Þeim væri nær að kalla sitt fólk heim frá Afganistan og Írak. Ekki hefur enn tekist að sannreyna yfirlýsinguna. Í millitíðinni hefur fjöldi hryðjuverkasérfræðinga lýst skoðun sinni á atburðunum og berast böndin að al-Qaida. Bent er á að ummerkin minni um margt á árásirnar í Madríd ellefta mars á síðasta ári en þá varð það hópur sem tengdist al-Qaida sem var að verki. Aðrir segja í það minnsta líklegast að íslamskir öfgamenn hafi verið að verki; London sé enda miðstöð harðlínu-íslamsks áróðurs í Evrópu. Bretar væru þess utan nánustu samstarfsmenn Bandaríkjanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×