Erlent

Handahófskennt fjöldamorð

Ken Livingstone, borgarstjóri Lundúnaborgar, segir árásirnar í Lundúnum handahófskennt fjöldamorð hryðjuverkamanna. Borgarstjórinn var staddur í Singapúr þegar fréttirnar af árásunum bárust til að fylgja eftir umsókn borgarinnar um að fá að halda Ólympíuleikanna. Sá fögnuður sem ríkti vegna leikanna hvarf vitaskuld um leið eins og hendi væri veifað. "Ég vil aðeins segja eitt: Þetta var ekki hryðjuverkaárás gegn hinum sterku og valdamiklu, forsetum og forsætisráðherrum. Henni var beint gegn venjulegum Lundúnabúum," sagði Livingstone í viðtölum við fréttamenn. "Þetta er ekki hugmyndafræði eða ofsatrú. Þetta er fjöldamorð." Því næst beindi borgarstjórinn orðum sínum til tilræðismannanna og sagði að lífið í Lundúnum kæmist fljótlega í samt lag og verða hér eftir sem hingað til frelsistákn fyrir Breta og aðrar þjóðir heimsins. "Ekkert sem þið gerið, sama hversu marga þið myrðið, kemur í veg fyrir að frelsið ríki og fólk lifi saman í sátt og samlyndi. Sama hvað þið gerið þá mistekst ykkur."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×