Erlent

London í morgun

Lundúnarlögreglan fann grunsamlegan böggul nærri Liverpool lestarstöðinni í London upp úr klukkan átta í morgun og var vegfarendum beint frá, en hættuástandi hefur verið aflýst. Á  áttunda tímanum í morgun var Euston brautarstöðin í miðborginni líka rýmd í öryggisskyni, en rétt fyrir klukkan átta var hættuástandi þar aflýst. það ríkir því enn mikil spenna í borginni. Gríðarleg rannsókn og leit að árásarmönnunum á London í gær er hafin um gjörvallt Bretland. Enn sem komið er hefur enginn verið handtekinn, en lögregluþjónar eru nú sýnilegir um alla borg. Enn eru svæði umhverfis vettvang hryðjuverkanna lokuð af og því ljóst að margir halda ekki til vinnu eins og á venjulegum föstudegi. Almenningur er hvattur til að halda sínu striki og er daglegt líf að færast í eðlilegt horf í borginni. Neðanjarðarlestakerfið hefur að miklu leyti verið tekið í gagnið á nýjan leik, þó með áðurnefndum truflunum, og strætisvagnaferðir eru eins og alla jafna. Ekki hefur verið staðfest að fleiri en þrjátíu og sjö hafi látist,en búist er við að sú tala eigi eftir að hækka verulega þar sem  meira en sjö hundruð manns slösuðust, þar af um fimmtíu lífshættulega. Allir virðast sammála um að al-Qaeda hafi lagt á ráðin, þótt það sé ekki opinberlega staðfest, enda séu öll ummerki mjög lík og þegar gerðar voru mannskæðar árásir í Madríd í fyrra.  Frá Gleneagles í Skotlandi hefur borist yfirlýsing frá leiðtogum G8 ríkjanna, þar sem þeir segja að árásirnar muni ekki hafa áhrif á markmið fundarins eða niðurstöður hans. Tony Blair er aftur kominn þangað, eftir ferð sína til Lundúna í gær í kjölfar árásanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×