Erlent

Öryggisgæsla í Evrópu aukin

Ekki hefur verið staðfest að fleiri en þrjátíu og sjö hafi látist, en hvaðanæva að berast fregnir af því að fleiri en fimmtíu hafi týnt lífi í árásunum í gær. Öruggt er talið að þegar öll kurl verða komin til grafar verði talan hærri, enda slösuðust meira en sjö hundruð manns, þar af um fimmtíu lífshættulega. Öryggisgæsla við lestarstöðvar og önnur samgöngumannvirki hefur verið hert um alla Evrópu og til að mynda eru nú lögregluþjónar á gangi um alla Parísarborg í Frakklandi. í Bandaríkjunum og Kanada hefur líka verið gefin út viðvörun um hugsanlegar árásir og þar er mikill viðbúnaður. Enn liggur ekki fyrir hvort um sjálfsmorðsárásir var að ræða, en sérfræðingar rannsaka nú yfirlýsingu hóps tengdum al-Qaeda, sem í gær lýsti yfir ábyrgð á árásunum. Allir virðast þó sammála um að árásin sé væntanlega gerð af al-Qaeda því öll ummerki mjög lík og þegar gerðar voru árásir á Madríd í fyrra. Jafnvel er talið líklegt að árásirnar á strætisvagnana hafi verið sjálfsmorðsárásir, en ekkert hefur þó verið staðfest í þeim efnum. Fyrstu rannsóknir benda til þess að í öllum tilvikum kunni að hafa verið notaðar litlar sprengjur sem alla jafna eru notaðar til hernaðar, en ekki stórar heimatilbúnar sprengjur, eins og talið var í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×