Erlent

Miðborg Birmingham rýmd

Lögreglan í Birmingham hefur fyrirskipað fólki að yfirgefa skemmtanahverfið í miðborg borgarinnar. Um 30 þúsund manns þurftu því að hverfa á brott. Þetta er gert eftir að lögreglu barst vísbending um að hætta væri á hryðjuverkaárásum. Lögregla umkringdi miðborgina og lokaði öllum leiðum inn í hana. "Það er mikil ringulreið, það virðist engin von um að fólk fái að fara aftur inn í miðborgina en fólk er hljótlátt og rólegt," sagði Kenneth Kelsall sem býr í Birmingham í viðtali við BBC. Breska lögreglan leitar nokkurra múslima sem grunaðir eru um aðild að hryðjuverkaárásunum á fimmtudag að sögn breskra fjölmiðla. Mennirnir eru taldir tengjast þeim sem skipulögðu hryðjuverkin í Madríd í mars á síðasta ári þegar 191 lét lífið. Vitað er að skömmu áður en mennirnir sem framkvæmdu hryðjuverkin í Madríd létust hringdu þeir til Bretlands. Staðfest hefur verið að 49 létust og talið er að 20 lík til viðbótar kunni að finnast. Sprengjurnar sem kostuðu tugi manna lífið í neðanjarðarlestum í Lundúnum á fimmtudag sprungu með fimmtán sekúndna millibili tíu mínútur fyrir níu um morguninn. Þessi atriði, auk annarra sem komið hafa fram, gefa til kynna að hópur hryðjuverkamanna hafi skipulagt og framkvæmt árásirnar. Þar sem sprengjurnar voru líklega tímastilltar hafa árásarmennirnir getað komið sér á brott áður en þær sprungu og eiga því möguleika á að gera fleiri árásir náist þeir ekki. Lík þeirra sem létust eru svo illa farin að lögregla hefur enn ekki getað borið kennsl á þau, notast verður við tannlæknaskýrslur, fingraför og DNA til að bera kennsl á fólkið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×