Erlent

Kennsl ekki borin á líkin

Sprengjurnar sem sprungu í þremur neðanjarðarlestum á fimmtudag voru svo öflugar að ekki hafa enn verið borin kennsl á lík þeirra sem létust í árásunum. Þessu greindu breskir lögreglumenn frá í gær. Staðfest hefur verið að 49 hafi látist og segir lögreglan að tala látinna eigi eftir að hækka eitthvað, þeir draga þó í efa að hún eigi eftir að hækka mjög mikið. "Þetta er skelfilegt verk," segir Jim Dickie sem kemur að rannsókn málsins. "Flest fórnarlömbin urðu mjög illa úti og með því meina ég að það eru líkamshlutir jafnt sem líkamsbúkar þarna." Rannsóknarmenn hafa reynt að bera kennsl á líkin með fingraförum, tannlæknaskrám og DNA-prufum. Tuttugu eru enn í lífshættu á sjúkrahúsum og einhver lík eru föst í braki lestar í Russell Square lestagöngunum þar sem björgunarmenn hafa ekki komist að þeim vegna hættu á hruni, ekki er vitað með vissu hversu mörg lík er að finna þar. Rannsóknir bresku lögreglunnar hafa leitt í ljós að mun skemmri tími leið milli sprenginganna en áður var talið. Fyrsta sprengingin í neðanjarðarlest sprakk klukkan 8.50 að breskum tíma og tvær síðari sprengjurnar skömmu síðar. Áður höfðu yfirmenn lestakerfisins lýst því yfir að 26 mínútur hefðu liðið milli sprenginganna þriggja. Hið rétta kom í ljós eftir að lögreglan fór yfir staðsetningu lestanna og gögn úr lestakerfinu. Annað sem rannsókn lögreglunnar hefur leitt í ljós er að þær eru gerðar úr öflugu sprengiefni. Það gefur til kynna að þær hafi ekki verið búnar til í heimahúsi eða við fábrotnar aðstæður. Talið er líklegt að þær hafi verið keyptar á svarta markaðnum en rannsakendur segja of snemmt að segja nokkuð til um hvar þær kunni að hafa verið keyptar. Vegna þess hversu stuttur tími leið milli sprenginganna þykir ólíklegt að um sjálfsmorðsárásir hafi verið að ræða þótt það sé ekki útilokað. Líklegra er að sprengjurnar hafi verið tímastilltar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×