Erlent

Fólk er bæði skelkað og hissa

Sendiráðspresturinn í Lundúnum segir að mestu samstöðuna sýni fólk með því að halda sínu striki. Í kjölfar hryðjuverkanna á fimmtudaginn heimsótti séra Sigurður Arnarson, sendiráðsprestur í Lundúnum, sjúkrahús borgarinnar þangað sem slasaðir höfðu verið fluttir til að ganga úr skugga um að Íslendingar væru ekki þar á meðal. "Fyrst reyndum við að senda fax á spítalana en það gekk ekkert, símar voru alltaf á tali og því varð ég hreinlega að fara á spítalana til að leita af mér allan grun." Á fimmtudaginn kom svo til umræðu að halda bænastund í sendiráðinu en af því varð hins vegar ekki. "Það var til dæmis vegna þess að fólki hafði verið hvatt til að halda kyrru fyrir. Þar fyrir utan þá felst mesta samstaðan hreinlega í að koma hlutunum í eðlilegt horf á ný. En fólk er auðvitað bæði skelkað og hissa, það hefur kannski verið þarna á vettvangi rétt áður sprengjurnar sprungu eða misst af lestunum sem lentu í þessu. Því líður ekki vel og á eftir að vera lengi að jafna sig."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×