Erlent

Taugatitringur enn í London

Gríðarlegur taugatitringur er enn í London þótt lífið í borginni sé um það bil að komast í eðlilegt horf eftir hryðjuverkaárásirnar í síðustu viku. Öryggisgæsla hefur verið hert enn frekar. Flestir Lundúnabúar mættu til vinnu í dag í fyrsta sinn eftir sprengjuárásirnar síðastliðinn fimmtudag og voru neðanjarðarlestir og strætisvagnar fullir af fólki sem ákveðið er í að láta ekki árásirnar trufla daglegt líf sitt. Talið er að tekist hafi að ná öllum líkum úr neðanjarðarlestunum sem sprengdar voru í árásunum en leitarmenn eru þó enn við störf við lest sem sprengd var á milli King´s Cross stöðvarinnar og Russel Square. Yfirvöld hafa staðfest að fimmtíu og tveir létu lífið og um 700 særðust. Taugatitrings gætir í borginni því um tíma í dag var King´s Cross stöðin rýmd vegna torkennilegs pakka sem var á svæðinu en engin sprengja fannst. Þá var kveikt í tveimur moskum múslíma um helgina. Öryggisgæsla hefur enn verið hert í Lundúnum þar sem hryðjuverkamennirnir sem skipulögðu árásirnar í síðustu viku eru enn á lífi og eru taldir undirbúa aðra árás, að sögn breska blaðsins Times. Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, lofaði á þinginu í dag bresku þjóðinni í dag að ekkert yrði gefið eftir í leitinni að ódæðismönnunum. Hann sendi samúðarkveðjur til fjölskyldna fórnarlamba árásanna og sagði Bretland ekki verða sigrað með slíkum hryðjuverkum. "Við munum leita þeirra sem bera ábyrgðina, ekki bara þeirra sem frömdu verknaðinn heldur einnig þeirra sem skipulögðu þetta óhæfuverk, hvar sem þeir eru, og við munum ekki unna okkur hvíldar fyrr en kennsl hafa verið borin á þá, og eftir því sem mögulegt er, þeir hafa verið látnir svara til saka," sagði Blair.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×