Erlent

Bretum að kenna segja múslímar

Hryðjuverkaárásirnar á Lundúnir eru bresku stjórninni og almenningi í Bretlandi að kenna. Þetta segja forsvarsmenn róttækra múslíma á Bretlandi. Tony Blair átti í gær fundi með leiðtogum helstu múslímahópa á Bretlandi til þess að fá þá í lið með sér og sannfæra um að koma á fót hópi til að berjast gegn öfgum. Leiðtogar róttækra múslíma tóku hins vegar ekki þátt í viðræðunum og senda í breskum fjölmiðlum frá sér allt önnur skilaboð en hófsamari trúbræður þeirra. Sheikh Omar Bakri Mohammed, einn róttæku leiðtoganna, sagði við Evening Standard að hryðjuverkaárásirnar væru ríkisstjórninni, almenningi og múslímum í Bretlandi að kenna því að þessir hópar hefðu ekkert gert til að mótmæla eða koma í veg fyrir blóðsúthellingar meðal múslíma sem byrjuðu löngu fyrir 11. september. Anjem Choudry, leiðtogi herskáa íslamistahópsins „al-Muhajiroun“, hvatti múslímaleiðtoga til að funda ekki með Blair á meðan múslímar væru myrtir í Írak. Í viðtali við útvarpsstöðina Radio 4 neitaði hann að fordæma hryðjuverkaárásirnar á London og sagði miklar líkur á að sambærilegar árásir yrðu gerðar. Hinir raunverulegu hryðjuverkamenn sætu auk þess í bresku stjórninni sem þættist verja réttlæti og sannleika, sem væri fjarri sanni. Breska lögreglan væri í sama hópi og reyndi að kljúfa samfélag múslíma í harðlínumenn og hófsama en sú skilgreining væri ekki til í íslam. Róttæku múslímarnir sögðust jafnframt ætla að sniðganga ný hryðjuverkalög sem banna að hvatt sé til hryðjuverka með einhverjum hætti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×