Erlent

Meintur forsprakki handtekinn

Pakistanska lögreglan hefur mann í haldi sem hún segir hafa átt beinan þátt í sprengjutilræðunum í Lundúnum 7. júlí. Lögreglurannsókn á árásunum á Lundúnir er í fullum gangi. Í gær var lestarvagninn sem sprengdur var við Edgware Road lestarstöðina fjarlægður af vettvangi til frekari rannsókna. Lundúnablaðið Times greindi frá því í gær að heimildarmaður þess í lögreglunni hefði tjáð því að talið væri að meintur skipuleggjandi árásanna hefði verið í Leeds, heimabæ árásarmannanna, og Lundúnum í júlíbyrjun en yfirgefið landið nokkrum klukkustundum fyrir sprengingarnar. Háttsettur pakistanskur embættismaður sagði í viðtali við AP-fréttastofuna í gær að yfirvöld hefðu mann í varðhaldi sem talinn er hafa átt í tilræðunum. "Ég get ekki sagt ykkur nafn mannsins að svo stöddu, einungis að hann tengist árásunum beint." Vitað er að þrír árásarmannanna dvöldu í lengri eða skemmri tíma í Pakistan á síðasta ári. Egypsk stjórnvöld lýstu því hins vegar yfir í gær að Magdy al-Nashar, efnafræðingurinn svonefndi, hefði engan þátt átt í hryðjuverkunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×