Erlent

Sprenging í bakpoka

Götum í nánd við Warren Street neðanjarðarlestarstöðina í London hefur verið lokað og lögregla segir fólki að yfirgefa svæðið. Sömu sögu er að segja í nánd við Oval-stöðina og þar hafa byggingar í grennd einnig verið rýmdar. Talsmenn Scotland Yard hafa staðfest að neyðarsveitir bregðist nú við „atvikum“ á þremur lestarstöðvum, þeim tveimur ofarnefndu og svo Shephard´s Bush. Stöðvarnar hafa allar verið rýmdar og munu lögregla og sjúkrabílar hafa verið sendir á staðinn. Sjónarvottur greinir frá því að sprenging hafi orðið í bakpoka hjá manni í einum neðanjarðarlestarvagninum en hún er sögð hafa orðið minniháttar. Maðurinn með bakpokann á að hafa blótað hraustlega í kjölfarið. Staðfest hefur verið að reykur barst úr einum lestarvagni en frekari staðfestingar hafa ekki fengist á því hvað er á seyði. Farþegar í lestunum munu hins vegar hafa troðist út, skelfingu lostnir, en aðeins er liðinn hálfur mánuður frá því að fimmtíu og þrír voru drepnir í samhæfðum hryðjuverkaárásum á þrjár neðanjarðarlestir og strætisvagn í London.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×