Erlent

Vísbendingar um hermikrákuárásir

Fjórar hryðjuverkaárásir eða tilraunir til árása voru gerðar í Lundúnum um hádegisbilið í dag og fyrir nokkrum mínútum girtu lögreglumenn University College sjúkrahúsið af. Vopnaðir lögreglumenn fóru inn í sjúkrahúsið en þar liggur töluverður fjöldi þeirra sem slösuðust í hryðjuverkaárásunum fyrir hálfum mánuði. Ekki er ljóst af hverju  vopnaðir lögreglumenn eru á sjúkrahúsinu. Lögreglustjórinn í Lundúnum segir óvíst hvort að sprengjurnar sprungu, en hafi þær gert það hafi þær verið mun minni en þær sem notaðar voru í árásunum fyrir hálfum mánuði. Getgátur eru um að árásirnar hafi í raun mistekist og óljósar fregnir barast af því að sprengjan í Warren Street hafi verið naglasprengja. Heimildarmenn Sky innan Scotland Yard segja ýmislegt benda til þess að hvellhettur hafi sprungið í eða við neðanjarðarlestar á þremur stöðvum í borginni: Shephard´s Bush, Oval-stöðina og Warren Street. Öðrum lestarstöðvum hefur verið lokað: Westminster, Waterloo, King´s Cross, St. Paul og Oxford Circus. AP greinir ennfremur frá því að menn í eiturefnagöllum séu við það að fara inn í Warren Street lestarstöðina, þaðan sem fregnir bárust af sprengingu fyrr í dag. BBC segir að engar vísbendingar um eiturefna- eða sýklavopn hafi fundist. Þar mun einnig einn hafa slasast, en hvorki er ljóst hver það er né hversu alvarleg meiðslin kunna að vera. Götum í nánd við Warren Street neðanjarðarlestarstöðina í London hefur verið lokað og lögregla segir fólki að yfirgefa svæðið. Sömu sögu er að segja í nánd við Oval-stöðina og þar hafa byggingar í grennd einnig verið rýmdar, og svo Shephard´s Bush. BBC segir reyk sjáanlegan við tvær stöðvanna. Auk þess varð sprenging í strætisvagni númer 26 í Hackney og segja talsmenn fyrirtækisins sem rekur vagninn að rúðurnar úr honum hafi þeyst út. Sjónarvottar segja þetta rangt, að vagninn virðist óskemmdur. Enginn slasaðist í honum og hefur lögregla girt hann af sem er túlkað sem svo að óttast sé að sprengja kunni enn að vera um borð. Fréttastofur og fréttastöðvar á Bretlandi hafa rætt við fjölda sjónarvotta en lögregla er dugleg við að biðja fólk um að slökkva á farsímum þar sem óttast er að rafbylgjur frá símunum geti sett aðrar sprengjur af stað. Ýmislegt bendir til þess að hermikrákur hafi verið á ferð, fólk sem vildi fylgja fordæmi hryðjuverkamannanna sem gerðu sjálfsmorðsárásir fyrir hálfum mánuði.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×