Erlent

Breska lögregla bæði harmar og ver

Breska lögreglan hefur upplýst að maðurinn sem var skotinn til bana í gær, hafi ekki tengst sprengjutilræðunum síðastliðinn fimmtudag. Ekki var hins vegar sagt hver maðurinn var, eða hvers vegna hann var undir eftirliti. Breska lögreglan ver eftir sem áður þá stefnu að það skuli skotið til að drepa, þegar fengist er við hugsanlegan sjálfsmorðssprengjumann. Breska lögreglan beitir örsjaldan skotvopnum, enda eru það aðeins sérsveitir hennar sem að jafnaði bera vopn. Lögreglumönnum er líka uppálagt að ef þeir neyðist til þess að grípa til vopna eigi þeir að reyna að gera andstæðinginn óvirkan með því að skjóta í líkama hans. Það hrukku því margir við þegar maður var skotinn til bana, af ásettu ráði, á Stockwell brautarstöðinni, í gær. Lögreglumenn skutu manninn að minnsta kosti fimm skotum, meðal annars í höfuðið, þar sem hann lá á brautarpallinum. Mannréttindasamtök múslima, í Bretlandi, hafa lýst áhyggjum sínum af þessari þróun og ýmsir andstæðingar stríðsins í Írak hafa fordæmt hana. Breska lögreglan ver hinsvegar gerðir sínar og yfirvöld standa með henni. Lögð er áhersla á að það sé ennþá regla að beita ekki skotvopnum nema í ítrustu neyð. Í tilfelli mannsins sem var skotinn í gær, er sagt að hann hafi komið út húsi sem var undir eftirliti vegna þess að þar voru hryðjuverkamenn taldir halda til. Þegar lögreglumennirnir reyndu að stöðva hann lagði hann á flótta og stökk yfir grindverk og girðingar. Maðurinn var bæði í þykkum vetrarjakka, í sumarhitanum, og með bakpoka. Þegar hann stökk inn á Stockwell brautarstöðina, þar sem mikill mannfjöldi var fyrir, töldu lögreglumennirnir svo mikla hættu á að hann væri með sprengju, að þeir skutu hann til bana. Opinber rannsókn mun að sjálfsögðu fara fram á þessum atburði. Ef kemur í ljós að maðurinn var alsaklaus, mun það líklega draga dilk á eftir sér.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×