Alþýðusambandið kannar starfsemi portúgalskrar starfsmannaleigu sem hefur hátt í eitt hundrað starfsmenn hér á landi. Þá er starfsemi íslensku starfsmannaleiganna Tveir plús einn og 2B til skoðunar.
Forsvarsmenn fyrirtækisins 2B hafa ekki fengið gefin út atvinnuleyfi fyrir 36 útlendinga sem þegar eru komnir til starfa hér á landi. Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, segir að verkalýðshreyfingin muni ekki leggjast gegn því að atvinnuleyfi verði gefin út handa þessum mönnum ef takist að útvega þeim störf hjá þeim fyrirtækjum sem þeir starfa þegar hjá.
Portúgölsk starfsmannaleiga, Epalmo Europe, hefur verið starfandi hér á landi í fimm ár og er starfsemi hennar til skoðunar hjá verkalýðshreyfingunni. Halldór segir að starfsmenn portúgölsku leigunnar séu 90 til 100 talsins og starfi í nokkrum fyrirtækjum. Kannað verði hvort launakjör þessara starfsmanna séu í samræmi við kjarasamninga og von sé á upplýsingum um það öðru hvoru megin við helgina.