Fastir pennar

Úr einu í annað



Stefán Pálsson bloggar um teiknimyndasögurnar um Asterix, segir að út sé að koma enn ein bókin, sú þrítugasta og þriðja í röðinni. Á árunum í kringum 1970 eignuðumst við systir mín þessi rit í frönskum frumútgáfum; fjölskylduvinur sem var við nám í klassískum fræðum í París kom færandi hendi með bækurnar jafnóðum og þær komu út í Frakklandi. Því miður er mikið af þessu glatað, rifið, tætt og horfið veg allrar veraldar.

En í æsku fletti ég þessum bókmenntum semsagt á frönsku (segi ekki las), komst hins vegar aldrei upp á lag með að lesa þær á íslensku. Kannski hefur það eitthvað með þýðingarnar að gera. Mér fannst hallærislegt að nota íslensk nöfn eins og Ástríkur, Steinríkur, Seiðríkur og Óðríkur. Kannski var þetta bara sniðugt hjá þýðandanum, en einhvern veginn hljómaði Asterix, Obelix, Panoramix og Assurancetourix miklu áhrifameira.

--- --- ---

Ég hef ekki séð Doddabók síðan ég var fimm ára. Svo var ég að horfa á barnatíma með Kára og þar var Doddi lifandi kominn. Svo birtist lögregluþjónn og ég mundi undireins að hann hét Lási. Svona situr þetta í manni. En svartálfarnir eru öðruvísi; í þá tíð voru þeir kolsvartir sem seinnameir enn eitt dæmi um landlægan rasisma í verkum Enid Blyton. Nú eru þeir hafðir undarlega fölir með bauga undir augum.

Annars er Doddi óttalegt drasl. Úrvalið af barnaefni er því miður ekki merkilegt. Einhverjar bestu bækur sem við Kári höfum lesið eru eftir sænska konu sem heitir Lindgren, ekki þó Astrid, heldur Babro. Hún skrifar smábarnabækur um gallagrip sem heitir Dúi í íslenskun Vilborgar Dagbjartsdóttur (sem þýddi eina bók), en Max á frummálinu. Dúi er sjálfselskur, frekur, óheppinn – og fyndinn. Þetta er heill bókaflokkur – hrein snilld.

Aðrar bækur eftir B. Lindgren fjalla um grísinn Benna. Engin þeirra hefur komið út á íslensku, en eru ekki síður fyndnar. Benni leggst svo lágt að hann stelur snuði af litla bróður sínum. Fyndnast þykir okkur Kára þó þegar hann flytur að heiman og vill fá að setjast að í pylsuvagni.

--- --- ---

Kunningi minn í London sendi mér smá þanka um raunveruleikaþætti. Spurði hvort í gegnum skrif mín um þetta efni skini ef til vill hugarfar miðaldra karlmanns? Það má rétt vera. Svo tók hann reyndar fram að hann væri sammála mér.

Hann sagði að í Bretlandi væru raunveruleikaþættirnir búnir að yfirtaka nánast alla dagskrárgerð. Margir væru búnir að fá yfir sig nóg, en framleiðendur létu sér ekki segjast; það er ódýrt að gera svona þætti – bara að fá nokkra vitleysinga til að gera sig að fíflum undir einhverju yfirskyni, launalaust. Síðan er þáttunum haldið uppi með stanslausri umfjöllun í slúðurblöðum.

Symbiosismi, kallaði kunningi minn þetta. Hvað nærist á öðru.

--- --- ---

Svo bætti hann við:

"Annars, var það ekki Andy Warhol sem dró upp þróun menningarinnar? Frá endurreisninni til iðnbyltingarinnar var menning samkvæmt smekk aðalsins. Eftir iðnbyltingu var hún eftir smekk millistéttarinnar, og í dag er hún eftir smekk almúgans. Þróun sem líklega verður ekki viðsnúið."

--- --- ---

Fyrir tíu árum sigraði ég í spurningakeppni í DV, fékk í verðlaun ferð til Akureyrar og sór eftir það dýran eið að fara aldrei aftur í spurningakeppni nema háar fjárhæðir væru í boði. Ég stóð við þetta lengi þrátt fyrir að ég fengi ýmis tilboð. Svo hringdi í mig Ólafur Bjarni Guðnason síðla síðasta vetur – maður sem mér er heldur hlýtt til – og plataði mig til að koma í spurningakeppni á Talstöðinni, útvarpsstöð sem nú mun vera að syngja sitt síðasta. Ég fór, lét eins og mér væri sama hvort ég sigraði eða tapaði, en var á endanum kominn í úrslit gegn Merði Árnasyni.

Það er skemmst frá því að segja að ég fékk herfilega útreið í úrslitaleiknum. Ég reyni að leita afsakana í því að ég hafi verið kvefaður, hausinn stíflaður, spurningarnar hafi verið mjög við hæfi íslenskufræðings, Mörður hafi svo ógurlegt keppnisskap, en æ – ég tapaði bara. En nú endurtek ég svardagann: ég ætla aldrei í spurningakeppni framar.

Mörður fjallar um spurningakeppnina frá sínum bæjardyrum séð á nýjum vef sínum – það er kominn tími til að þessi fyrrum harðskeytti blaðamaður skrifi á netið og feti þannig í fótspor vinar síns Össurar sem fer á kostum á vef sínum. Það er ekkert allltof mikið um skærar stjörnur í netheimum þessa dagana.

--- --- ---

Fyrir nokkru hætti ég mér út á jarðsprengjusvæði og skrifaði grein um menntamál. Fékk mikið af skömmum fyrir. Í gær las ég svo í Mogganum grein eftir hóp valinkunnra framhaldsskólakennara sem eru að andmæla styttingu framhaldsskólans – telja að í þessu felist fyrst og fremst skerðing á menntun þjóðarinnar. Greinarhöfundar, sem ég held að starfi allir við MR, horfa meðal annars niður í grunnskólann:

"Það á að flytja hluta námsefnis niður í grunnskóla með því aukna álagi sem því fylgir þar. Eru grunnskólakennarar ekki nú þegar sligaðir af ýmsum aukavekefnum sem hlaðið hefur verið á þá á undanförnum árum, mest í nafni fagurrar en óraunsærrar stefnu, sem kallast "skóli án aðgreiningar" og átti að vera öllum nemendum til hagsbóta, en hefur þróast í þá átt að enginn nemenda, heill eða fatlaður, nýtur þeirrar þjónustu, sem er lögboðin?"

Jú. Þetta var sirkabát það sem ég var að reyna að segja.






×