Flensupistill 2. nóvember 2005 20:27 Þegar ég var lítill strákur var ég heillaður af bókinni Árin sem aldrei gleymast eftir rithöfundinn Gunnar M. Magnúss; það var sérstaklega kaflinn sem fjallaði um árið 1918 sem mér fannst bæði hræðilegur og heillandi. Þarna var sagt frá ógurlegum frostavetri þegar lá hafís yfir Faxaflóa og hægt var að ganga milli Reykjavíkur og Akraness – og svo hinni hræðilegu drepsótt, spænsku veikinni, sem gaus upp um haustið. Þarna voru frásagnir af fólki sem lá bjargarlaust heima hjá sér, jafnvel dáið, meðan börnin léku sér á gólfinu. Vegum var lokað og bannað var að ferðast milli landshluta, en harðast kom veikin niður hér í Reykjavík. Í Miðbæjarskólanum, steinsnar frá því þar sem ég bý, var opnað sjúkraskýli. Víða þraut meðalategundir sem hefðu kannski getað komið að gagni. Þetta var "fullkomið hörmungarástand" eins og segir í bókinni. Engin önnur bók hafði svona mikil áhrif á mig, nema kannski rit sem ég las um örlög Reynistaðabræðra. Ennþá þegar ég geng um gamla kirkjugarðinn við Suðurgötuna skima ég á legsteinana til að athuga hvort fólkið sem þar liggur andaðist nokkuð í nóvember eða desember 1918, á tíma pestarinnar. --- --- --- Nú lifum við í stanslausum fréttaflutningi af fuglaflensu; það er vetur sem kemur snemma og er óvenju kaldur; manni er sagt að flensan geti komið fljótlega, eftir nokkur ár, kannski alls ekki. Þetta á að vera mesta heilsufarsógn sem steðjar að mannkyninu. Hvað á maður að gera þegar svona vofir yfir? Getur maður treyst því að yfirvöldin hugsi fyrir manni, að læknisþjónusta og annað bregðist ekki? Að ekki grípi um sig algjör glundroði? Eða þarf maður kannski að fara að hugsa um að verja sjálfan sig? Gera ráðstafanir til að loka sig inni, halda sig innandyra mánuðum saman með lokaða glugga? Hætta að mæta í vinnu? Senda ekki börn í skóla? Fara upp í sumarbústað – ef maður á þá einhvern sumarbústað – eða reyna að sleikja sig upp við sumarbústaðaeiganda, en annars ná sér í tjald og viðleguútbúnað – vera tilbúinn að liggja úti á fjöllum? Svo þarf maður kannski að fara að safna birgðum í tæka tíð. Kjöti og fiski í frystikistu (ef maður ætti nú svoleiðis), kornmeti, þurrkuðum ávöxtum, baunum, vítamínum. Tryggja sér nægar birgðir af skurðstofugrímum eins og Japanir nota ef maður skyldi þurfa að vera meðal annars fólks. --- --- --- Sjálfur ætlaði ég að vera við öllu búinn í síðustu viku og gerði ráðstafanir til að ná í lyfið Tamiflu sem sagt er að geti virkað gegn flensu. Það hefur ekki tekist ennþá – lyfið virðist vera á þrotum í apótekum. Í Danmörku hafa gengið kjaftasögur um að læknar hafi birgt sig upp af lyfinu, aðallega fyrir sig og sína – ekki veit ég hvað er hæft í því. En kunningi minn sem var í Kaupmannahöfn í síðustu viku segir að þar hafi allir verið að spyrja alla hvort þeir væru búnir að redda sér Tamiflu. --- --- ---- Svo má kannski kynna sér nokkrar bækur sem fjalla um svona ástand. Það eru ekki handbækur svosem, en geta reynst gagnlegar. Elst er Decamerone, Tídægra, eftir Boccaccio; hún fjallar um fólk sem leitar skjóls undan drepsótt og skemmtir sér við að segja hver öðru blautlegar sögur. Svo er klassískt verk eftir Camus sem nefnist einfaldlega Plágan; gerist í Alsír og fjallar um hvernig samfélag brotnar í sundur á pestartímum. Pétur Gunnarsson skrifar um fólk sem vafrar um Ísland á tíma Svarta dauða í bók sinni Vélar tímans. Þá lifir bara eftir helmingurinn af þjóðinni. --- --- --- Eða verður maður eins og bjáni ef maður fer að setja upp skurðstofugrímuna? Í fyrra hafði ég áhyggjur af Habl. Nefndi þetta við lækni sem ég hitti – hann hló að mér. Það var nánast liðið yfir mig í metró í París 1983 þegar ég sá forsíður nokkurra blaða og skildist að við myndum öll deyja úr Aids, að minnsta kosti allir sem væru kynferðislega aktífir. Fjölmiðlarnir ganga mikið út á að hræða; stórir fjölmiðlar eru með heilu deildirnar sem sérhæfa sig í heilsufarsógnum. Það er beinlínis gert ráð fyrir að slíkt efni sé ákveðið prósentuhlutfall í fjölmiðlunum. Stjórnmálamönnum þykir heldur ekki verra að hræða smá – fyrir vikið virka þeir mikilvægari. Sjáið bara George W. Bush sem mitt í öllum sínum vandræðum boðar átak gegn flensu. Einhvern veginn grunar mann að þar hafi hann ekki síður leitað ráða hjá spunalæknum en þeim sem hafa alvöru læknispróf. --- --- --- Við höfum auðvitað lifað mikla forréttindatíma á Vesturlöndum. Dauðinn er orðinn svo fjarlægur okkur; við höfum náð að loka hann inni á stofnunum innan um fólk á hvítum sloppum. En ef hann fer að stinga sér niður meðal okkar í líki banvænnar farsóttar, þá er víst að öll viðmið breytast mjög snögglega. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Pistlar Silfur Egils Skoðanir Mest lesið Hvað gerðist þegar konan talaði? Jóna Hrönn Bolladóttir,Bjarni Karlsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Fjölbreytileiki í íslensku skólakerfi: Erum við á réttri leið? Inga Sigrún Atladóttir Skoðun Heimatilbúið „tjón“ Landsvirkjunar Vala Árnadóttir Skoðun Geðheilsuskatturinn Halla Gunnarsdóttir Skoðun Sparnaður án aðgreiningar Davíð Már Sigurðsson Skoðun Holur í malbiki og tannlækningar Sigþór Sigurðsson Skoðun Öðruvísi, fordæmd, útskúfuð en einnig ósigrandi Arna Magnea Danks Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Sorg barna - leit að merkingu Matthildur Bjarnadóttir Skoðun
Þegar ég var lítill strákur var ég heillaður af bókinni Árin sem aldrei gleymast eftir rithöfundinn Gunnar M. Magnúss; það var sérstaklega kaflinn sem fjallaði um árið 1918 sem mér fannst bæði hræðilegur og heillandi. Þarna var sagt frá ógurlegum frostavetri þegar lá hafís yfir Faxaflóa og hægt var að ganga milli Reykjavíkur og Akraness – og svo hinni hræðilegu drepsótt, spænsku veikinni, sem gaus upp um haustið. Þarna voru frásagnir af fólki sem lá bjargarlaust heima hjá sér, jafnvel dáið, meðan börnin léku sér á gólfinu. Vegum var lokað og bannað var að ferðast milli landshluta, en harðast kom veikin niður hér í Reykjavík. Í Miðbæjarskólanum, steinsnar frá því þar sem ég bý, var opnað sjúkraskýli. Víða þraut meðalategundir sem hefðu kannski getað komið að gagni. Þetta var "fullkomið hörmungarástand" eins og segir í bókinni. Engin önnur bók hafði svona mikil áhrif á mig, nema kannski rit sem ég las um örlög Reynistaðabræðra. Ennþá þegar ég geng um gamla kirkjugarðinn við Suðurgötuna skima ég á legsteinana til að athuga hvort fólkið sem þar liggur andaðist nokkuð í nóvember eða desember 1918, á tíma pestarinnar. --- --- --- Nú lifum við í stanslausum fréttaflutningi af fuglaflensu; það er vetur sem kemur snemma og er óvenju kaldur; manni er sagt að flensan geti komið fljótlega, eftir nokkur ár, kannski alls ekki. Þetta á að vera mesta heilsufarsógn sem steðjar að mannkyninu. Hvað á maður að gera þegar svona vofir yfir? Getur maður treyst því að yfirvöldin hugsi fyrir manni, að læknisþjónusta og annað bregðist ekki? Að ekki grípi um sig algjör glundroði? Eða þarf maður kannski að fara að hugsa um að verja sjálfan sig? Gera ráðstafanir til að loka sig inni, halda sig innandyra mánuðum saman með lokaða glugga? Hætta að mæta í vinnu? Senda ekki börn í skóla? Fara upp í sumarbústað – ef maður á þá einhvern sumarbústað – eða reyna að sleikja sig upp við sumarbústaðaeiganda, en annars ná sér í tjald og viðleguútbúnað – vera tilbúinn að liggja úti á fjöllum? Svo þarf maður kannski að fara að safna birgðum í tæka tíð. Kjöti og fiski í frystikistu (ef maður ætti nú svoleiðis), kornmeti, þurrkuðum ávöxtum, baunum, vítamínum. Tryggja sér nægar birgðir af skurðstofugrímum eins og Japanir nota ef maður skyldi þurfa að vera meðal annars fólks. --- --- --- Sjálfur ætlaði ég að vera við öllu búinn í síðustu viku og gerði ráðstafanir til að ná í lyfið Tamiflu sem sagt er að geti virkað gegn flensu. Það hefur ekki tekist ennþá – lyfið virðist vera á þrotum í apótekum. Í Danmörku hafa gengið kjaftasögur um að læknar hafi birgt sig upp af lyfinu, aðallega fyrir sig og sína – ekki veit ég hvað er hæft í því. En kunningi minn sem var í Kaupmannahöfn í síðustu viku segir að þar hafi allir verið að spyrja alla hvort þeir væru búnir að redda sér Tamiflu. --- --- ---- Svo má kannski kynna sér nokkrar bækur sem fjalla um svona ástand. Það eru ekki handbækur svosem, en geta reynst gagnlegar. Elst er Decamerone, Tídægra, eftir Boccaccio; hún fjallar um fólk sem leitar skjóls undan drepsótt og skemmtir sér við að segja hver öðru blautlegar sögur. Svo er klassískt verk eftir Camus sem nefnist einfaldlega Plágan; gerist í Alsír og fjallar um hvernig samfélag brotnar í sundur á pestartímum. Pétur Gunnarsson skrifar um fólk sem vafrar um Ísland á tíma Svarta dauða í bók sinni Vélar tímans. Þá lifir bara eftir helmingurinn af þjóðinni. --- --- --- Eða verður maður eins og bjáni ef maður fer að setja upp skurðstofugrímuna? Í fyrra hafði ég áhyggjur af Habl. Nefndi þetta við lækni sem ég hitti – hann hló að mér. Það var nánast liðið yfir mig í metró í París 1983 þegar ég sá forsíður nokkurra blaða og skildist að við myndum öll deyja úr Aids, að minnsta kosti allir sem væru kynferðislega aktífir. Fjölmiðlarnir ganga mikið út á að hræða; stórir fjölmiðlar eru með heilu deildirnar sem sérhæfa sig í heilsufarsógnum. Það er beinlínis gert ráð fyrir að slíkt efni sé ákveðið prósentuhlutfall í fjölmiðlunum. Stjórnmálamönnum þykir heldur ekki verra að hræða smá – fyrir vikið virka þeir mikilvægari. Sjáið bara George W. Bush sem mitt í öllum sínum vandræðum boðar átak gegn flensu. Einhvern veginn grunar mann að þar hafi hann ekki síður leitað ráða hjá spunalæknum en þeim sem hafa alvöru læknispróf. --- --- --- Við höfum auðvitað lifað mikla forréttindatíma á Vesturlöndum. Dauðinn er orðinn svo fjarlægur okkur; við höfum náð að loka hann inni á stofnunum innan um fólk á hvítum sloppum. En ef hann fer að stinga sér niður meðal okkar í líki banvænnar farsóttar, þá er víst að öll viðmið breytast mjög snögglega.