Fastir pennar

Er ekkert að gera á Alþingi?

Hefur Alþingi ekkert að gera á hinu nýja Íslandi? Þingmenn komu saman 1. október, það verður farið í jólafrí 10. desember, þingið tekur svo til starfa aftur í febrúarbyrjun – stendur sjálfsagt stutt vegna bæjar- og sveitarstjórnakosninganna í vor. Það er ósennilegt að komi fram stór og umdeild mál á vorþinginu; menn vilja tæplega rugga bátnum mikið á kosningaári. Stjórnarflokkarnir taka varla neina sénsa.

Líklega er Halldór Ásgrímsson feginn. Hann er nánast í skjóli eftir stórrhíð undanfarinna missera. Í Framsóknarflokknum sjá þeir fram á betri tíma – ef friðurinn heldur.

--- --- ---

Einkavæðing bankanna leysti úr læðingi ógnarkrafta í íslensku samfélagi; við sjáum banka og fyrirtæki margfaldast að verðgildi. Það á sér stað ótrúleg auðsöfnun - að minnsta kosti hjá sumum. Á sama tíma virðast stjórnmálamennirnir vera hálfpartinn utanveltu, eins og úr takti. Það er kannski ekki furða að þeir reyni að halda fast í sinn Íbúðalánasjóð og sína Byggðastofnun.

Milljón króna spurningin er svo hversu lengi þetta ástand varir – og hvernig það endar?

--- --- ---

Annars er voðaleg gúrkutíð á Íslandi – dálítið fyndið í ljósi þess að líklega hefur aldrei verið ástundaður jafn mikill fréttaflutningur í þessu litla landi. Síðdegis í gær voru helstu fréttir dagsins á Mbl.is eftirfarandi:

Keyrt á ljósastaur í Kópavogi

Féll úr stiga og slasaðist

Slökkvilið Akureyrar 100 ára

Vill byggja líkamsræktarstöð og sundlaug á Ísafirði

Norrænir vinstri grænir mynda bandalag

--- --- --- ---

Ég er að lesa 1350 blaðsíðna bók, The Great War For Civilization;The Conquest of the Middle East, eftir breska stríðsblaðamanninn Robert Fisk. Fisk er öllum mönnum fróðari um Miðausturlönd. Hefur þrisvar tekið viðtöl við Osama bin Lanen, átti fund með bæði Khomeini og Saddam Hussein á sínum tíma, var í Afganistan þegar Rússarnir réðust þangað inn, fylgdist með írönsku byltingunni og hitti til dæmis Khalkhali, helsta böðul hennar, lenti í gasárás í "gleymda" stríðinu milli Íraks og Írans, flutti fréttir af morðæðinu sem geisaði í Alsír á tíma síðasta borgarastríðs – að ógleymdum tvennum Persaflóastríðum þar sem Bandaríkin stormuðu inn í Írak.

Fisk kom til Hama í Sýrlandi eftir að sveitir Assads forseta frömdu þar hræðileg fjöldamorð og var einn fyrsti fréttamaðurinn sem kom í flóttamannabúðirnar Sabra og Chatila í Beirút í september 1982 eftir að líbanskir falangistar, studdir af Ísraelsher, höfðu myrt nærri tvö þúsund Palestínumenn.

Þetta er ógurlegur doðrantur, en það er erfitt að slíta sig frá honum – ég kem mér varla til að lesa allar íslensku bækurnar sem eru að koma út. Fisk hefur mjög sterkar skoðanir en manni finnst hann alltaf vera ærlegur. Ferlill hans er náttúrlega ótrúlegur - skúbbin óteljandi. Oft virðist hann hafa lagt sig í lífshættu; hann hefur skömm á fréttamönnum sem nú eru kallaðir embedded – ferðast með stríðsaðilum, jafnvel í herbúningum sjálfir, og láta þá skammta sér fréttir.

Meira um þessa bók síðar. Það er hægt að lesa ýmislegt um og eftir Fisk á þessum vef hérna.

--- --- ---

Kári veitti mér sínar fyrstu ráðleggingar um þáttastjórnun í gær. Hann vildi fá jólasvein í þáttinn.

"Hafðu bara jólasvein og enga fleiri," sagði barnið.






×