Fastir pennar

Hvers vegna allt þetta drasl?

Virðulegur guðfræðiprófessor skrifaði grein í Morgunblaðið um daginn, minnti á að aðventa héti í rauninni jólafasta, þetta væri tími föstu og íhugunar - já, einhvers konar sultar, það er gömul kirkjuleg hugmynd að hungrið skerpi hugann.

Líklega munu sárafáir taka mark á þessum góða prófessor, kannski las enginn greinina heldur. Hann hljómar eins og fýlupoki - gleðispillir. Svona rétt eins og páfinn sem sagði um daginn að andi jólanna væri í hættu vegna gegndarlausrar efnishyggju.

--- --- ---

Það er talað um kaupjólin miklu, að nú verði ábyggilega sett met í innkaupum og neyslu. Alls staðar er hópað: Kaupið! Kaupið! Kaupið! Miðað við auglýsingaflóðið og jólalögin sem eru að gera mann geðveikan rætist það ábyggilega. Páfinn sagði líka að jólin liðu fyrir auglýsingaeitrun.

Samt vantar eiginlega engan neitt - eða það ímynda ég mér allavega. Maður er ekki svangur þegar maður sest að jólamatnum. Börnin fá sælgæti allt árið í kring, varla er tilhlökkunarefni að meira. Þau eiga svo mikið af drasli að þau eru eiginlega orðin ónæm fyrir að neitt af því geti verið skemmtilegt.

Fólk veit varla hvað það á að gefa hvert öðru. Það er í stórkostlegum vandræðum með að finna jólagjafir. Í ár er talað um að jólagjöfin sé flatskjáir, í fyrra var það ipod, í hittifyrra stafrænar myndavélar – einu sinni voru það fótanuddtæki sem urðu tákn fánýts kaupæðis.

Til hvers er allt þetta drasl?

--- --- ---

Auðvitað er þetta allt partur af hagkerfnu sem við lifum í. Ef við eyðum og spennum um jólin skapast hagvöxtur og efnahagslífið verður heilbrigðara - eða hvað? Stjórnmál núorðið snúast mestanpart um hagvöxt fremur en til dæmis hamingju. Það er sagt að með óráðsíu sinni hafi neytendur á Vesturlöndum hafi haldið uppi hagkerfinu síðustu árin. Græðgin er semsagt góð þegar allt kemur til alls.

Í löndum eins og Þýskalandi, þar sem neyslan er minni, er talað um efnahagskreppu. Það er alltaf verið að skamma Þjóðverja fyrir að vera svona nískuna. Þeir þurfa að eyða meira, annars réttir hagkerfið ekki úr kútnum.

--- --- ---

Í grundvallaratriðum er auðvitað eitthvað rangt við þetta. Siðferðislega vitlaust. Ofgnóttin hjá okkur er svo mikil að hún er orðin leiðinleg. Fullnægingin sem nýjasta leiktækið veitir okkur endist æ skemur. Margt bendir líka til þess að neyslubrjálæðið sé að gera okkur veik. Við bryðjum geðlyf til að ráða bót á þunglyndinu sem kannski er í mörgum tilfellum ekki annað en óhamingja.

Einu sinni dreymdi menn um heim þar sem fólk væri laust frá brauðstriti og ranghugmyndum um guð, að þá hefði það nægan tíma til að auðga anda sinn. En þessu virðist vera þveröfugt farið – þegar maðurinn hefur hvorki stritið né guð, er hætt við að hann týni sér í persónulegri óhamingju og lágkúrulegri afþreyingu.

Á tíma velmegunar og ómælds frítíma verður menningin sífellt innantómari. Meðalmaður eyðir til dæmis þremur klukkutímum á dag fyrir framan sjónvarp.

--- --- ---

Á sama tíma og við erum við að drepa okkur á velmegun, eigum í mestu vandræðum með að gefa jólagjafir vegna þess að við eigum allt og þörfnumst eiginlega einskis – verðum eftir stuttan tíma í brösum með að losna við draslið sem við fáum á jólunum – er fólk út um allan heim sem á ekki neitt, hefur ekki til hnífs og skeiðar, kannski ekki einu sinni almennilegt vatna að drekka - engar tryggingar nema börnin sem það fæðir í heiminn.

Þetta er raunverulegt allsleysi, ekki hin afstæða fátækt sem er hér á Íslandi og felst í því að geta ekki tekið þátt í neyslukapphlaupinu.

Það er hin skelfilega mótsögn rányrkjunnar að við getum ekki veitt þessu fólki þau kjör sem við höfum - til þess þyrfti eins og fimm plánetur. Því ef við eigum að bjóða öðrum með í vestræna bílífið, þá verðum við fljótlega búin að klára þessa jörð.

--- --- ---

Þið skulið þó ekki halda að ég ætli að fara að borða á Hjálpræðishernum og gefa kerti og spil í jólagjöf. Nei, ég er hluti af þessu samfélagi, læt auglýsingarnar hræra í mér, bíð eftir nýjum kortamánuði, eyði og spenni, en ég veit samt að það er eitthvað bogið við þetta allt.

Jólin eru yndislegur tími og allt það, en hver er gleðin við að gefa og þiggja þegar allir eiga of mikið af öllu?

Þetta var flutt sem pistill á Stöð 2/NFS fyrr í vikunni.






×