Kveða þarf upp úr um Þjórsárver 18. janúar 2006 00:01 Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra treysti sér ekki til að taka af skarið með eða á móti Norðlingaölduveitu á blaðamannafundinum sem hann hélt á mánudaginn. Hann sagði hins vegar að engar framkvæmdir væru að fara þar í gang og enginn kaupandi hefði gefið sig fram og óskað eftir rafmagni frá veitunni. Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, les út úr ummælum forsætisráðherra og fleiri áhrifamanna í flokknum að kúvending hafi orðið á afstöðu flokksins til Norðlingaölduveitu. Kristinn er að vanda hreinskilinn og segir berum orðum að þessi stefnubreyting stafi af fylgiskreppu flokksins í Reykjavík. Það er ekki vænlegt til árangurs að berjast fyrir máli sem kjósendur eru á móti, segir hann. Meiri reisn hefði verið yfir því ef forsætisráðherra hefði kveðið upp úr um Norðlingaölduveitu á blaðamannafundinum heldur en að halda öllu opnu. Það er einmitt hálfkákið og moðið sem veldur því að ráðherrann hefur ekki öðlast þá leiðtogastöðu í augum þjóðarinnar sem fyrirrennari hans hafði. Segja má að með þessu hafi hann gefið boltann til samstarfsmanna sinna í ríkisstjórn. Verða þeir nógu snöggir að ná honum? Og vilja þeir það? Spurningin um Norðlingaölduveitu er í augum almennings fyrst og fremst spurningin um Þjórsárver, einhverja mestu náttúruperlu Íslands. Þó að Kárahnjúkavirkjun hafi á sínum tíma verið samþykkt á Alþingi með miklum mun hefur hún valdið djúpstæðum klofningi meðal þjóðarinnar. Smám saman er það líka að gerast að erlendar þjóðir eru farnar að skipta sér af náttúruvernd og virkjunum á Íslandi. Í huga margra útlendinga, ekki síst þeirra sem þekkja og dást að náttúru Íslands, eru það ekki einkamál Íslendinga hvernig gengið er um landið heldur varðar það heiminn allan. Á sínum tíma var það metnaðarmál þjóðarinnar að sýna umheiminum að auðlindirnar í hafinu væru betur komnar í okkar höndum en útlendinga. Með sama hætti er það orðið nauðsynlegt og skynsamlegt að sýna öðrum þjóðum að við gerum okkur grein fyrir ábyrgð okkar á íslenskri náttúru gagnvart komandi kynslóðum. Í nýútkomnum Skírni, tímariti Hins íslenska bókmenntafélags, er að finna forvitnilega samantekt um afstöðu manna til Gullfoss á fyrri hluta 20. aldar. Þegar á 19. öld var fossinn talinn eitt helsta náttúruundur landsins og auglýstur utanlands sem ferðamannastaður. En jafnframt voru að koma fram hugmyndir um að beisla kraftinn úr fossinum í þágu iðnaðar og samgangna. Rifjað er upp að árið 1908 tók ríkisstjórnin Gullfoss á leigu og framleigði hann síðan erlendum athafnamönnum sem áhuga höfðu á að virkja fossinn. Þetta var ekki rætt á Alþingi og telur höfundur Skírnisgreinarinnar, Unnur Birna Lárusdóttir sagnfræðingur, að stjórnvöld hafi með því sýnt mikla skammsýni. Aðeins einn alþingismaður, Sveinn Björnsson, síðar forseti Íslands, deildi á að svo mikilvægum réttindum sem yfirráðum yfir Gullfossi hefði verið fargað. Til allrar hamingju gengu áform um virkjun Gullfoss úr skaftinu og fossinn er enn í tign sinni og fegurð eitt helsta undur og aðdráttarafl íslenskrar náttúru. Meðan þing og stjórn hafa ekki tekið af skarið um Norðlingaölduveitu er ástæða til að áhyggjur og vera á varðbergi gagnvart Þjórsárverum á sama hátt og menn höfðu réttmætar áhyggjur af Gullfossi forðum. Það var tilviljun sem bjargaði fossinum en framtíð Þjórsárvera á ekki og má ekki ráðast af þeirri hendingu hvort eftirspurn sé eftir rafmagni frá Norðlingaölduveitu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Magnússon Skoðanir Mest lesið Örvæntingarfullur maður sker út grasker Þórður Snær Júlíusson Skoðun Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Sjálfstæðisflokkur hækkar kostnað heimilanna Kristrún Frostadóttir Skoðun Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Gerum þetta að kosningamáli Ágúst Ólafur Ágústsson Skoðun Ölmusuhagkerfið Unnur Rán Reynisdóttir Skoðun Eru vaxtarmörkin vandinn? Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Stóri grænþvotturinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Fyrirmyndarstjórn Viðreisnar og Samfylkingar á Reykjavíkurborg? Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Búum til „vandamál“ – leysum það með samræmdum prófum Árelía Eydís Guðmundsdóttir Skoðun
Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra treysti sér ekki til að taka af skarið með eða á móti Norðlingaölduveitu á blaðamannafundinum sem hann hélt á mánudaginn. Hann sagði hins vegar að engar framkvæmdir væru að fara þar í gang og enginn kaupandi hefði gefið sig fram og óskað eftir rafmagni frá veitunni. Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, les út úr ummælum forsætisráðherra og fleiri áhrifamanna í flokknum að kúvending hafi orðið á afstöðu flokksins til Norðlingaölduveitu. Kristinn er að vanda hreinskilinn og segir berum orðum að þessi stefnubreyting stafi af fylgiskreppu flokksins í Reykjavík. Það er ekki vænlegt til árangurs að berjast fyrir máli sem kjósendur eru á móti, segir hann. Meiri reisn hefði verið yfir því ef forsætisráðherra hefði kveðið upp úr um Norðlingaölduveitu á blaðamannafundinum heldur en að halda öllu opnu. Það er einmitt hálfkákið og moðið sem veldur því að ráðherrann hefur ekki öðlast þá leiðtogastöðu í augum þjóðarinnar sem fyrirrennari hans hafði. Segja má að með þessu hafi hann gefið boltann til samstarfsmanna sinna í ríkisstjórn. Verða þeir nógu snöggir að ná honum? Og vilja þeir það? Spurningin um Norðlingaölduveitu er í augum almennings fyrst og fremst spurningin um Þjórsárver, einhverja mestu náttúruperlu Íslands. Þó að Kárahnjúkavirkjun hafi á sínum tíma verið samþykkt á Alþingi með miklum mun hefur hún valdið djúpstæðum klofningi meðal þjóðarinnar. Smám saman er það líka að gerast að erlendar þjóðir eru farnar að skipta sér af náttúruvernd og virkjunum á Íslandi. Í huga margra útlendinga, ekki síst þeirra sem þekkja og dást að náttúru Íslands, eru það ekki einkamál Íslendinga hvernig gengið er um landið heldur varðar það heiminn allan. Á sínum tíma var það metnaðarmál þjóðarinnar að sýna umheiminum að auðlindirnar í hafinu væru betur komnar í okkar höndum en útlendinga. Með sama hætti er það orðið nauðsynlegt og skynsamlegt að sýna öðrum þjóðum að við gerum okkur grein fyrir ábyrgð okkar á íslenskri náttúru gagnvart komandi kynslóðum. Í nýútkomnum Skírni, tímariti Hins íslenska bókmenntafélags, er að finna forvitnilega samantekt um afstöðu manna til Gullfoss á fyrri hluta 20. aldar. Þegar á 19. öld var fossinn talinn eitt helsta náttúruundur landsins og auglýstur utanlands sem ferðamannastaður. En jafnframt voru að koma fram hugmyndir um að beisla kraftinn úr fossinum í þágu iðnaðar og samgangna. Rifjað er upp að árið 1908 tók ríkisstjórnin Gullfoss á leigu og framleigði hann síðan erlendum athafnamönnum sem áhuga höfðu á að virkja fossinn. Þetta var ekki rætt á Alþingi og telur höfundur Skírnisgreinarinnar, Unnur Birna Lárusdóttir sagnfræðingur, að stjórnvöld hafi með því sýnt mikla skammsýni. Aðeins einn alþingismaður, Sveinn Björnsson, síðar forseti Íslands, deildi á að svo mikilvægum réttindum sem yfirráðum yfir Gullfossi hefði verið fargað. Til allrar hamingju gengu áform um virkjun Gullfoss úr skaftinu og fossinn er enn í tign sinni og fegurð eitt helsta undur og aðdráttarafl íslenskrar náttúru. Meðan þing og stjórn hafa ekki tekið af skarið um Norðlingaölduveitu er ástæða til að áhyggjur og vera á varðbergi gagnvart Þjórsárverum á sama hátt og menn höfðu réttmætar áhyggjur af Gullfossi forðum. Það var tilviljun sem bjargaði fossinum en framtíð Þjórsárvera á ekki og má ekki ráðast af þeirri hendingu hvort eftirspurn sé eftir rafmagni frá Norðlingaölduveitu.