Fastir pennar

Örlög tungunnar í okkar höndum

Þegar danski málfræðingurinn Rasmus Kristján Rask, sem lært hafði íslensku af sjálfum sér, kom til Reykjavíkur í byrjun 19. aldar blöskraði honum svo dönskuskotið málfar bæjarbúa að hann efaðist um að nokkur maður í bænum mundi skilja íslenska tungu eftir hundrað ár og varla nokkur í landinu að öðrum 200 þar upp frá ef allt fer eins og hingað til og ekki verða rammar skorður við reistar, eins og hann komst að orði í frægu bréfi til Bjarna Thorsteinssonar amtmanns.

Íslenska verður hvergi töluð eftir 100 ár, ef fram fer sem horfir var haft eftir Páli Valssyni, útgáfustjóra hjá Eddu, á ráðstefnu um íslenskt mál í Norræna húsinu á sunnudaginn. Ráðstefnan og þær áhyggjur sem þar komu fram um íslenska tungu hefur orðið tilefni mikilla umræðna manna á meðal og í fjölmiðlum. Menn spyrja: Getur verið að íslensk tunga sé dauðadæmd?

Áhyggjur danska málfræðingsins á sínum tíma byggðust ekki á neinum rannsóknum. Þær voru sprottnar af tilfinningu sem hann fékk eftir dvöl í höfuðstaðnum. Viðhorf hans breyttust þegar hann ferðaðist um landið og fann að hin gamla norræna tunga lifði góðu lífi í sveitunum. Engu að síður taldi hann nauðsynlegt að gera átak til eflingar tungunnar og beitti sér í því skyni fyrir stofnun Hins íslenska bókmenntafélags árið 1816 með það að markmiði að viðhalda hinni íslensku tungu og bókaskrift og þar með menntun og heiðri þjóðarinnar. Það varð upphaf mikillar hreyfingar til eflingar íslenskrar tungu.

Áhyggjur manna nú og spásagnir virðast einnig fremur sprottnar af tilfinningu fyrir ástandi og þróun fremur en nýjum rannsóknum. Þar með er ekki sagt að þær séu lítils virði fremur en uggur Rasks fyrir tvöhundruð árum. Öðru nær. En það er mikilvægt að við umræður af þessu tagi haldi menn sig við aðalatriðin en láti aukaatriðin ekki villa sér sýn eins og mörgum hættir til. Tungumál eru lífræn og alls ekki unnt að sporna við breytingum á þeim í tímans rás. Frá dögum Rasmusar Rask hefur til dæmis orðið gerbreyting á orðaforða íslenskunnar. Mál gamla bændasamfélagsins dugaði ekki landsmönnum í tækniheimi tuttugustu aldar. Afrekið sem þá var unnið fólst í því að skapa nýjan orðaforða á grundvelli hins gamla og viðhalda samfellu málsins. Ýmislegt varð líka að láta undan síga og það var óhjákvæmilegt.

Aðalatriðið hlýtur að vera að viðhalda lifandi tengslum á milli þess máls sem forfeður okkar töluðu og skrifuðu og nútímamálsins. Ef þau tengsl rofna er hætt við að íslensk tunga verði að skammlífu hrognamáli. Það er rétt sem Matthías Johannessen ritstjóri sagði á ráðstefnunni í Norræna húsinu að án sjálfstæðrar tungu og rithefðarinnar sem dafnaði í skjóli hennar hefði Íslendingum hvorki tekist að vinna sér fullveldi né sjálfstæði. Og bæta má við að útrásin margumtalaða í viðskiptalífinu væri ekki til sem hugtak nema vegna þeirrar menningar, sögu og tungu sem fóstrar hana.

Við íslenskri tungu blasa fleiri og flóknari hættur en nokkru sinni fyrr. Þær hættur eiga sér rætur í tækniþróun og hnattvæðingu. Enginn veit hvernig þjóðinni mun vegna í þeirri viðureign á næstu árum og áratugum. Þess vegna er ekkert hægt að fullyrða um það hvort íslenska verður töluð eða ekki eftir eina öld. Ekki er útilokað að hinir svartsýnu hafi rétt fyrir sér. Svarið við spurningunni veltur fyrst og fremst á afstöðu landsmanna sjálfra og hvernig þeir sýna vilja sinn í verki. Tungan lifir ekki nema á vörum þjóðarinnar. Og hitt er jafnsatt að þjóðin lifir ekki án tungunnar.






×