Fastir pennar

Auðvelda á þolendum að kæra

Sláandi er að sjá að kynferðisbrotamálum sem koma inn á borð Stígamóta og eru kærð til lögreglu fer fækkandi. Á síðasta ári bárust 249 mál til samtakanna en aðeins þrettán, eða 4,3 prósent, komust til opinberra aðila. Þetta hlutfall hefur ekki verið lægra í sextán ára sögu Stígamóta.

Í ársskýrslu Stígamóta, sem kynnt var í liðinni viku, eru hugsanlegar ástæður þessa reifaðar. Fyrst er nefnd sú kunna staðreynd að oft eru mál fyrnd þegar fórnarlömb kynferðisofbeldis leita til Stígamóta og því borin von að aðhafast nokkuð til að koma lögum yfir brotamanninn.

Í núgildandi lögum er kveðið á um að kynferðisbrot gegn börnum byrji að fyrnast þegar þolandinnn er orðinn fjórtán ára og fyrnast þau á fimm, tíu eða fimmtán árum, eftir alvarleika brota.

Í frumvarpi sem dómsmálaráðherra hefur kynnt í ríkisstjórn er kveðið á um breytingar á þessum kafla laganna og lagt til að fyrning hefjist þegar þolandinn er orðinn átján ára.

Í frumvarpi nokkurra þingmanna Samfylkingarinnar, með Ágúst Ólaf Ágústsson varaformann í broddi fylkingar, er lagt til að fyrningarfrestir í kynferðisbrotamálum gegn börnum verði alfarið numdir úr lögum.

Að baki þeirri skoðun liggur sú röksemd helst að óviðunandi sé að menn komist upp með að fremja kynferðisbrot gegn börnum bara af því að kæra var ekki lögð fram í tæka tíð. Orðrétt segir í greinargerð frumvarpsins: Aðstöðumunur geranda og þolanda er eðli máls samkvæmt gríðarlegur.

Brotaþoli er ekki í aðstöðu til að skynja að um lögbrot sé að ræða né þekkir hann leiðir til að losna undan oki gerandans. Þolandinn áttar sig ef til vill ekki fyrr en mörgum árum síðar á að brotið hafi verið gegn honum eða bælir minninguna um ofbeldið í langan tíma og telur sig jafnvel sjálfan bera sök.

Helstu rökin sem lögfræðin nefnir fyrir almennri fyrningu afbrota eru þau að sönnun afbrots verður erfiðari eftir því sem tíminn líður og einnig veitir fyrning refsivörslukerfinu aðhald. Þá er nefnt að það dragi úr refsiþörf eftir því sem tíminn líður.

Mót þessum rökum kemur að morð fyrnast ekki og spyrja má hvers vegna ofangreind sjónarmið eiga við um jafn alvarlega glæpi og kynferðisbrot gegn börnum ef þau þykja ekki eiga við um morð. Er sönnun kynferðisbrots erfiðari en sönnun morðs þó langur tími sé liðinn frá glæpnum? Þarf refsivörslukerfið aðhald í kynferðisbrotamálum gegn börnum en ekki í morðmálum? Dregur úr refsiþörf barnaníðings en ekki morðingja?

Í áðurnefndri skýrslu Stígamóta eru fleiri ástæður en fyrning brota raktar fyrir því að ekki eru fleiri mál kærð til lögreglu en raun ber vitni. Algengt er að fólk treysti sér ekki í gegnum yfirheyrslur og hljóta lögmenn og lögregla að staldra við þá skýringu. Þá er algengt að fólk hafi ekki trú á að það nái fram rétti sínum fyrir dómstólum. Dómarar hljóta að taka þá staðreynd til sín.

Loks er nefnt að fólk sem beitt er kynferðislegu ofbeldi er svo þjakað af skömm, sektarkennd og lélegri sjálfsmynd að það treystir sér ekki til að kæra. Lífseig er sú skoðun að þolendur beri ábyrgð á glæpnum. Þeirri bábilju þarf að útrýma.

Ljóst er að margt er hægt að gera til að auðvelda þolendum kynferðisafbrota að leita með mál sín til lögreglu og hlýtur það að vera eitt af forgangsverkefnum samfélagsins alls.






×