Skilaboð í heimatún og á útengi 26. mars 2006 00:01 Sá mikli óróleiki sem verið hefur á íslenskum fjármálamarkaði upp á síðkastið vekur eðlilega upp ýmsar áleitnar spurningar. Ein er sú hvernig rétt er að mæta slíkri umræðu og hverjir hafa þar mestar skyldur og bera mesta ábyrgð. Inn á við geta talsmenn ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu vitaskuld tekist á um almenn atriði efnahagsstefnunnar. En í sjálfu sér er það ekki aðalatriði. Hitt skiptir meira máli að koma myndugum og trúverðugum skilaboðum út á markaðinn; það á bæði við heimatúnið og þau útengi hans sem mestu skipta erlendis. Þýðingarmikið er að greina hismið frá kjarnanum í allri þessari umræðu. Sumt af því sem erlendir bankar og matsfyrirtæki hafa sagt um íslensku bankana og íslenska hagkerfið hefur verið rangt, annað villandi og sitthvað lýst skorti á þekkingu. Erlendar lánastofnanir sem seldu skuldabréf í íslenskum krónum vissu til að mynda jafn mikið um áhættuna sem fólgin hefur verið í vaxandi viðskiptahalla og litlu myntsamfélagi þegar þeir sannfærðu viðskiptavinina um að kaupa eins og þegar þeir ráðlögðu þeim að selja. Þannig er augljóst að sumir þátttakendur í þessari umræðu hafa verið að kasta steinum úr glerhúsi. Öllu skiptir því að menn vegi og meti gildi þess sem sagt er. Að öðrum kosti verður umræðan misvísandi og villandi en ekki upplýsandi og leiðbeinandi. Hluti af gagnrýninni er hins vegar byggður á gildum rökum, sem ærin ástæða er til að virða. Fæst af því hefur þó komið á óvart. Mikill viðskiptahalli sem auk heldur er að tveimur þriðju hlutum vegna einkaneyslu var þekkt áhyggjuefni og skýr vísbending um að gengi krónunnar myndi ekki standast óbreytt til langframa. Það hefði beinlínis verið óheilbrigt. Davíð Oddsson seðlabankastjóri segir réttilega í viðtali við Fréttablaðið í liðinni viku vegna umræðu um þessi efni að eldurinn brenni heitast á viðskiptabönkunum sjálfum og á þeim hvíli sú skylda að koma skilaboðum út á markaðinn. En á hinn bóginn segir Seðlabankastjórinn að bankinn vilji að sjónarmið hans komi skýrt fram að því er varðar efnahagsumhverfið sjálft. Ekki leikur á tvennu að mikilvægt er að Seðlabankinn tali skýrt og af myndugleik í þessari stöðu þannig að eftir verði tekið bæði heima og erlendis. Þar er kjölfestan. Þaðan eiga að berast skilaboð sem einkennast af yfirvegun en ekki óðagoti; með öðrum orðum skilaboð sem vekja traust. Lengi hefur það verið svo að í yfirstjórn Seðlabankans hefur verið blandað hagfræði- og fjármálaþekkingu ásamt með stjórnmálareynslu. Sá háttur hefur jafnan sætt nokkurri gagnrýni. Þegar allt er slétt og fellt reynir ekki mikið á ólík sjónarmið að þessu leyti. Nú eru hins vegar þær aðstæður að verulega getur reynt á Seðlabankann. Í því ljósi er það bankanum augljós styrkur að hafa í forystu það afl og þann myndugleik sem langvarandi forysta í ríkisstjórn hefur skapað. Það gildir augljóslega gagnvart þeim sem ruglast hafa í ríminu hér heima. En hitt skiptir meira máli að þessi veruleiki í yfirstjórn bankans á að geta gefið þeim skilaboðum hans, sem berast á erlenda fjármálamarkaði, þunga yfirvegunar og stefnufestu. Á því er þörf. Enginn gengur að því gruflandi að skilaboðin frá komandi ársfundi Seðlabankans munu hafa meira gildi en venjulegast er. Að svo miklu leyti sem óróleikinn stafar af misskilningi á að vera unnt að tala markaðinn til nokkuð betra jafnvægis. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Skoðanir Þorsteinn Pálsson Mest lesið Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Vatnamálalögin og Hvammsvirkjun: Almannaheill ? Mörður Árnason Skoðun Ekkert samráð – ekkert traust Björg Eva Erlendsdóttir Skoðun Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun Spurningar og svör um Evrópumál Jón Baldvin Hannibalsson Skoðun
Sá mikli óróleiki sem verið hefur á íslenskum fjármálamarkaði upp á síðkastið vekur eðlilega upp ýmsar áleitnar spurningar. Ein er sú hvernig rétt er að mæta slíkri umræðu og hverjir hafa þar mestar skyldur og bera mesta ábyrgð. Inn á við geta talsmenn ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu vitaskuld tekist á um almenn atriði efnahagsstefnunnar. En í sjálfu sér er það ekki aðalatriði. Hitt skiptir meira máli að koma myndugum og trúverðugum skilaboðum út á markaðinn; það á bæði við heimatúnið og þau útengi hans sem mestu skipta erlendis. Þýðingarmikið er að greina hismið frá kjarnanum í allri þessari umræðu. Sumt af því sem erlendir bankar og matsfyrirtæki hafa sagt um íslensku bankana og íslenska hagkerfið hefur verið rangt, annað villandi og sitthvað lýst skorti á þekkingu. Erlendar lánastofnanir sem seldu skuldabréf í íslenskum krónum vissu til að mynda jafn mikið um áhættuna sem fólgin hefur verið í vaxandi viðskiptahalla og litlu myntsamfélagi þegar þeir sannfærðu viðskiptavinina um að kaupa eins og þegar þeir ráðlögðu þeim að selja. Þannig er augljóst að sumir þátttakendur í þessari umræðu hafa verið að kasta steinum úr glerhúsi. Öllu skiptir því að menn vegi og meti gildi þess sem sagt er. Að öðrum kosti verður umræðan misvísandi og villandi en ekki upplýsandi og leiðbeinandi. Hluti af gagnrýninni er hins vegar byggður á gildum rökum, sem ærin ástæða er til að virða. Fæst af því hefur þó komið á óvart. Mikill viðskiptahalli sem auk heldur er að tveimur þriðju hlutum vegna einkaneyslu var þekkt áhyggjuefni og skýr vísbending um að gengi krónunnar myndi ekki standast óbreytt til langframa. Það hefði beinlínis verið óheilbrigt. Davíð Oddsson seðlabankastjóri segir réttilega í viðtali við Fréttablaðið í liðinni viku vegna umræðu um þessi efni að eldurinn brenni heitast á viðskiptabönkunum sjálfum og á þeim hvíli sú skylda að koma skilaboðum út á markaðinn. En á hinn bóginn segir Seðlabankastjórinn að bankinn vilji að sjónarmið hans komi skýrt fram að því er varðar efnahagsumhverfið sjálft. Ekki leikur á tvennu að mikilvægt er að Seðlabankinn tali skýrt og af myndugleik í þessari stöðu þannig að eftir verði tekið bæði heima og erlendis. Þar er kjölfestan. Þaðan eiga að berast skilaboð sem einkennast af yfirvegun en ekki óðagoti; með öðrum orðum skilaboð sem vekja traust. Lengi hefur það verið svo að í yfirstjórn Seðlabankans hefur verið blandað hagfræði- og fjármálaþekkingu ásamt með stjórnmálareynslu. Sá háttur hefur jafnan sætt nokkurri gagnrýni. Þegar allt er slétt og fellt reynir ekki mikið á ólík sjónarmið að þessu leyti. Nú eru hins vegar þær aðstæður að verulega getur reynt á Seðlabankann. Í því ljósi er það bankanum augljós styrkur að hafa í forystu það afl og þann myndugleik sem langvarandi forysta í ríkisstjórn hefur skapað. Það gildir augljóslega gagnvart þeim sem ruglast hafa í ríminu hér heima. En hitt skiptir meira máli að þessi veruleiki í yfirstjórn bankans á að geta gefið þeim skilaboðum hans, sem berast á erlenda fjármálamarkaði, þunga yfirvegunar og stefnufestu. Á því er þörf. Enginn gengur að því gruflandi að skilaboðin frá komandi ársfundi Seðlabankans munu hafa meira gildi en venjulegast er. Að svo miklu leyti sem óróleikinn stafar af misskilningi á að vera unnt að tala markaðinn til nokkuð betra jafnvægis.