Fastir pennar

Strandaglópar-group

Ætli það hafi ekki verið vegna þess að hann er sálfræðingur: en grein í mogganum í síðustu viku eftir Áskel Örn Kárason varð til þess að ýfa upp hjá mér sárar minningar sem ég hef bælt of lengi með sjálfum mér. Við lestur greinar sálfræðingsins skildi ég að ég yrði að deila reynslu minni með öðrum til að hún yrði ekki að langvarandi meinsemd í sálarlífinu. Bælingar enda í spælingum: ég gæti endað sem langreiður maður að skrifa um fólsku og fylgispekt mér meiri höfunda...

Í mogganum sagði Áskell Örn frá ferð sinni frá Ósló til Keflavíkur og engri þjónustu Flugleiða eða Icelandair group eða FL-group eða Flugfélagið-group eða hvað sem þeir kalla nú þetta gamla félag eigendurnir nýju í baráttu sinni gegn veruleikanum, en eins og kunnugt er var félagið keypt af mönnum sem hafa meiri reynslu af því að láta hlutabréf fljúga en fólk. Ég lenti sem sé í svipuðum ævintýrum á vegum þessa félags og Áskell Örn þann 2. janúar síðastliðinn.

Fjölskyldan var að koma frá Kaupmannahöfn þar sem við dvöldum yfir áramótin. Við vorum fjögur, hjón og tvö börn, tíu og fimm ára. Okkur var ætlað að fara í loftið um klukkan átta um kvöldin svo að við vorum mætt upp úr sex. Sem var eins gott því að við þurftum að ráfa milli termínala í leit að borði þar sem hægt væri að tékka sig inn á vegum Icelandair. Við fundum eitthvað um síðir úti í horni, enda skildist okkur að félagið ætti ekki lengur vinum að mæta hér í ríki SAS eftir kaup sín á Sterling flugfélaginu sem manni skildist að væri til höfuðs hinu gamla félagi.

Við vorum komin út í vél á tilsettum tíma en ekkert gerðist. Klukkustund leið. Þá loks kom tilkynning í hátalara á dönsku eða ensku um að bilun væri í hreyfli og ekkert yrði af ferð okkar að þessu sinni; við myndum gista á hóteli í nótt en ættum fyrst að fara á transit-svæði. Á meðan við vorum að mjakast út úr vélinni sagði ég við stelpurnar mínar að alltaf væri gaman að lenda í ævintýrum og gista á hóteli.

Þegar inn á Kastrup var komið beið okkar enginn frá FL-group. Við eltum kunnuglega baksvipi og komum um síðir á svæði þar sem samfarþegar okkar biðu í langri röð. Við endann á röðinni var borð. Þar hlupu þrjár flaumósa manneskjur í hvítum treyjum fram og til baka og fórnuðu höndum. Um síðir kom í ljós að þetta voru starfsmenn Service-air, sem kann að vera eitt af dulnefnum FL-group. Á svæðinu var enginn frá Flugleiðum. Ekki heldur frá Sterling Air. Klukkustund leið. Ekkert gerðist. Allt einu tók ein manneskjan í hvítu treyjunni sig til og steig upp á stól og fór að halda ræðu. Enginn heyrði orð en þó kvisaðist að verið væri að senda vél að heiman og við myndum fara í loftið klukkan þrjú um nóttina og myndum við fá matarmiða í boði Icelandair-group svo að við gætum gert okkur glaðan dag á kostnað félagsins fyrir sjötíu krónur danskar.

Eftir að hafa staðið í röðinni í klukkutíma til að fá matarmiðana þurfti að halda í flókið ferðalag inn og út úr byggingunni og var þá komið í litla skonsu á vegum 7-11 keðjunnar og hægt að kaupa sér kaldar samlokur með skinku og káli, eftir hálftíma röð. Sumir vildu kaupa sér bjór en afundinn unglingur harðneitaði að selja Íslendingum slíkt, sjálfsagt vegna fyrirmæla. Klukkan var að ganga tólf þegar við vorum loks komin á svokallað fjölskyldusvæði sem okkur hafði verið vísað á. Þar var enginn frá FL-group. Í hópnum voru börn, þar á meðal eitt ungabarn, þarna var roskið fólk og þarna var kona í hjólastól, sumir voru langtaðkomnir.

Raddir heyrðust um að við myndum ekkert fara í loftið klukkan þrjú; þetta væri sjónarspil til að þurfa ekki að setja okkur á hótel. Það gekk að minnsta kosti eftir að vélin fór ekki klukkan þrjú heldur klukkan fimm eftir dauflega vist á hvíldarsvæðinu alla nóttina því á korters fresti komu starfsmenn Kastrup og höfðu í frammi skarkala að því er virtist af einskærri danskri andúð á Íslendingum...

Við vorum komin heim til okkar undir hádegi. Flugfreyjur og flugmenn reyndu að gera okkur þessa ferð minna óbærilega en orðið var en þegar til Keflavíkur kom fauk trappan frá hurð flugvélarinnar svo að við þurftum að bíða inni í vél upp undir klukkutíma. Þegar inn var komið þurftum við að bíða eftir farangrinum og var nú tekin að þyngjast brún á sumum sérstaklega þegar starfsmenn á þjónustuborði önsuðu spurningum um farangurinn með skætingi. Frakki einn tjáði sig af hreinskilni um ömurlegt félag og tókst með naumindum að afstýra því að þjónustufulltrúar Flugleiða sendu á hann öryggisverði.

Þannig fór um flugferð þá. Þegar ég reyndi nokkrum dögum síðar að tala við talsmann félagsins var auðheyrt að þar er enn í fullu gildi hin gamla regla íslensks viðskiptalífs að kúnninn hafi alltaf rangt fyrir sér. Hann lét á sér skilja að ég væri einkum knúinn af öfund yfir launakjörum stjórnenda sem þá voru mjög til umræðu og hefði auk þess viljað komast heim sem fyrst.

Eftir þessa ömurlegu nótt á Kastrup í boði Flugleiða mun mun ég fagna SAS, British Airways, India Air já þó það yrði Airoflot þar sem flugstjórarnir eru víst alltaf fullir: bara allt annað en Flugleiðir eða FL-group eða Icelandair group...






×